«

»

Molar um málfar og miðla 994

Sókn enskunnar, ekki síst í auglýsingum, inn á málsvið okkar bar á góma hér nýlega. Í auglýsingu á Stöð tvö (27.08.2012) var sagt frá Ljósanótt í Reykjanesbæ. Þar var talað um Elly & Vilhjálmur tribute. Þetta er þarflaus sletta. Það var verið að segja okkur að minning þessara ágætu söngsystkina úr Höfnunum verði heiðruð á Ljósanótt.

Ríkissjónvarpið er að undirbúa dansþætti. Samtals munu peningaverðlaun í þáttunum nema 2,4 milljónum króna. Nú er ekki auraleysið þar á bæ. Menningarstefna Ríkissjónvarpsins felst ekki hvað síst í að innræta ungu fólki að fátt skipti meira máli en dans og popp. Það virðist hafa tekist nokkuð vel. Þúsundir íslenskra ungmenna leggja stund á sígilda tónlist. Ríkissjónvarpið hefur ekki haft miklar spurnir af því.

Í fréttum Stöðvar tvö (27.08.202) var fjallað um fyrirhugaða skoðanakönnun (sem sífellt er kölluð þjóðaratkvæðagreiðsla) um efni nýrrar stjórnarskrár. Þar var sagt: Sumum kann að hrýsa hugur við (þessari atkvæðagreiðslu). Hér hefði verið rétt að segja: Sumum kann að hrjósa hugur við …

Athygli Molaskrifara hefur verið vakin á því að íþróttadeild og fréttastofa Ríkisútvarpsins tala jafnan um Ólympíumót fatlaðra í London en ekki Ólympíuleika fatlaðra eins og gert hefur verið til þessa. Á skjáskilti er áletrun um Ólympíuleika fatlaðra , en þulur talar um Ólympíumót fatlaðra. Í fréttum Stöðvar tvö er ýmist talað um mót eða leika. Hvað veldur?
Ríkissjónvarpið sýndi beint frá setningu Ólympíuleika fatlaðra á sérstakri rás. Setningarathöfnin var stórkostlegt sjónarspil. Gaf setningarathöfn aðalleikanna lítið eftir og tónlistin var miklu betri! Það sem Molaskrifari heyrði til íslenska þularins, Adolfs Inga Erlingssonar, var með ágætum en hann hefði mátt sleppa því að hnýta í Elísabetu drottningu.

Tvívegis að undanförnu hefur Molaskrifari séð í æviágripi á undan minningargreinum í Morgunblaðinu að konur hafi verið kvæntar mönnum. Karlar kvænast. Konur og karlar giftast. Þeir Morgunblaðsmenn ættu að lagfæra þessa augljósu villu í prófarkalestri sem vonandi er ekki alveg aflagður þar á bæ.

Af dv.is (28.08.2012): Lögreglunni var gert viðvart þar sem vegfarandi sá manninn ofan á stillas á byggingarsvæði þar. Ekki verður sagt að þetta sé tiltakanlega vel orðað hjá fréttaskrifara dv.is.. Skárra hefði verið , t.d.: Lögreglunni var gert viðvart þegar vegfarandi sá manninn uppi á vinnupöllum á byggingarsvæði. Annars var í gamla daga talað um stillansa, ekki stillasa. Dönskuslettan sú er nú nær horfin og ævinlega er talað um vinnupalla. Meira úr dv.is. Þar segir um Bandaríkjamenn í undirfyrirsögn: Seldu þrefalt fleiri vopn en 2010. Fjöldi vopna er enginn mælikvarði á vopnasölu. Raunar vandséð hvernig ætti að telja. Er ein sprengja eitt vopn? Eitt skot? Í fréttinni kemur fram að verðmæti vopna sem Bandaríkjamenn seldu í fyrra hafi nær þrefaldast frá árinu 2010.

Af visir.is (28.08.2012): Skattamál Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra Danmerkur er aftur komið í sviðsljósið vegna máls sem tekið verður fyrir í réttarsal í Söborg í dag. Hér hefði verið eðlilegra að nota fleirtölu og segja: Skattamál Helle Thorning Schmidt …eru aftur komin í sviðsljósið …

Það var dálítið undarlegt í fréttum BBC World (28.08.2012) þar sem sagt var frá skipsstaða í fárviðri við strönd eyjar við Suður Kóreu að sífellt var talað um skip sem hefði hvolft (capsized) en fréttamyndirnar báru með sér að skipið hafði strandað eða rekið á land við klettótta strönd. Ríkisútvarpið hafði þetta alveg rétt. Þar var sagt frá því að tvö fiskiskip hefðu strandað við suðurkóreska eyju. Enginn er óskeikull. Ekki einu sinni BBC.

Af mbl.is (29.08.2012): Í ljós kom að um misskilning var að ræða á milli flugmanns vélarinnar og flugturnar, samkvæmt frétt BBC. Einmitt !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valur skrifar:

    Já það er líklega rétt hjá þér, á paralympics eru líkamlega fatlaður, Special olympics eru andlega fatlaðir.

  2. Eiður skrifar:

    Held að Special Olympics séu Ólympíuleikar þroskaheftra, annað en Paralympics.

  3. Valur skrifar:

    Mig minnur nú að þetta hafi alltaf heitið special olympics, en núna paralympics. Það er kanski ástæðan fyrir þessari breytingu á íslenska heitinu. Annars finnst mér að þetta megi allveg heita ólympíuleikar fatlaðra, en hvort sem er þá þarf að vera samræmi í þessu, ekki tala um sitthvorn hlutinn.

  4. Jón skrifar:

    Saga Ólympíumóts fatlaðra
    (Paralympic Games)
    Upphaf Ólympíumóts fatlaðra má rekja til fámenns fundar sem haldinn var 1948 um íþróttir fyrir fatlaða, aðallega fyrir fyrrverandi hermenn sem lamast höfðu í seinni heimsstyrjöldinni. Í framhaldi af fundi þessum stjórnaði og skipulagði Sir Ludwig Guttmann, frumkvöðull íþrótta fatlaðra og taugaskurðlæknir við Stoke-Mandeville sjúkrahúsið í Aylsbury í Englandi, fyrstu leikum mænuskaðaðra samtímis því að Ólympíuleikarnir voru haldnir í London 1948.

    Sjá hér
    http://www.ifsport.is/sagaOL.htm

    Aðeins er talað um sumar- og vetrarólympíuleika. Allt annað er ólympíumót m.a. í eðlisfræði og svo,að sjálfsögðu, ólympíuskákmótið sem nú stendur yfir.

  5. Eiður skrifar:

    Veit ég það, sveinki. En í þessum tilvikum var um karlmenn að ræða sem konurnar voru sagðar hafa kvænst.

  6. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Konur geta alveg kvænst líka en þær eru þá auðvitað kvæntar konum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>