«

»

Molar um málfar og miðla 1078

Af mbl.is (04.12.2012): Ný tæknivædd móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar drykkjarumbúðir opnaði í Skátamiðstöðinni, Hraunbæ 123 í gær. Þess er ekki getið í fréttinni hvað móttökustöðin opnaði. Líkast til opnaði hún ekki neitt. Stöðin var opnuð.

Mér langar að spyrja … sagði einn af þingmönnum Framsóknarflokks í umræðum á Alþingi (04,12,2012). Það var ekki Vigdís Hauksdóttir, svo allrar sanngirni sé nú gætt. Stuttu síðar sagði þingmaður Sjálfstæðisflokks að það þyrfti að setja fætur undir hagkerfið. Það er líklega til þess að hagkerfið geti gengið burt. Í málþófi sér þess auðvitað stað að menn flytja ekki skrifaðar ræður. Það er gaman að þessu. Og þó.

Á þriðjudagskvöld (04.12.2012) horfði Molaskrifari stundarkorn á einræðu sjónvarpsstjórans á ÍNN. Að venju kallaði hann Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra ,,kellinguna”. Sumir eru líklega orðnir vanir munnsöfnuði sjónvarpsstjórans. Þetta er ekki í námunda við það sem kallaðir eru mannasiðir í alvöru fjölmiðlun. Þessvegna á það ekki að venjast. Á þessum fáu mínútum talaði stjórinn líka um hæstlaunuðustu lögmenn landsins og sagði að ríkisstjórnarsetan hefði runnið S teingrími J. Sigfússyni til höfuðs ! Það var og. Nóg hefði verið að tala um hæstlaunuðu lögmenn landsins og að ríkisstjórnarsetan hefði stigið Steingrími til höfuðs.

Á tíunda tímanum á sunnudagsmorgni (02.12.2012) var afar löng ilmvatnskynning (auglýsing) í morgunþætti Rásar tvö. Mörkin þarna á milli eru oft ansi óljós í fjölmiðlun samtímans, en þegar sölumaður fær afnot af fjölmiðli til að gefa vöru sína nálgast slíkar kynningar enn meira að vera auglýsingar. Í þættinum var verið að kynna það sem kallað var íslenskt ilmvatn, virtist þó vera framleitt í Frakkland og ilmefnin frönsk. Sú sem rætt var við þurfti mikið að nota ensku í viðtalinu: Dash of vanilla, sensual, romantic og Elisabeth Taylor-like! Svo var hlustendum sagt að ilmvatnið væri selt á flöskum, – stjórnandi talaði réttilega um glös. En kannski er þetta bara selt á flöskum, kannski þriggja pela flöskum eins og vanilludroparnir í kaupfélaginu í Borgarnesi í gamla daga!

Nýlega var að því vikið hve algengt væri orðið að tala um pening í stað peninga. Í morgunþætti Rásar tvö (05.12.2012) var rætt við barn sem efnt hafði til tombólu eða hlutaveltu til að safna peningum til góðagerðastarfs. Hvað eftir annað talaði umsjónarmaður um pening. Hvað á að gera við peninginn? Hvað safnaðist mikill peningur? Þáttastjórnendur eiga að reyna að vanda mál sitt.

Hvaða helgi er þessi þarsíðasta helgi sem mönnum verður svo tíðrætt um Ríkisútvarpinu ?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Valgeir. Nei, nei. Hann sagði Sigfússon, en þetta var aulagangur hjá mér, sem ég er búinn að leiðrétta, þótt seint sé.

  2. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Alltaf dagleg hressing að lesa molana þína. Kærar þakkir fyrir þá.

    Ég hlustaðiu ekki á það sem þú vitnar til (sem betur fór!) En kallaði maðurinn
    Steingrím virkilega Sigurðsson, en ekki Sigfússon?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>