«

»

Molar um málfar og miðla 996

Þágufallssýkin, sem svo er kölluð, lifir góðu lífi. Í fréttum Stöðvar tvö (29.08.2012) var sagt frá eiturlyfjasmygli: Tollvörðum grunaði … Tollverði grunaði.

Al Jazeera sjónvarpasstöðin var með frétt (31.08.2012) http://www.aljazeera.com/news/europe/2012/08/2012831103418624811.html af málaferlum tveggja rússneskra auðjöfra, ólígarkanna Abramóvich og Berezovskys. Sá síðarnefndi hafði tapað fimm milljarða dollara skaðabótamáli gegn þeim fyrrnefnda. Ólígarkar eru þeir Rússar kallaðir sem voru svo mikið í náðinni að þeir fengu að kaupa ríkisfyrirtæki og ríkiseignir fyrir brot af raunvirði eftir hrun kommúnismans. Þeir eru margir meðal ríkustu manna heims, þekktir fyrir óhóf í öllum efnum. Berast meira á en nokkrir aðrir og búa flestir í London . Forseti Íslands, þjóðhöfðinginn okkar, hefur ræktað vinskap við einn þessara manna, auðjöfurinn Abramovich, sem er einn sá alræmdasti úr þessum hópi. Forsetinn og fékk meira að segja að fljúga í flugvélinni hans. Fékk að sitja í, eins og sagt var. Ekki verður betur séð en forsetahjónin séu á mynd með Abramovich í fréttinni sem nefnd er hér að ofan. Lesendur getað skoðað fréttina og sjálfir dæmt hvort rétt er séð. Myndskeiðið er alveg undir lok fréttarinnar. Alltaf að kynna landið, Ólafur Ragnar.

500 milljónir af nýju hlutafé, segir í undirfyrirsögn á dv.is (29.082012). Hljómar ekki rétt. Betra væri: Nýtt hlutafé nemur 500 milljónum.

Rétt er að tala um tvenn verðlaun, þrenn verðlaun og fern verðlaun. En er rétt að tala um tuttugu og tvenn verðlaun eins og gert var nýlega í Ríkissjónvarpinu (29.008.2012)? Molaskrifari hefur efasemdir um það, en vel má vera að þetta sé rétt.

Skyrgámur í viku hverri til Finnlands, er góð fyrirsögn á mbl.is (30.08.2012). Finnar kunna gott að meta. Það kann Molaskrifari líka. Það hefur vakið athygli hans að 500 gr. skyrdós kostar 197 kr. í Bónus, en sé skyrið með vanillubragði kostar dósin 297 kr. Dýr er vanilludropinn!

Af visir.is (30.08.2012): … en þeir komu fljúgandi á þyrlunni hingað til lands í gegnum Hjaltlandseyjar og Færeyjar. Af hverju í gegnum? Af hverju ekki með viðkomu á Hjaltlandseyjum og í Færeyjum, eða um Hjaltlandseyjar og Færeyjar? Enskulegt orðlag.

Matreiðsluþáttur Hrefnu Sætran á fimmtudagskvöld (30.08.2012) í Ríkisjónvarpinu var fínn. Hún er óhrædd við að gefa ímyndaraflinu lausan tauminn, – fagmaður á ferð og nú þurfti maður ekki að vera logandi hræddur um að kokkurinn skæri af sér puttana, – kunni réttu handtökin. Það bætti ekki þáttinn að hafa þáttagerðarmann, starfsmann Ríkisútvarpsins beint úr kaffiauglýsingu í sjónvarpinu talandi við okkur með munninn fullan af mat í lok þáttarins. Það var líka óþarfi að láta hann auglýsa Bolabjór og rauðvínsþamb í lok þáttarins. Stundum og of oft er eins og stjórnendum Ríkissjónvarpsins sé ekki sjálfrátt. Matreiðslan og þáttur Hrefnu var með miklum ágætum.

Í fréttum Stöðvar tvö (30.08.2012) var talað um hæfileika sem góður málari þarf að bera með sér. Betra hefði verið að tala um hæfileika sem góður málari þurfi að hafa til að bera, vera gæddur.

Í fréttum Ríkissjónvarps (30.08.2012) var talað um tillögu sem gengi skemur en… Molaskrifari hallast að því að tala hefði átt um tillögu sem gengi skemmra en ..

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>