«

»

Molar um málfar og miðla 997

Góðvinur Molaskrifara, Kjartan Jóhannsson sendi eftirfarandi sem Molaskrifari tekur heils hugar undir. Kjartan segir: ,,Ég varð hnugginn við að horfa á fréttir í báðum fréttatímum sjónvarpsstöðvanna í kvöld.
Báðar stöðvar gátu þess í inngangsyfirliti frétta, meðal hins fyrsta, að íslenskur piltur hefði unnið til gullverðlauna í Ólympíukeppni fyrr í í dag, en síðan fór lítið fyrir framhaldi á fréttaflutningnum fyrr en meir en tuttugu mínútum síðar. Þá flokkaðist Ólympíugullið hjá Íslendingnum í flokki með viðbúnu og venjubundnu tapi íslensks körfuboltaliðs og auðvitað mjög markverðum markaskorunum Arsenals og þeirra kumpána á Englandi.
Strákurinn vann gull í flokki jafningja. Mér finnst það lýsa viðhorfi, sem ég kann ekki að meta, hvernig fréttastofurnar höguðu frásögn sinni af afrekinu. Það var reyndar svo að stór hluti fréttanna snerist um viðhorf ráðamanna fyrr og síðar til úrskurða Jafnréttisráðs. Allt gott um það. Fyrir mér er hins vegar jafnréttisflís í augum fréttastofanna, þegar íslenskt gull er afgreitt með ofangreindum hætti. “ Kærar þakkir , Kjartan. Þetta var svo sannarlega undarlegt fréttamat að ekki sé meira sagt.

Ágætur þáttur í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (02.09.2012) um eðalbæinn Akureyri. Vel fór á því að þáttur vinar míns Magnúsar Bjarnfreðssonar frá upphafsárunum skyldi vera einskonar umgjörð um þáttinn í gærkveldi. Blessuð sé minning Magnúsar. Með honum er genginn góður drengur, traustur vinur og ógleymanlegur maður. Í safni sjónvarpsins leynast margar perlur þar sem hann kom við sögu.

Bærinn telur sig eiga forkaupsrétt í félagið, að sögn bæjarstjóra var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (31.08.2012) Hér hefði að mati Molaskrifara átt að nota aðra forsetningu og segja að bærinn teldi sig eiga forkaupsrétt á félaginu eða að félaginu..

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (31.08.2012) var talað um ríki Bandaríkjunum sem heitir Arkansas. Flestum fréttamönnum lærist að s-ið í niðurlagi heitisins er ekki borið fram heldur er framburðurinn nálægt því að vera [a:kanso]. Í þessu tilviki var heiti ríkisins borið fram með sterku s-hljóði í endann, [arkansaS]. Hefur heyrst áður.

Fulltrúa Íbúðalánasjóðs varð tíðrætt í fréttum (31.08.2012) um eignir, íbúðir, sem skiptu um hendur. Molaskrifara hefur alltaf fundist það óþolandi orðalag að tala um að eitthvað skipti um hendur þegar eigendaskipti verða.

Það orkar tvímælis að vekja hlustendur Ríkisútvarpsins, Rásar eitt, með samfaralýsingu uppúr klukkan sjö á laugardagsmorgni (01.09.2012). Enn meira tvímælis orkar þó að kalla slíkt efni Útvarpsperlu.

Eitt er að þulur mismæli sig í lestri og biðjist afsökunar. Það var svo sem nógu slæmt. Verra er þó þegar á vef Ríkisútvarpsins er farið rangt með nafn eins fyrsta, fremsta og kunnasta starfsmanns Sjónvarpsins þegar hans og starfa hans fyrir Ríkisútvarpið var minnst á föstudag (31.08.202). Frámunalega léleg vinnubrögð og fréttastofunni til háborinnar skammar.
Fyrirtækið Advania ávarpar okkur á ensku í sjónvarpsauglýsingu (Stöð tvö 02.09.2012) og segir Welcome to IT. Sú hugmynd íslensks fyrirtækis að ávarpa okkur á ensku er andvana fædd.
Skýrt var frá því um mánaðamótin að fréttaritara Ríkisútvarpsins á Suðurlandi hefði verið sagt upp. Þessi fréttaritari hefur kannski ekki bestu útvarpsrödd í heimi en hann hefur verið naskur að finna áhugaverðar fréttir á Suðurlandi þar sem mannlega hliðin oftar en ekki hefur verið í öndvegi. Hér er verið að draga úr landsbyggðartengslum fréttastofunnar. Óskiljanleg og varla til sparnaðar er sú ákvörðun útvarpsstjórans að láta fréttaritara Ríkisútvarpsins í Vestmannaeyjum sinna öllu Suðurlandi. Fyrr má nú hugsa hlýtt til síns heimabæjar, gæti einhver sagt. Sjá hér nánar um þessa ákvörðun útvarpsstjóra: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/01/hagraett_a_frettastofu_ruv/

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Pétur skrifar:

    Ég held að ríkisútvarpið geri ekkert fréttamat. Það er engu líkara en að starfsmennirnir taki sjálfkrafa og hugsanalaust allar fréttir frá bandarískum fréttastofum. Þannig hefur glumið í ríkisfjölmiðlinum, sem fyrsta frétt í þrjár vikur, afspurnir af lægð sem gengur yfir Bandaríkin. Vindur þessi væri varla fréttnæmur ef hann herjaði á önnur lönd. Þá eru dagsskrágerðarmenn RÚV afar andlausir og skortir allt frumkvæði og frumlegheit. Dagskrárþættir RÚV einkennast af dulbúnum auglýsingum, þar sem væntanlega vinir og kunningjar dagskrárgerðarmannanna fá að auglýsa fyrirtæki sín og bækur ókeypis að vild. Þetta á sérstaklega við um morgunþættina á virkum dögum og svo morgunþætti á sunnudögum. Hagræðing RÚV gekk út á að reka einn starfsmann, sem hefur staðið sig ágætlega. Gjörningurinn er sérstæður viðurstyggilegur og lýsir smáborgaraskap útvarpsstjórans fullkomlega.

  2. Konráð Erlendsson skrifar:

    Sæll.

    ,,…. varð tíðrætt í fréttum (31.08.2012) um eignir, íbúðir, sem skiptu um hendur.“

    Það fer líka mjög í taugarnar á mér að íbúðir og hús skuli ævinlega vera kölluð,,eignir“ . Þetta er undantekningalaust gert meðal fasteignasala. Fallegt og gott einbýlishús heitir ,,glæsileg eign“. Talað er um ,,góða eign“ þegar átt er við íbúð í fjölbýlishúsi. Af hverju má ekki tala um hús, sumarhús eða íbúð?

    Kveðjur, K.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>