«

»

Molar um málfar og miðla 1018

Molalesandi þakkar þessa pistla og skrifar á þessa leið (24.09.2012): ,,Ég hlustaði á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins í dag, 24. september 2012. Þar var frétt af aðalmeðferð í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, gegn Seðlabankanum. Þar var ítrekað talað um verjanda Más. Hið rétta er að sjálfsögðu að ekki er talað um verjanda í einkamálum. Það er aðeins gert í sakamálum um þá sem verja menn sem eru ákærðir. Þetta er ekki flókið. Þetta er pínleg villa. Benda mætti fréttamanninum sem sá um fréttina á Lögfræðiorðabók með skýringum, hér er hlekkur: http://www.bc.is/?c=a8news&id=29&lid=&pid Í kynningu um bókina segir „Ritið er ekki síður gagnlegt fjölmiðlamönnum í þeirra störfum, en fréttaflutningur af lögfræðilegum málefnum vegur þar að jafnaði þungt.“ Gera á kröfu til fréttamanna um að þeir kynni sér þau orð sem þeir nota í fréttum. Það er tiltölulega einfalt að fletta upp hugtökum í lögfræði í fyrrnefndu riti og kynna sér muninn sem er á milli hugtaka í einkamálum annars vegar og sakamálum hins vegar.

Annað: Hinn oft ósmekklega klæddi ungi íþróttafréttamaður sagði í kvöldfréttum Sjónvarps núna rétt í þessu, 24. september 2012, að leikur Barcelona og Granada hefði farið fram í gær, þ.e. 23. september 2012. Hann var ekki með margar fréttir. Mér finnst ég líka eiga kröfu á að hann fari rétt með einfaldar staðreyndir. Hið rétta er að leikurinn fór fram laugardagskvöldið 22. september 2012, sjá hlekk: http://www.visir.is/tvo-mork-borsunga-a-sidustu-minutunum—med-11-stiga-forskot-a-real/article/2012120929766 “ Molaskrifari þakkar bréfið. Aldrei verður um of brýnt fyrir fréttamönnum að nota uppflettirit, handbækur og leitarvélar netsins. Það getur afstýrt slysum.

Molalesandi sendi þessa ábendingu (26.09.2012): „Þær 160 millj. kr. sem veittar voru á fjárlögum árið 2001 var ætlað að standa straum af þarfagreiningu og gerð útboðsgagna
Hélt þetta væri afbökun DV á frtilk. Fjársýslunnar, en sé mér til hrellingar að virðuleg opinber stofnun sendir svona orðalag frá sér.”
http://www.fjs.is/default.aspx?cat_id=10&module_id=220&element_id=2423
Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Hér fer á eftir lokakaflinn úr bréfi Ragnars Þorvaldssonar

Nú vil ég snúa mér að öðru og óskyldu efni.
Ég á heima á Fáskrúðsfirði, en nafnið á honum hefur vafist fyrir mönnum í gegnum tíðina. Nú hef ég eftir fræðimanni …(Hef ekki bókina við hendina í augnablikinu til þess að vísa beint í hana ) …að nafnið sé komið úr “ Gelisku “ og merki fjörðurinn við straumana það er ,,Straumfjörður “
Miklir hafstraumar eru ríkjandi í mynni fjarðarins og umhverfis eyjarnar Skrúð og Andey og sé ég ekki betur en nafnið væri vel við hæfi.
Nú kemur nafnið “ Fáskrúð “ víðar fyrir hér á landi, sem kunnugt er og ég heyrði það í fréttum nýlega að góð veiði væri þá í ánni “ Fáskrúð “
Ég álykta að samkvæmt framansögðu merki … Fáskrúð… Straumur…. Straumá.
Og tel ég það góðan stuðning við Straumfjarðarnafnið hér heima.
P.s. Mér finnst undarlegt að þessi skýring á nafninu virðist ekki hafa vakið athygli.”

Í Morgunblaðinu (25.09.2012) er auglýsing frá fyrirtækinu Verslunartækni.
Þar eru auglýstar hurðar – Lagerhurðar, hraðhurðar (???) , og kælihurðar. Fleirtalan af hurð er hurðir. Auglýsingastofan sem hannaði þessa auglýsingu ætti að ráða prófarkalesara.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Einar Kr. skrifar:

    Í þessa umræðu vantar niðurstöðu. Þar sem Már er í þessu máli sóknaraðili, er þá ekki lögmaður hans sækjandi í málinu? Í athugasemd Molalesanda má þó ráða að hugtakið verjandi (og þá væntanlega einnig sækjandi) eigi ekki við í einkamálum heldur aðeins sakamálum. Það væri upplýsandi fyrir hina fjölmörgu lesendur þessara pistla Eiðs að vita hvaða hugtak er rétt að nota í þessu tilfelli og í einkamálum og sakamálum almennt, ef á því er munur.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Nú er það svo að sá sem mál sækir fyrir rétti er í málsskjölum nefndur sóknaraðili en sá sem sóttur er hins vegar varnaraðili; hann verst sókn hins. Því er það fullkomlega rökrétt að kalla lögmann varnaraðila verjanda hans og hreinn orðhengilsháttur að amast við því orðalagi.
    Og hana nú! Menn mega, fjandinn hafi það, ekki verða kaþólskari en páfinn þegar kemur að mæltu máli.
    Hitt er svo vitaskuld annað að í máli Más gegn Seðlabankanum er Már væntanlega sóknaraðilinn. Í því tilviki fer ekki vel á því að lögmaður hans sé nefndur verjandi, en væri málum á hinn veginn háttað væri það réttlætanlegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>