«

»

Molar um málfar og miðla 1013

Molavin sendi eftirfarandi (18.09.2012): ,,Pressan segir okkur: „Októberfest á Íslandi var slaufað með stæl í nótt, en yfir 2000 gestir voru mættir í tjaldið sem sett var upp sérstaklega fyrir hátíðina.“ Síðan er upptalning á allri þeirri skemmtun, sem fram fór og var hún þó nokkur þrátt fyrir að hætt hafi verið við októberhátíðina, ef marka má orðalagið. Leikskólabörn fjölmiðlanna þekkja ekki muninn á að slaufa og slíta”. Ekki var það gott. Molaskrifari þakkar sendinguna.

Umferðarauglýsingar tryggingafélagsins VÍS sem um þessar mundir birtast á skjánum eru vel gerðar og vekja athygli. Prik fyrir það. Sömuleiðis eru borgaauglýsingar Icelandair prýðishugmynd, Bættu smá ….í líf þitt. Er það missýning að einn af umsjónarmönnum Kastljóss, Ragnhildur Steinunn komi fram í Denver auglýsingu Icelandair? Stefnubreyting hjá Ríkissjónvarpinu varðandi starfsmenn og auglýsingar? Ef svo er þá er það hvorki henni né Kastljósi til framdráttar.

Hér kemur meira um beygingu orðsins grátur. Bjarki Karlsson skrifar (20.09.2012): ,,Ég er næsta viss um að ábending Einars Kr. í molum 1012 sé alröng. Vissulega ríma orðin grátur og hlátur og merking þeirra kallast á en þau beygjast ekki eins. Beygingarlýsing Árnastofnunar gefur upp beyginguna: grátur-grát-gráti-gráts (http://bin.arnastofnun.is/leit.php?id=6277). Engin önnur beyging er sýnd og er beygingarlýsingin þó frjálslyndust orðabóka í að samþykkja fleiri en eina beygingu, enda á hún að vera lýsandi fremur en leiðbeinandi.
Í pistli sínum um Íslenskt mál í Morgunblaðinu 7. mars 1998 skrifar Gísli Jónsson:
Jón Þórarinsson tónskáld hringdi til mín og minntist á málgalla sem angrar okkur báða. Á stuttum tíma, að við ætlum, hafa mjög margir tekið upp á því að beygja karlkynsnafnorðið grátur eins og hlátur . Menn segja þá til dæmis að stutt sé á milli hláturs og ?gráturs. Jón kannaði þetta mál og fann ískyggilega mörg dæmi meðal yngra fólks.
Umsjónarmanni þykir því rétt að ítreka: Hlátur beygist eins og aldur: hlátur, hlátur, hlátri, hláturs. Með öðrum orðum: r -ið er stofnlægt. Grátur beygist hins vegar eins og faldur: grátur, grát, gráti, gráts. Þarna er r -ið ekki stofnlægt. Það er því stutt á milli hláturs og gráts .

Svo má líka minna á það sem skáldið orti um móðurmálið.

Fór ég í heiði, fékk ég eina tínu.
Fór ég á engi, sló ég miðlungsbrýnu.
Út reri ég – og einn ég fékk í hlut.
Upp dreg ég bát í naust með léttan skut.
Stilltu þig, son minn. Stillið grátinn, dætur,
strengharpa mín þó laskist. Góðar nætur!
Norræna lifir, einn þó undan beri
útskagamann sem langan barning reri.
Öldurnar vaka, yrkja ljóð á skeri.
(Guðmundur Friðjónsson á Sandi)
Þetta held ég þú komist alls ekki hjá að leiðrétta vegna þess hve margir lesa Molana og sækja þangað fróðleik. Þú mátt hafa mig fyrir leiðréttingunni eða sleppa ef betur fer á því. Aðalatriðið er að kenna fólki ekki vitleysu.” Molaskrifari þakkar Bjarka þetta góða bréf.

Á miðvikudagskvöld (19.09.2012) hlustaði Molaskrifari á Flakk Lísu Pálsdóttur um Norðurmýrina, þar sem hann átti heima frá fæðingu og fram á þrítugsaldur. Þátturinn var endurtekinn frá laugardegi. Þess var ekki getið í kynningu. Þetta var prýðilegur þáttur um þetta einstaka hverfi þar sem götumyndin er nánast alveg óbreytt frá upphafi. Mörgu hefði þó mátt við bæta um mannlífið og verslanaflóruna svo nokkuð sé nefnt. Fróðlegt var viðtalið við arkitektinn og gaman að hlusta á frænku mína af Mánagötunni Ernu Guðrúnu Árnadóttur, sem nefndi tvær gamlar konur á Karlagötu og Skeggjagötu án þess þó að nafngreina. Þekkti báðar, Halldóru Magnúsdóttur og Friðgerði Guðmundsdóttur. Friðgerður var reyndar hálfgildings amma mín var í horninu hjá okkur til æviloka. Hún kenndi mér að lesa með bandprjónsaðferðinni. Viðtal úr gömlum þætti við listamann sem reyndar átti heima í Norðurmýrinni var dálítið út úr kú. Virtist einskonar uppfyllingarefni. Lýsingar á listaverkum eru yfirleitt ekki gott útvarpsefni. Hlakka til að heyra næsta þátt.

– Molaskrifara varð á í messunni í Molum gærdagsins. Hann las frétt Morgunblaðsins um skýrslu Seðlabankans um kosti í gjaldmiðilsmálum ekki nægilega vel , í flaustri, og var alltof dómharður. Hann tekur orð sín til baka og biður Morgunblaðið og blaðamanninn sem skrifaði fréttina afsökunar. Þessi frétt var eftir á að hyggja vel unnin og hvorki bjöguð né pólitísk.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Emil Ragnar. Í fréttinni um tölvunarfræðinámið var líka sagt að ,,nemendur hefðu tvöfaldast“

  2. Emil Ragnar Hjartarson skrifar:

    Mikið vantar á að gerður sé greinarmunur á orðunum að aukast og að fjölga.
    Stöð 2 segir í kvöldfréttum 21. sept. :“Gríðarleg aukning á nemendum í tölvunarfræði“ Ég býst við að átt sé við að þeim hafi fjölgað en ekki að þeir hafi fitnað gífurlega.

    Ég las viðtal við ungan námsmann í dagblaði núna í vikunni. Hann hyggur á nám í háskóla í Bandaríkjunum og hefur valið háskóla sem pilturinn segir að sé svo góður „fótboltalega “ ! !

    Það er nebblega það.!!!

  3. Eiður skrifar:

    Rétt er það. Svo er stórt skilti á steini sem á stendur: Steinn. Það er svo við velkjumst ekki í vafa um hvaða fyrirbæri þetta sé! Ég felli mig ekki við að dagskrárgerðarfólk í fréttatengdum fréttum sem sem svo eru kallaðir selji sig í auglýsingar. Það er líka skýrt brot á reglum sem útvarpsstjóri hefur sett. Hann hefur sennilega ekki séð þessar auglýsingar. Horfir líklega ekki mikið á sjónvarp. Skil hann svo sem.

  4. Kristján skrifar:

    VÍS auglýsingin er góð og unga konan í henni er bráðfyndin. Denver er höfuðborg Colorado en sést hvergi, í auglýsingu um Denver !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>