«

»

Molar um málfar og miðla 1011

Undir fyrirsögninni Fjólupabbi, sendi Guðmundur R. Jóhannsson eftirfarandi (15.09.2012): ,,Í sunnudagsmogganum 16.9. er opna þar sem eru myndir teknar af Þorvaldi Erni Kristmundssyni sem hefur gert það að eilífðarverkefni, eins og hann orðar það, að taka myndir af menningararfinum sem er óðum að hverfa. Ágætar myndir og textar með en mis ágætir.
Þar er bóndi sem stendur við,,kindahús sem byggt var fyrir meira en hundrað árum“ Einu sinni hétu þetta fjárhús.
,,Jón Guðjónsson frá Laugabóli leiðir ótemju sem ber barnabarn hans á baki“
Ótemja hélt ég að væri ótaminn foli, þ.e. villtur hestur sem engum viti bornum dytti í hug að setja ungt barn á. Enda sýnir myndin ákaflega rólyndislegan hest sem gæti verið gamall kerruklár. Veit annars nokkur hvað kerruklár er? Eins hélt ég að venja væri að teyma hest en ekki leiða, enda hélt maðurinn í taum en ekki í hóf hestsins.
Svo kemur ,,..á Látrum, er einn fárra bónda í fullu starfi á svæðinu”.
Einu sinni var fleirtalan bændur, og því líklegt að þessi ágæti bóndi sé einn fárra bænda á svæðinu. Af hverju ekki í sveitinni?
Í þessu ágæta blaði deginum áður var í Víkverja sagt: „Heimtur af túnum voru … mun minni”. Ég man að talað var um að fé heimtist af fjalli, en ekki taða af túnum. Þetta ætti að vera ,,heyfengur var mun minni..“
Svo man ég að fyrir nokkru var mynd, líklega í Mogganum, af konu að ganga upp smá hæð og í myndatexta stóð ,, ..gengur upp að steini sem staðsettur er á hólnum. Ég hélt að ef steinn væri á hólnum, væri hann einnig staðsettur þar og þyrfti ekki að taka það fram” . Molaskrifari þakkar þetta ágæta bréf.

Berglind Guðmundsdóttir þakkar þessa pistla og segir (17.09.2012): ,,Mig langaði að benda þér á beygingu fréttamanna á orðinu ,,afréttir“. Undanfarið hef ég séð þetta orð í mörgum ótrúlegum myndum, vegna ástandsins fyrir norðan. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/17/snjokoma_hamlar_leit/
Í meðfylgjandi frétt er sagt „afréttindum“ eins og verið sé að tala um réttindi frekar en réttir.” Molaskrifari þakkar Berglindi sendinguna.

Gasleki varð til þess að öflug sprenging sprakk … var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (17.09.2012). Ekki er rétt að tala um að sprenging hafi sprungið. Sprenging varð, hefði verið betra.

Í fréttum Stöðvar tvö (17.09.2012) var sagt að ekki væri hægt að slá því á föstu að … Forsetningunni á er hér ofaukið. Ekki væri hægt að slá því föstu að … Í sama fréttatíma var rætt við kanadískt par sem varð innlyksa í fjallaskála vegna ófærðar og gat ekki látið vita af sér. Þau hefðu hinsvegar átt góðar stundir á Íslandi þrátt fyrir nokkrar hrakningar. Betra hefði verið: Þrátt fyrir nokkra hrakninga.

Á dagskrá Ríkissjónvarpsins í kvöld er bráðskemmtilegur tónleikaþáttur frá BBC Last Night of the Proms. Ýmsir tónlistarunnendur sem aðgang hafa að erlendum stöðvum eru sjálfsagt búnir að sjá þáttinn, því hann var víða, t.d. í norska sjónvarpinu, sýndur í beinni útsendingu. Gott er að fá að sjá hann hér þótt með seinni skipunum sé. Vonandi fáum við meira af slíku efni í vetur.

Örugglega nýtur morgunþáttur Sirrýjar á Rás 2 á sunnudögum töluverðra vinsælda, enda er þar fjölbreytt efni og efnistök allt önnur og betri en virka morgna á Rás tvö. Of mikið er þó um auglýsingar í þættinum. Í þættinum sl. sunnudag (16.09.2012) var löng auglýsing um veisluþjónustu sem er á boðstólum í Iðnó. Í þessum þætti voru kynningar á tónlist í lágmarki. Okkur var ekki sagt að ljóðið Í Vatnsmýrinni væri eftir Tómas Guðmundsson og lagið eftir Sigfús Halldórsson. Okkur var heldur ekki sagt að ljóðið eða textinn við lagið Við Reykjavíkurtjörn væri eftir Davíð Oddsson og lagið eftir Gunnar Þórðarson. Svo var það áreiðanlega mismæli hjá annars ágætlega máli förnum umsjónarmanni að spyrja viðmælanda sinn hvort henni þætti íslensk náttúra eitthvað spes?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, María.

  2. María Gunnarsdóttir skrifar:

    Sæll !

    Ég tók eftir þessu með kindahúsið og fór þess vegna á netið að leita að dæmum. Ég fann þessi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans:
    http://www2.lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=253757&s=306010&l=kindah%FAs&r=u

    Bestu kveðjur
    María Gunnarsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>