Helgi Haraldsson sendi eftirfarandi (04.10.2012): ,,Í gær var þessa hörmung að sjá í Vísi: http://www.visir.is/dottir-michaels-jacksons-staelar-miley-/article/2012121009695 Stælar?? Er vesalings blaðamaðurinn að reyna að beygja sögnina stæla = herma eftir?
Auk þess eru enskusletturnar í þessu skrifi með endemum. – Kannski er þýðimgarlaust að elta ólar við málfarslegt alnæmi á þessu stigi?” . Molaskrifari þakkar Helga sendinguna. Um að gera að halda áfram að benda á það sem betur má fara.
Í aðalkvöldfréttum Ríkisútvarps klukkan sex , sem stundum heita nú Fréttir og stundum Spegillinn (Hvað á það að þýða?) var talað um þrjú samtök. Hefði átt að vera þrenn samtök (04.10.2012). Sumum fjölmiðlamönnum gengur illa að tileinka sér þetta.
Í fréttum Stöðvar tvö (04.10.2012) sagði fréttamaður: Fólk er ekkert verra sett. Hefði átt að vera: Fólk er ekkert verr sett.
Hann segir þekkta glæpamenn hafa birst við heimili lögreglu, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (06.10.2012). Hér hefði farið betur á að segja: Hann segir þekkta glæpamenn hafa birst við heimili lögreglumanna.
Undarlegt að heyra fréttamann Ríkisútvarpsins í hádegisfréttum (05.10.2012) spyrja forsprakka Íslandsdeildar alþjóðlegu glæpasamtakanna Outlaws: Eruð þið glæpasamtök? Hvaða fréttagildi hafði það svona í heildina tekið að ræða við þennan mann? Ekkert. Nákvæmlega ekkert.
Fjölbreytt og efnismikið aukablað um bíla fylgdi Morgunblaðinu sl. föstudag (05.10.2012). Það eru góð tíðindi fyrir þá sem alla ævi hafa verið haldnir svolítilli bíladellu. Dálítið annað en þegar Molaskrifari annaðist bílasíðu í Alþýðublaðinu , líklega 1963-64 og studdist þá m.a. við efni af svipaðri síðu í norska Arbeiderbladet og úr bresku bílablaði sem mig minnir að hafi heitið Autocar. Skyldi það hafa verið fyrsta bílasíðan í íslensku dagblaði?
Tillagan um hljóðritun ríkisstjórnarfunda er óskynsamleg. Skiptir engu þótt upptökurnar verði geymdar, svona lok , lok og læs í 30 ár. Upptökubúnaður í fundaherbergi ríkisstjórnar mundi breyta eðli fundanna á verri veg. Þeir mundu breytast í sviðsett gervisamtöl. Það fullyrðir Molaskrifari, þótt ekki hafi hann setið ríkisstjórnarfundi nema á tveggja ára tímabili. Og hvernig á að tryggja að hljóðritanir leki ekki? Annað eins lekur í þessu þjóðfélagi. Er þá ekki rétt líka að setja upptökutæki í öll fundaherbergi Alþingis og stjórnarráðsins? Þannig er það örugglega í Norður Kóreu.
Það er ótrúlega algengt að talað sé og skrifað eins og engin fátækt hafi verið á Íslandi fyrir hrun. Þá hafi enginn skuldað og enginn verið fátækur. Fátæktin hafi verið fundin upp eftir hrun. Talsmenn stjórnarandstöðunnar falla ótrúlega oft í þá gryfju að tala svona. Heldur er það nú ómerkilegt skrum. Komið hefur fram að fyrir hrun voru íslenskar fjölskyldur með þeim allra skuldugustu í iðnvæddum ríkjum. Enda leiddi ný rannsókn Þjóðmálastofnunar í ljós að 85% þeirra heimila sem lentu í alvarlegum greiðsluvanda 2009 voru í fjárhagsvandræðum áður en bankakerfið hrundi.
Með því að lesa dagskrár norrænu sjónvarpsstöðvanna eins og þær eru birtar í Morgunblaðinu sést hversu botnlaus ruslakista Ríkissjónvarpið okkar er og er þá einkum átt við aðkeypt og sérstaklega erlent efni.
Við fyrstu sýn virðast nýgerðar breytingar á vefnum visir.is vera til mikilla bóta. Hann hefur stundum reynst mér svolítið erfiður viðskiptis.
Góðar umræður í Silfrinu í gær. Sjónarmið verðandi frambjóðanda Framsóknar voru talsvert á skjön við það sem aðrir sögðu. Slíkt er ekki nýtt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar