«

»

Molar um málfar og miðla 1002

Molalesandi sendi eftirfarandi: ,,Þar sem ég les af og til pistla þína um mola og málfar datt mér í hug að senda þér tilvitnun í skondna fréttatilkynningu innanríkisráðuneytisins 4. þ.m. um að Fossvogskirkjugarður,fagni nú 80 ára afmæli sínu? Ég hefði ekki talið að kirkjugarður væri í stakk búinn til að fagna einu eða neinu, og því ætti einfaldlega að segja í fyrirsögn: ,,Fossvogskirkjugarður 80 ára“ eða,,Hátíðahöld í tilefni af 80 ára afmæli Fossvogskirkjugarðs“. Molaskrifari þakkar sendinguna og er sammála.
Heldur er hvimleitt að heyra dagskrárkynni Ríkissjónvarpsins yfirfæra enskan framburð á orð úr öðrum tungumálum. Í dagskrárkynningu um tónleika í Schönbrunn hallargarðinum var ítrekað talað um [sjonnbrönn]. Hér má heyra réttan framburð: http://www.pronounceitright.com/pronounce/8216/schonbrunn Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður og þulur var hinsvegar með framburðinn á Schönbrunn á hreinu.
Annar Molalesandi sendi þetta (07.09.2012) : ,,Fékk rétt í þessu, sem oftar, skeyti frá okkar kæru Sinfóníuhljómsveit. Kannski færð þú svona skeyti líka. Fyrirsögnin er:
Nýtt starfsár hefur göngu sína
Held ég þurfi ekki að segja fleira!?” Molaskrifar þakkar. Fékk samhljóða skeyti. Hér er engu við að bæta. Ekki þarf að segja fleira.
Ágúst Ragnarsson sendi eftirfarandi (05.09.2012): ,,Ég er einn af hollvinum varðskipsins Óðins (hef m.a. skipherramenntun).Svo kom þetta: Annar Molalesandi sendi eftirfarandi: ,,Í frétt Sjónvarpsins á sunnudagskvöld 2. september var sagt frá því merkisafmæli, að 50 ár væru liðin frá upphafi annars af þremur þorskastríðum Íslendinga. Í fréttinni og á vefnum www.ruv.is var þetta orðað svo, að 50 ár væru liðin frá því að ,,…annað af þremur þorskastríðum braust út eftir að Íslendingar færðu landhelgina út í 50 mílur.“
Í lok fréttarinnar sá hins vegar þulurinn ástæðu til að leiðrétta þetta og segja að þorskastríðin hefðu að sjálfsögðu verið TVÖ!
Ég sýni stundum áhugasömum gestum (sjóminja)safnsins varðskipið og segi sögu þorskastríðanna. Nú spyr ég: Fyrir 50 árum var árið 1962. Stríðið sem þá hófst hefur alveg farið fram hjá mér. Hvað á ég að segja gestum um borð í varðskipinu?? Svar óskast frá fréttastofu Sjónvarpsins.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Nú er beðið eftir svari frá Fréttastofu Ríkissjónvarpsins.

Fínt var að fá Gustavo Dudamel og Vínarfilharmóníuna og tónleikana í Schönbrunn hallargarðinum í Ríkissjónvarpi á miðvikudagskvöld (05.09.2012) Langt er síðan þessir tónleikar voru sýndir í norska sjónvarpinu NRK2, en þetta er efni sem ekki eldist. Gjarnan mætti sýna okkur meira af þessu tagi.

Molaskrifari er ekki alveg viss um að hann muni þegar þar að kemur fara að sjá myndina um dagdrauma Walters Mitty sem verið er að endurgera hér á landi þessa dagana.. Hann sá nefnilega upphaflegu myndina ( The Secret Life of Walter Mitty) sem gerð var 1947. Myndin var sýnd í Gamla bíói líklega 1949 eða 1950. Á þeim árum var löng leið fyrir nýjar kvikmyndir til Íslands þangað til Árni Samúelsson, bíóstjóri, breytti því áratugum seinna. Í móðu minninganna var þessi mynd með Danny Kaye í aðalhlutverki alveg óendanlega skemmtileg. Það mundi bara eyðileggja góða minningu að sjá jafnvel þann ágæta leikara Ben Stiller í hlutverki Walters Mitty.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Heldur betur ! , Ja, hérna. Takk fyrir K kv Eiður

  2. sigurður h magnússon skrifar:

    2002. Það er aldeilis.

  3. Gunnar skrifar:

    Til hamingju með áfangann Eiður. VIldi bara senda þér vinsamlega ábendingu um að þér hefur skrikað fingur á hnappaborðinu. Nýjasti pistillin er númer 2002, en sá á undan er númer 1001.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>