«

»

Molar um málfar og miðla 1029

Af dv.is (06.10.2012) Á fundinum verður kosið um nýja forystu flokksins nýja sem komið var á stofn af hálfu Lilju sjálfrar sem þó hefur ekki áhuga að leiða hann áfram. Það verður ekki kosið um nýja forystu. Það verður kosin ný forysta. Svo er svolítið einkennilegt að tala um að flokknum hafi verið komið á stofn af hálfu Lilju sjálfrar. Hefði ekki verið einfaldara að segja að Lilja hefði stofnað flokkinn?

Að skaðlausu má lögreglan vanda betur málfar í tilkynningum (06.10.202): Verið er að setja upp lokanir í námuda við vettvang, milli Túnbrekku og Birkigrundar, en vettvangsrannsókn er á frumstigi. Hér hefði farið betur á að segja, til dæmis: Verið er að loka götum í námunda við slysstaðinn. Rannsókn slyssins er enn á frumstigi.

Af pressan.is (06.10.2012): Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar hefur gengið frá kaupum á fjórum Citroën C-Zero rafmagnsbílum og er um tímamóta áfanga að ræða þar sem borgin hefur núna kost á að taka áform sín um innleiðingu vistvænni ferðamáta að veruleika og um leið rafbílavæðingu Íslands. Ekki verður með sanni sagt að þetta vel skrifað.

Molaskrifari fékk sér gönguferð um Strandgötuna í Hafnarfirði. Þar sá hann: Auglýsingu frá Íslandsbanka, – Skannaðu kóðann og náðu í appið! Auglýsingu þar sem honum var boðið að gera neglur á 60 mínútum.! Þar var einnig þrjátíu orða auglýsing á ensku við búðardyr. Í henni voru fjórar villur. Ekki mjög traustvekjandi.

Það hlýtur að vera byggt á víðtækri hlustendakönnun þegar barnaefni er sett á dagskrá Rásar eitt milli klukkan hálf átta og átta á sunnudagsmorgni (07.10.2012).Það hlýtur að hafa komið í ljós að tiltölulega ung börn séu stór hlustendahópur í bítið á sunnudagsmorgnum, eða hvað? Annars er þetta bara kjánagangur. Þáttur Unu Margrétar Á tónsviðinu brást ekki, frekar en venjulega en íhugunarefni hvort dagskráin milli sjö og níu á sunnudagsmorgnum eigi aðallega að vera endurtekið efni.

Í fréttum Ríkissjónvarps (08.10.2012) var sagt um Nóbelsverðlaun í læknisfræði: … tilkynnt var að þeir hlutu Nóbelsverðlaun í læknisfræði. Eðlilegra hefði verið að segja: Tilkynnt var að þeir hlytu Nóbelsverðlaun í læknisfræði.

Íbúa einum í miðborginni brast þolinmæðin … sagði fréttamaður Stöðvar tvö (07.10.2012). Hér hefði farið betur á að segja : Íbúa einn í miðborginni brast þolinimæði …. Í sama fréttatíma var sagt frá fjármögnunarsíðu sem hefði verið hleypt af stokknum. Hefði átt að vera , – sem var hleypt af stokkunum.

Síðasta vor hóf Tálknafjörður viðræður …. var sagt í fréttum Stöðvar tvö (08.10.2012). Nú kann enginn lengur að segja: Í fyrra vor hóf …. Og svo var það auðvitað ekki þannig að Tálknafjörður hæfi einhverjar viðræður. Var hann kannski að tala við næsta fjörð?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>