«

»

Molar um málfar og miðla 1012

Einar Kr. sendi Molum eftirfarandi bréf (16.09.2012): ,,Á mbl.is 16.9. er frétt með fyrirsögninni „Vaknaði ekki þrátt fyrir sáran barnsgrát“ og í fréttinni segir enn fremur að lögreglan hafi fengið tilkynningu um „mikinn barnsgrát“. Menn vakna ekki við mikinn grát heldur grátur. Menn minnast ekki grátsins heldur grátursins eða hins sára gráturs (ekki gráts). Orðið fallbeygist grátur, um grátur, frá grátri, til gráturs og gráturinn, um gráturinn, frá grátrinum, til grátursins. Það er rangt en því miður æ algengara að fallbeygja orðið eins og kemur fram í fréttinni, grátur um grát, eða gráturinn um grátinn! Náskylt orðinu grátur er hlátur. Við segjum ekki hlátur um hlát, er það? Varla dytti nokkrum í hug að falla í þann pytt að segja að menn vakni upp við mikinn barnshlát! … nei barnshlátur.” Molaskrifari þakkar Einari Kr. bréfið. Molaskrifari er reyndar ekki sammála Einari um þessa beygingu. Karlkynsorðið , grátur, sem aðeins er til í eintölu beygist , grátur um grát frá gráti til gráturs. Sú er a.m.k. máltilfinning Molaskrifara.

Af mbl.is (18.07.2012). „Þetta er fólk sem borgar ekki tekjuskatt. Þannig að skilaboð okkar um lága taxa ná ekki til þeirra. …” Þegar á mbl.is er talað um lága taxa er ekki verið að tala um lága leigubíla. Það var verið að tala um lága skatta. Maður er eiginlega hættur að verða hissa. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/09/17/sagdi_halfa_thjodina_velferdarthega/

Nýbirt skýrsla Seðlabankans um kosti í gjaldmiðilsmálum er mikið plagg. Áhugavert er að rýna í umfjöllun fjölmiðla um skýrsluna. Umfjöllun Morgunblaðsins sker sig dálítið úr. Hún sýnir að ekki geta lesendur alltaf treyst því að Morgunblaðið fjalli hlutlægt og heiðarlega um mikilvæg mál. Umfjöllun blaðsins um skýrsluna er rammpólitísk og bjöguð. Bjögun staðreynda á heima í leiðurum og Staksteinum Morgunblaðsins. Við eigum að geta treyst fréttasíðunum.

Prýðileg umfjöllun Kastljóss (18.09.2012) um okurlánastarfsemi svokallaðra smálánafyrirtækjum. Fróðlegt væri fyrir okkur að fá að vita hverjir það eru á Alþingi sem standa gegn því að starfsemi þessara fyrirtæka verði settar skorður. Eru það fulltrúar þeirrar svokölluðu frjálshyggju sem telja allt eftirlit og takmarkanir á rekstri fjármálafyrirtækinu af hinu illa? Frumvörp daga ekki uppi á Alþingi nema einhverjir beiti sér gegn framgangi þeirra.

Veðurstofan spáir skúrum eða él, sagði fréttamaður bæði á undan og eftir kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (19.09.2012). Spáir skúrum eða éljum hefði þetta átt að vera. Undarlegt að enginn á fréttastofunni skuli hlusta eða heyra, – og færa til betri vegar.

Í Silfri Egils um liðna helgi sagði Sighvatur Björgvinsson eitthvað á þá leið að sumir þingmenn væru ekki nægilega góðir í íslensku. Þetta tóku þær flokkssystur Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri Útvarps Sögu og Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokks óstinnt upp. Í útvarpsþætti í Útvarpi Sögu (17.09.2012) þar sem talað var illa um Sighvat og marga fleiri sagði Vigdís Hauksdóttir um aðildarumsóknina að ESB: Það á að setja þessa Evrópuumsókn á einhvern klaka. Sitthvað sagði konan reyndar fleira. En Sighvatur hitti naglann á höfuðið.

Ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag, ohf, Utanaðkomandi sýnist stundum að Ríkisútvarpið sé fremur rekið sem einkahlutafélag, ehf. Það sannaðist þegar sú frétt lak í blöðin að segja ætti upp allmörgum starfsmönnum við menningarrás útvarpsins, Rás eitt. Stjórnarformaður og stjórn Ríkisútvarpsins komu af fjöllum. Höfðu aldrei heyrt á málið minnst. Vissu ekkert um fyrirhugaðar uppsagnir. Til hvers er að hafa stjórn yfir stofnuninni, ef hún fær ekkert að vita um reksturinn? Nú er reyndar komið í ljós (20.09.2012) að stjórnin virðist hafa tekið á sig rögg og sagt útvarpsstjóra fyrir verkum. Tími til kominn. Til uppsagna kemur ekki á Rás eitt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Einar Kr. skrifar:

    Innlegg og röksemdir Jóns, Þorvaldar S. og Eiðs varðandi fallbeygingu orðsins grátur sýna að ég hef ekki gætt þess að kynna mér heimildir nægilega og ekki deili ég við Árnastofnun eða Orðabók Háskólans. Ég byggði athugasemd mína á máltilfinningu frá æsku og samjöfnuð við orðið hlátur, að ég hélt, á góðum grunni málfræðiþekkingar frá barnaskóla og ríkum áhrifum frá ömmu minni og afa, sem voru mikið íslenskufólk. Má vera að máltilfinning mín sé því landshlutabundin. En hafa skal það sem sannara reynist. Bestu þakkir fyrir innlegg ykkar.

  2. Eiður skrifar:

    Auðvitað er þetta rétt hjá þér, Þorvaldur – ég skoðaði beyginguna á vefa Árnastofnunar , en hef í hugsunarleysi skrifað gráturs +í stað gráts. Biðst velvirðingar á þessum fádæma klaufaskap. Var raunar búinn að lýsa mig ósammála skoðun Einars Kr.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    Það er vitaskuld fjarstæða að „rétt“ beyging gráts sé eins og hláturs. Einar Kr. hlýtur eiginlega að vera að grínast. Hins vegar skýst hinum oft skýra Eiði þegar hann segir eignarfallið vera gráturs. Skv.hefðinni, og sömuleiðis http://bin.arnastofnun.is/leit.php?id=6277 er eignarfallið gráts. Þá er ekkert dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans um notkun skv. kenningu Einars og er því vandséð hvaðan hann hefur heimildir sínar nema hér sé um að ræða sértæka og stétt-eða landshlutabundna notkun sem málfræðingum er almennt ókunnugt um. Væri því fengur að ef þessu yrði komið á framfæri við Orðabókina.

  4. Emil Ragnar Hjartarson skrifar:

    Það voru kvöldfréttir á Stöð 2 en ekki Rás 2
    Þetta kennir manni að lesa það sem er skráð vandlega áður en það er sent

  5. Jón skrifar:

    Tekið af vef Árnastofnunar

    Nf.

    grátur

    gráturinn

    Þf.

    grát

    grátinn

    Þgf.

    gráti

    grátinum

    Ef.

    gráts

    grátsins

  6. Eiður skrifar:

    Ég heyrði þetta líka, Emil Ragnar. Í fréttum Stöðvar tvö.

  7. Emil Ragnar Hjartarson skrifar:

    Í kvöldfréttum Rásar 2 19. september var sagt frá umdeildri launahækkun handa forstjóra Landspítalans. Fréttamaður tók svona til orða:

    „Var ráðahagurinn strax mjög umdeildur “

    Það kom ekki fram í fréttinni að einhver ætlaði að fara að gifta sig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>