«

»

Molar um málfar og miðla 1079

Af mbl.is (05.12.2012) Hundruð er enn saknað en björgunarsveitir hafa ekki enn komist á svæði sem verst urðu vegna flóða og aurskriða. Hér ætti að standa: Hundruða er enn saknað … sem verst urðu úti vegna flóða og aurskriða.

Molalesandi vakti athygli á því að á visir.is hefði verið sagt í fyrirsögn (05.12.202) að stúlka sem var næstum drukknuð í Kaupmannahöfn hefði verið höfð að gysi. Talað er um að gera gys að, skopast að, ekki hafa að gysi.

Sæðisframleiðslan á niðurleið , segir í fyrirsögn á mbl.is (05.12.2012) http://www.mbl.is/frettir/taekni/2012/12/05/saedisframleidslan_a_nidurleid/. Þetta eru voveifleg tíðindi af frönskum karlmönnum, en huggun harmi gegn að mbl.is segir: ,,Þrátt fyrir að dregið hafi úr framleiðslu sæðis meðal karlmanna í Frakklandi er framleiðslan enn nægjanleg til fjölgunar mannkynsins”. Frakkar geta því haldið áfram að ,,iðka tveggja barna kerfið” eins og Ólafur Hansson sögukennarinn ógleymanlegi sagði okkur í 6-B fyrir meira en 50 árum. Einn af milljón fróðleiksmolum sem hann miðlaði til okkar. Hann nestaði okkur vel eins og fleiri góðir kennarar í MR.

Lesandi skrifar (05.12.2012): ,,Hefur enginn tekið eftir því að hinni föstu sjónvarpsmyndavél ríkisins
hefur nýlega verið snúið þannig að ekki sést lengur í stól
forsætisráðherra, eða ráðherra sjálfan, eins og verið hefur síðan
þessar beinu útsendingar frá Alþingi hófust? Hverjum er verið að
hlífa? Ráðherra eða áhorfendum? Það er þó bót í máli að nú nýtur
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sín til fullnustu á skjánum.” Þetta er rétt athugað hjá lesanda. Ekki kann Molaskrifari að skýra þessa breytingu.

Í útvarpsfréttum (05.12.2012) var sagt um sjúkling að hann hefði verið afskiptalaus í fjórar klukkustundir. Betra hefði verið að segja að hann hefði verið látinn afskiptalaus í fjórar klukkustundir.

Enn er í fréttum Ríkisútvarps talað um ríkið Konnekkktikött (Connecticut) í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir ritháttinn er heiti þessa ríkis ekki borið fram með ká hljóði í miðjunni.

Áhrifamikil umfjöllun um snjóflóðin í Neskaupstað í Kastljósi í gærkveldi. (07.12.2012). Vel gert og smekklega. Jafn ósmekklegt og á skjön við alla skynsemi voru svokallaðar Hraðfréttir sem fylgdu í kjölfarið þar sem var flaggað var innanhússfólki og fólki sem stjórnendum er þóknanlegt en kemur fréttum ákaflega lítið við. Þetta á ekkert erindi á skjáinn. Sóun á takmörkuðu dagskrárfé. Sjálfhverf dagskrárgerð.

Lesandi bendir á þessa frétt á mbl.is (05.12.2012) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/05/raudhofdi_svamladi_i_land/ og segir: „Í þessari frétt fatast fréttamanninum verulega í töluðum texta. Þar er það ávallt Jólavættin, sem um er rætt, en í skjátextanum er það réttilega vætturin.“
Molaskrifari þakkar sendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurður.

  2. Sigurður Karlsson skrifar:

    Mér þótti hvort tveggja, hundruð og hundruða, hljóma undarlega því að það sem maður saknar er í eignarfalli og ætti því að segja Hundraða er enn saknað … – a.m.k. ef átt er við fleira en eitt hundrað.

    Þessu til stuðnings fann ég svo 73. þátt Íslensks máls eftir Jón G. Friðjónsson, http://málfræði.is/grein.php?id=395, þar sem segir meðal annars:

    Nafnorðið hundrað beygist jafnan svo: hundrað-hundrað-hundraði-hundraðs; hundruð-hundruð-hundruðum-hundraða, hk. Úr talmáli er kunn fleirtölumyndin ?hundruðir og á hún rætur að rekja til fleirtölumyndanna milljónir, þúsundir. Enn fremur bregður myndinni ?hundruða (ef.flt.) alloft fyrir og er hún í samræmi við flt.-myndina ?hundruðir. Eftirfarandi dæmi samræmast ekki málvenju: Þeir notist við úrelt kort og erfitt sé að skilja hvert þær hundruðið [þau hundruð] milljóna sem lagðar eru í stofnunina fari (Blaðið 7.1.06);

    Hefur hundruð þúsundum [hundruðum þúsunda] króna verið stolið með þessum hætti (Frbl. 10.2.06) og … í göngu hundruða [hundraða] þúsunda trúðara sjía-múslima (Frbl. 10.2.06).

  3. Eiður skrifar:

    Sé þetta rétt, Helgi, þá er mín máltilfinning brengluð og röng í þessu tilviki. Og má það svo sem vel vera.

  4. Helgi Pálsson skrifar:

    Nú brást þér bogalistin Eiður minn því hundruð skal það vera, hundraða er hreint og klárt rugl, það er talað um nokkur hundruð , mörg hundruð, að hundruð manna sé saknað merkir að einhver ótiltekin hundruð vanti, það er vísað í fjöldann, ekki skiptir máli í þessu sambandi hvers er saknað. Við myndum t.d. aldrei tala um að hundruða þúsunda vanti á tékkareikninginn. Þetta er sama villan og hundruðir, sem er jú sama ruglið. Þessi málvilla er kominn frá útvarpsstöðvunum, held ég. Stöð tvo og Bylgjan hafa staðið sig hvað „best“ í að troða þessu inn í málið okkar og líklega tekst þeim það ef þú sjálfur ert farinn að nota þetta 🙂 Bestu Kveðjur, Helgi Pálsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>