«

»

Molar um málfar og miðla 995

Sjáöldin geta sagt til um sjúkdóma, segir í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (28.08.2012). Hér ætti með réttu að standa: Sjáöldrin geta sagt til um sjúkdóma. Hvar er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins?

Molaskrifara þótti undarlega tekið til orða í fréttum Ríkissjónvarps (28.08.2012) af framkvæmdum við Búðahálsvirkjun. Sagt var að 900 kíló af sprengiefni færu í hverja sprengju og sprengdar væru tvær sprengjur á sólarhring. Þarna hefði verið eðlilegra að tala um sprengihleðslur en sprengjur. Þegar sprengihleðsla er sprengd við jarðgangagerð er ekki verið að sprengja sprengju. Sú er að minnsta kosti málkennd Molaskrifara.

Í fréttum Stöðvar tvö (28.08.2012) var sagt frá ástandinu í New Orleans þegar fellibylur var um það bil að skella á borginni. Þulur sagði: Miklar vonir eru bundnar við að flóðvarnagarður sem reistur var við New Orleans…. Síðan vantaði botninn í setninguna því ekki var sagt hverju vonast væri eftir. Líklegast að flóðgarðarnir stæðust þá áraun sem í vændum var. Hálf hugsað, hálfkarað.

Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var frétt um að Hæstiréttur hefði snúið við úrskurði héraðs dóms um að afhenda bæri lögreglunni á Selfossi yfirlit yfir farsímanúmer sem verið höfðu í notkun í Herjólfsdal á tíu mínútna tímabili eldsnemma á mánudagsmorgni. Með því að fá númerin vonaðist lögreglan til að geta haft hendur í hári manns sem nauðgaði ólögráða stúlku í Herjólfsdal skömmu áður. Það var meira en lítið undarlegt að hlusta á forstjóra Símans lýsa því yfir að fyrirtækið væri allt af vilja gert til að vinna með lögreglunni í máli sem þessu. Síminn áfrýjaði ákvörðun héraðsdóms einmitt til þess að torvelda lögreglunni rannsókn málsins og varð að ósk sinni. Ranglega var gefið í skyn með myndnotkun í fréttum Stöðvar tvö að hér hefði verið um að ræða Héraðsdóm Reykjavíkur. Það var Héraðsdómur Suðurlands sem í hlut átti.

Hér hefur stundum verið vikið að óskiljanlegri tregðu Ríkissjónvarps til að leiðrétta það sem rangt hefur verið farið með. Það er grundvallarregla í blaðamennsku að leiðrétta það sem ranglega hefur evrið sagt.. Í Morgunblaðinu (28.08.2012) er leiðrétting með fyrirsögninni: Rangt farið með nafn. Síðan segir: ,,Í grein í mánudagsblaðinu um starfsemi ferðaskrifstofunnar Kilroy á Íslandi misritaðist nafn Þóris Kjartanssonar meðeiganda Íslenskrar fjárfestingar. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum”. Þetta er eins og á að gera. Hér er annað dæmi um leiðréttingu. Þetta er úr nýjasta hefti vikuritsins The Economist: ,,Correction: In our Story on Brazil´s economy last week (,,Facing Headwinds,Dilma changes course”) we said the country has a current-account surplus. It has a trade surplus, but a current-account deficit. Apologies”. Þegar Ríkissjónvarpið fer rangt með nöfn fólks, er yfirleitt látið nægja að segja: Áráttað skal að nafn mannsins sem …. er …. Eða: Tekið skal fram að nafn mannsinns, sem … er. Næstum aldrei er leiðrétt eða beðist afsökunar. Þetta eru vondar vinnureglur sem yfirmenn hafa sett fréttamönnum. En kannski kunna yfirmenn í Efstaleiti ekki grundvallareglur blaðamennsku.

Molalesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (29.08.2012):: Sænska móðurskipið H&M, Hennes & Mauritz, hefur ákveðið að færa út kvígarnar og opna fyrstu verslun fyrirtækisins í Suður Ameríku. Færa út kvígarnar! Það var og. Ekki að spyrja að því á svokölluðu Smartlandi mbl.is.
http://www.mbl.is/smartland/tiska/2012/08/29/h_m_opnar_fyrstu_verslunina_i_sudur_ameriku/ Hér er svo meira af þessu smartlandi mbl.is (30.08.2012): Á dögunum útbjó hún rúmgafl fyrir sig sem kemur ógurlega vel út.. Þetta er alveg ógurlega vel skrifað!

Undarlegt klúður var í upphafi seinni frétta Ríkissjónvarps í gærkveldi (30.08.2012). Engin skýring, engin afsökun. Engu var líkara en nýliðar í tæknideild hafi verið að æfa sig í beinni útsendingu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Hólmfríður. Þetta er hreint ótrúlegt. Mikið er metnaðarleysi Moggans !

  2. Hólmfríður Gestsdóttir skrifar:

    Marta smarta skrifaði líka um „skósíðar gardínur“ um daginn. Kannski hún klæðist þeim?

    Svo er náttúrlega þessi „þýðing“ alveg óborganleg!

    https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10151016432552761&set=a.10150229657537761.313688.579977760&type=1

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>