«

»

Molar um málfar og miðla 1016

Sjónvarp og útvarp eru áhrifamiklir miðlar. Það var vægast sagt óheppilegt hvernig Ríkisútvarpið flutti okkur frétt um rannsóknir á erfðabreyttum matvælum á föstudaginn (21.09.2012) Nánast var sagt berum orðum að erfðabreyttur maís væri krabbameinsvaldur. Komið hafa fram öflug andmæli frá vísindamönnum víðsvegar í veröldinni gegn tímaritsgreininni og rannsókninni sem frétt Ríkisútvarpsins byggðist á , einnig frá vísindamönnum við Háskóla Íslands. Rannsóknin hafi verið meingölluð. Höfundurinn kunnur svindlari sem eigi hagsmuna að gæta af því að koma óorði á erfðabreyttan maís. Það á ekki að hræða áheyrendur eins og þarna var gert. Það er ekki hlutverk Ríkisútvarpsins. Þetta mál hefði þurft að skoða betur og til dæmis hafa samband við íslenska vísindamenn, áður en fréttin var flutt. Við eigum að geta treyst Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið hefur ekki beðist afsökunar á því að hafa skotið fólki skelk í bringu á fölskum forsendum. Vonandi læra stjórnendur af þessum mistökum. Í inngangi að prýðilegu viðtali við dr. Björn Sigurbjörnsson í morgunútvarpi Rásar tvö (24.09.2012) var ekki að heyra að umsjónarmenn hefðu hlustað grannt á fréttir Ríkisútvarpsins um gagnrýni á hina röngu frétt.

Konráð sendi eftirfarandi (21.09.2012): ,,DV enn: ,, ..að það sé í fínu lagi að fjárfesta í Kína, en að annað hljóð komi í kútinn þegar Kínverjar vilji fjárfesta á Vesturlöndum.“
Þarna kom skýringin á orðinu hljóðkútur!” Konráð benti líka á þessa frétt af mbl.is (22.09.2012): Erlent | mbl | 22.9.2012 | 11:02,,Tveggja ára stúlku brottvísað frá Svíþjóð –Og bætti við ,, Íslenskan þróast hratt um þessar mundir.”
Annar Molalesandi hnaut líka um þetta orðalag á mbl.is og sagði: ,,Tveggja ára stúlku brottvísað frá Svíþjóð. Þannig hljóðaði fyrirsögn á mbl.is Ég hafði ekki áttað mig á að til væri sögnin að brottvísa. En það segir e.t.v. meira um mig en blaðamanninn sem skrifaði fréttina”.Molaskrifari þakkar þessar ábendingar.

Í íþróttafréttum Ríkisjónvarps (21.09.2012) var sagt ef Woods sigrar mótið. Sumir íþróttafréttamenn virðast ekki geta tileinkað sér þau einföldu sannindi að það sigrar enginn mót. Í sömu íþróttafréttum var einnig talað um að taka þátt á móti, en það orðalag virðast menn í Efstaleitinu ætla sér að festa í málinu. Við keppum á móti. Tökum þátt í móti.

Nemendur hafa tvöfaldast, var sagt í upphafi frétta Stöðvar tvö (21.09.2012) þegar sagt var frá fjölgun nemenda í námi í tölvunarfræðum í íslenskum háskólum. Betra hefði verið að tala um að nemendafjöldi hefði tvöfaldast.

Það fer hálfgerður hrollur um mann þegar horft er á dagskrárkynninguna í Ríkissjónvarpinu þar sem kynntar eru kvikmyndir sem sýna á í vetur. Greinilegt er að minni þeirra sem myndirnar velja nær ekki langt aftur fyrir síðustu aldamót og ekki sá Molaskrifari betur en sýna ætti enn eina útgáfuna af 101 Dalmatíuhundi sem nýlega var sýnd í Ríkissjónvarpinu og fékk einkunnina 5,5 á IMBd. Þessari stofnun er ekki við bjargandi.

Af mbl.is (22.09.2012): Hópur sauðkinda sem verið var að smala niður af fjalli í Austurríki enduðu inni í sportvöruverslun og gerðu þar mikinn usla. Hér hefði átt að standa: Hópur sauðkinda, eða fjárhópur sem … endaði, ekki enduðu.

Nýr Sunnudagsmoggi er fjölbreyttur og margt er þar læsilegt. Greinilega hefur mikil vinna verið lögð í breytingarnar. Áhugavert var viðtal við Jón Ólafsson um nýja bók um örlög Veru Hertzsch. Líklega er með efni og formi blaðsins verið að höfða til fólksins sem aldrei hefur keypt Mogga og er nú komið á fertugs- , fimmtugsaldur. Saknaði Tungutaks, kannski er það falið einhversstaðar í blaðinu. Reykjavíkurbréf stingur dálítið í stúf við annað efni sunnudagsblaðsins. Moggamenn ættu að færa það í laugardagsblaðið.

Stundum er eins og Ríkisútvarpið (24.09.2012) sé almannatenglastofa fyrir lögfræðinga fólks sem sumt hvert kemur til Íslands á vafasömum forsendum, oftar en ekki með fölsuð skilríki. Lögfræðingarnir virðast eiga ótrúlegagreiðan aðgang að fréttum og fréttatengdum þáttum þótt fréttagildi þess sem frá þeim kemur sé stundum fremur rýrt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Eitthvað skýst manninum sem aldrei hefur heyrt á sauðkind minnst fyrri. -Það orð er ævagamalt í málinu og kemst fyrst á prent árið 1778 og hefur lifað góðu lífi síðan.- Væri honum ráðlegt að lesa Sjálfstætt fólk með athygli til að fá nasasjón af prýðilegri notkun þess.

  2. Gunnar Jónsson skrifar:

    Sæll og takk fyrir fína þætti.

    Hnaut sem aðrir um blessaða „sauðkindina“, þó vegna þess að ég hef aldrei heyrt á slíka skepnu minnst fyrr. Hef heyrt talað um sauði (jafnvel mennska) og kindur en ekki sauðkindur fyrr. Sauðnaut þekki ég líka. En ég er náttúrulega alinn upp á mölinni.

  3. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Jóhann Hlíðar Harðarson. Fyrsta fréttin var þannig að hún hlaut að skjóta ýmsum skelk í bringu. Þannig sló hún mig, a.m.k.

  4. Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar:

    Sæll Eiður,
    heldur þykja mér ákúrur þínar í minn garð ósanngjarnar. Þú heldur því fram að ég hafi hrætt tóruna úr fólki með fréttum af krabbameinsvaldi. Því fer fjarri. Ég flutti frétt í hádeginu sl. föstudag. Þar segir að vísindamenn telji að „…erfðabreyttur maís sem gerður hefur verið ónæmur fyrir ákveðnu plöntueitri sé krabbameinsvaldandi.“ Hvorki meira né minna.
    Sama dag, í kvöldfréttum, flutti ég svo frétt þar sem fram kom gagnrýni á rannsóknina. Eftir því sem ég best veit var það fyrsta fréttin hérlendis þar sem rannsóknin er gagnrýnd. Þannig að mér þykir þú aðeins halla réttu máli. En það er ábyggilega gert óviljandi.

    Bestu kveðjur,
    Jóhann Hlíðar Harðarson
    fréttamaður á RÚV.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>