«

»

Molar um málfar og miðla 1007

Góðvinur Molanna vakti athygli Molaskrifara á auglýsingu frá Ferðamálastofu í kynningarblaði sem nefnt er Fólk og fylgdi Fréttablaðinu á þriðjudaginn (10.09.2012) Fyrirsögn auglýsingarinnar er: Styrkir til skipulags hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn. Hér vaknar fyrsta spurningin: Á að hanna áfangastaði? Í næstu setningu, undirfyrirsögn segir: Ferðamálastofa auglýsir eftir umsóknum um styrki til skipulags á áfangastöðum fyrir ferðamenn sem ekki eru í eigu eða umsjón ríkisins. Molaskrifari vissi ekki að ferðamenn gætu verið í eigu ríkisins og taka þyrfti sérstaklega fram að átt væri við ferðamenn sem ekki væru í eigu eða umsjón ríkisins. Síðan segir: Um er að ræða 3-4 styrki að upphæð allt að kr. 3 milljónir. Er það hver styrkur sem getur numið allt að 3 milljónum eða styrkirnir samtals? Kemur ekki fram. Í auglýsingunni segir að styrkir geti að jafnaði ekki numið hærri upphæð en 75% heildarkostnaðar. Heildarkostnaðar við hvað? Það kemur hvergi fram. Enn segir: Við yfirferð umsókna er (betra væri, – verður) tekið mið af markmiðum ferðamálaáætlunar 20112-2020 sjálfbærnissjónarmiða (!) og nýnæmis (!). Hér hefði átt að standa : … verður tekið mið af markmiðum … sjálfbærnissjónarmiðum og nýnæmi. Hér verður látið staðar numið en ótal margt fleira í þessari auglýsingu frá Ferðamálastofu,sem er opinber stofnun, mætti betur fara. Þessi auglýsing er eiginlega grátbrosleg. Það er dapurlegt að opinber stofnun skuli láta svona hrákasmíð frá sér fara og broslegt að tala um ferðamenn sem ekki eru í eigu ríkisins. Það er ekki traustvekjandi þegar opinberar stofnanir láta svona auglýsingar frá sér fara.

Við hlið auglýsingarinnar frá Ferðamálastofu er auglýsing frá fasteignasölu þar sem auglýst er til sölu 70 fm 2ja enda íbúð á 2. hæð í fallegu húsi. Hvernig skyldi 2ja enda íbúð líta út ? Eins gott að hún sé ekki opinn í báða enda eins og tiltekinn stjórnmála hefur haft orð á sér fyrir að vera !

…hér á klakanum, sagði fréttamaður í tíufréttum Ríkissjónvarpsins í gærkveldi (13.09.2012). Hann átti við hér á landi, hér á Íslandi. Óboðlegt orðalag í fréttum.

Eggert benti á þessa frétt (11.09.2012): http://www.ruv.is/frett/villtar-kaninur-til-vandraeda-a-selfossi og segir: ,,Í fyrirsögn þessarar fréttar er talað um að kanínur séu til vandræða á Selfossi – í textanum er talað um Árborg og að lokum kemur fram að kanínur séu helst til vandræða á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Sem gömlum Hvergerðingi finnst mér vissum áfanga náð í niðurlægingu íbúa á
Stokkseyri og Eyrarbakka, þegar sameinaða sveitarfélagið Árborg er kallað
Selfoss af fréttastofu Ríkisútvarpsins.”

Í veðurfréttum (11.09.2012) var talað um borgarísjaka sem sæist vel í radar. Er hið ágæta orð ratsjá fallið í gleymsku?

…vegna þess að hann (þjálfarinn) hafði áhyggjur af formi hennar , sagði íþróttafréttamaður í Ríkisútvarpinu (11.09.2012). Þjálfarinn hafði áhyggjur af því að hún væri ekki nægilega vel á sig komin.

.. kann öll trixin í bókinni, sagði hér-á-rúv konan í dagskrárkynningu (11.09.2012). Hvað segir málfarsráðunautur? Hann er kannski hættur?

Einar Kr. sendi þetta (11.09.2012): ,,Á mbl.is í morgun (11.9.) var frétt með fyrirsögninni: „Makríll veiddur niður til að hjálpa síldinni“. Ég skil ekki þessa setningu, hef aldrei heyrt svona tekið til orða. Hvað þýðir á íslensku að „veiða makríl niður“? Var verið að veiða hann ofan í eldhúspott? Var verið að fanga hann í net og sökkva því síðan til botns svo að betur væri hægt að veiða síldina? Í fréttinni má lesa að nú er svo komið að aukning makrílsins ógnar norsk-íslenska síldarstofninum, þar sem báðar fisktegundir sækja í sömu fæðuna, og bregðast ætti við með því „að veiða niður makrílinn“. Hvernig væri að skrifa þetta á skiljanlegu máli og einfaldlega segja að veiða þurfi meira af makríl og minnka stofninn til að hjálpa síldinni.” Molaskrifari þakkar Einari Kr. sendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>