«

»

Molar um málfar og miðla 1080

Molavin sendi eftirfarandi hugleiðingu (06.12.2012) og ekki að tilefnislausu: ,,Í fréttaþurrð verða opinberar skýrslur oft tilefni frétta, því teygja má og toga tölur í það óendanlega. Neyzlukönnun Hagstofunnar er hrein jólagjöf á fréttastofur landsins; stútfull af tölum um lifnaðarhætti fólksins í landinu. Gagnlegt væri hinsvegar ef fréttafólk setti þurrar tölur og stofnanaorðalag úr skýrslum yfir á daglegt og skiljanlegt mannamál og leiðrétti það sem rangt er. Hér er kafli úr einni af óteljandi fréttum Morgunblaðsins upp úr þessari skýrslu: „Ríflega þriðjungur heimila í rannsókninni bjó í fjölbýlishúsum en 29% í einbýlishúsum. Hlutfall heimila í raðhúsum var tæplega 14% og 20% bjuggu í tveggja til fimm íbúða húsum…“ Og þá vantar bara að lokum þetta: Hversu mörg heimili eru heimilislaus?” Molaskrifari þakkar sendinguna. Ótrúlega margir sem fást við fréttaskrif gera engan greinarmun á orðunum hús og heimili. Þeir þurfa að lesa betur.
Undirfyrirsögn á dv.is (05.12.2012): Ofbeldismál innan veggja Menntaskólans á Ísafirði sagt lokið. Mál er ekki sagt lokið. Máli er sagt lokið.
Í annarri undirfyrirsögn á dv.is (05.12.2012) segir: Framkvæmdastjóri Sameinaða neitar að ræða við blaðamann. Sameinaði er Sameinaði lífeyrissjóðurinn. Sé fréttin hinsvegar skoðuð í prentútgáfu DV kemur í ljós að framkvæmdastjórinn hefur boðið blaðamanninum að senda spurningar í tölvupósti, en það vill blaðamaðurinn ekki, hvað sem veldur. Er hann ekki í upplýsingaleit? Hann finnur fréttina í því að framkvæmdastjórinn hafi ekki viljað ræða við hann heldur svara spurningum skriflega. Eru þetta fagleg vinnubrögð? Fyrirsögnin er að vísu ekki röng, en hún gefur ranga mynd af því sem um er fjallað. Lítið traustvekjandi og þá er ekki verið að leggja neitt mat á efnisatriði málsins heldur aðeins vinnubrögð blaðamanns DV.
Af mbl.is (06.12.2012): Athvarfið fékk óvænt ríflega tuttugu milljónir króna sem hjón í Reykjavík arfleiddu athvarfinu en gjöfin gerði gæfumuninn við kaupin. Þetta er orðalag er ekki gott. Ekki er talað um að arfleiða einhverjum, heldur að arfleiða einhvern að einhverju. Hjón arfleiddu athvarfið að tuttugu milljónum króna.

Það var Bjarni Benediktsson sjálfur, sem hóf umræðuna, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (06.12.2012). Hversvegna sjálfur?

Í fréttum hefur verið sagt frá áhugaverðum tónleikum í Neskirkju, þar sem flutt er Óratórían Messías eftir Händel og er alltaf talað um sing-along tónleika. Hversvegna ekki takið undir tónleika eða syngdu með okkur tónleika. Alveg óþarfi að nota enskuna þarna. Í lok sjónvarpsfrétta Ríkisútvarps (07.12.2012) var enn einu sinni að óþörfu tönnlast á þessu enska sing-along að óþörfu. Takið undir á sér reyndar sögulegar rætur í íslenskri tónlistarsögu. Á Vísindavefnum segir nefnilega: ,,Samkórar og kirkjukórar voru til í flestum sveitum landsins og árið 1940 var Þjóðkórinn stofnaður af Páli Ísólfssyni. Kórinn fékk rúm í dagskrá útvarpsins undir dagskrárliðnum „Takið undir“, þar sem hugmyndin var að fólk tæki undir með kórnum heima í stofu. Þetta var blómatími íslenskra sönglaga og margar perlur í íslenskri tónlist urðu til á þessum árum. Hér má nefna tónskáld eins og Karl O. Runólfsson (1900-1970), Sigfús Einarsson (1877 – 1939) og marga fleiri.” Páli Ísólfssyni eða Ríkisútvarpinu sem þá hét Ríkissútvarp hefði seint dottið í tala um sing-along!
Sjá annars: http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=6157

Það þarf að leiðbeina nýjum, eða nýlegum þul, í Ríkisútvarpinu um eðlilega hrynjandi málsins.

Það ætti hreinlega að varða við lög að fara jafnilla með jólasálminn Heims um ból eins og Icelandair gerir nú oft á kvöldi í sjónvarpsauglýsingum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er vissulega rétt, Þorvaldur. Rétt eins og hyski er fjölskylda, heimilisfólk, eða illþýði, pakk.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Ekki má þó gleyma því að til er merkingin hús= fjölskylda.

  3. Eiður skrifar:

    Mikið rétt, Trausti.

  4. Trausti Harðarson skrifar:

    Fólk (einstaklingar/fjölskyldur) býr á heimilum, staðsettum í ýmiskonar húsum.
    Heimilin búa hinsvegar hvergi.
    Fólk BÝR í húsum.
    Heimili ERU í húsum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>