«

»

Molar um málfar og miðla 1083

Úr frétt á mbl.is (09.12.2012): Ekki liggur fyrir hvort eftirmálar verða af þessu athæfi mannsins. Hér er ruglað saman orðunum eftirmál og eftirmáli. Eftirmáli er sérstakur kafli í lok bókar, stundum skýring eða skilaboð frá höfundi. Eftirmál eru hinsvegar eftirköst, afleiðingar eða rekistefna. – Engin eftirmál urðu af stórorðum fullyrðingum höfundar í eftirmála bókarinnar.
Í frétt á vef Ríkisútvarpssins (09.12.2012) um sóðaskap í fjósi á bænum Brúarreykjum var bærinn ýmist nefndur sínu rétta nafni eða kallaður Brúnareykir. Sitt á hvað. Á sama fréttavef okkar ágæta Ríkisútvarps var daginn áður fjallað um launamál hjúkrunarfræðinga. Þar var sagt að nemar í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands hefði lýst eindrægnum stuðningi við launakröfur hjúkrunafræðinga. Þá mátti skilja á frétt um greiningu á svokölluðum GINI-stuðli gistinátta (09.12.2012) að Vestfirðir, eða Vestfjarðakjálkinn, væri austan til á landinu. Allar þessar fréttir hefði þurft að lesa yfir og lagfæra áður en þær voru birtar. Einhverjir brestir eru í skipulagi vinnunnar á fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Undarlegheit í frétt á dv.is (09.12.2012): Verktakar gera ráð fyrir að nýja borgin rúmi tæplega fjórar milljónir manna þegar verkefninu lýkur … Þar að auki sé alls engin eftirspurn eftir tæplega fjórum milljónum nýrra íbúða. Einn íbúi á íbúð? Varla getur það nú verið. Ekki mikið hugsað við þessi skrif.
Fyrirsögn í Fréttablaðinu (10.12.2012): Kýrnar í saur upp á miðja leggi. Molaskrifari minnist þess ekki að hafa áður heyrt talað um saur í sambandi við kýr , heldur kúaskít eða kúamykju. Kýrnar stóðu í mykju upp á miðja leggi, – þannig að þær voru eiginlega í djúpum skít eins og sagt er með tilvísun í enskt orðalag. Það virðist reyndar einnig eiga við um forystumenn mjólkuriðnaðarins sem vöknuðu upp við vondan draum þegar málið komst í hámæli í fjölmiðlum.
Í fréttum Stöðvar tvö (09.12.2012) var talað um að gera gangskör að málefnum aldraðra. Vel má vera að þetta orðalag sé gott og gilt. Molaskrifari hefði sagt: Gera gangskör að úrbótum í málefnum aldraðra.
í fréttum Stöðvar tvö (10.12.2012) var sagt: … vera í forystu fyrir friðarumleitanir. Molaskrifari er á því að betra hefi verið að tala um að vera í forystu fyrir friðarumleitunum.
Góð úttekt Helga Seljans í Kastljósi (11.12.2012) á hinu undarlega einokunarfyrirtæki Já þar sem eigendur tóku sér 250 milljón króna arð í fyrra fyrir að gefa upplýsingar um símanúmer. Ýmsar spurningar hljóta að vakna um hvernig staðið var að sölu fyrirtækisins. Þessi þjónusta ætti að vera innifalin í gjaldinu sem við greiðum fyrir afnot af síma. Hún er þess eðlis að hún getur ekki verið dýr. Enn eitt dæmið um hvernig okrað er á okkur símnotendum.
Ákaflega misjafnt er hvað telst við hæfi þegar kemur að því að tíunda afrek ,,séð og heyrt” fólksins. Í dálki á baksíðu Fréttablaðsins (10.12.2012) er greint því að nafngreindur poppsöngvari hafi fengið svolítið glerbrot í hælinn er hann steig á brot úr jólaskrauti heima hjá sér. Svo segir: ,, … þurfti hann að haltra á læknavaktina þar sem hlúð var að honum”. Það vantað bara að sagt væri að hann væri nú úr allri lífshættu og líðan hans stöðug eins og fréttaskrifarar segja svo oft. Hvernig kemst svona lagað á prent? Líklega hringir viðkomandi í vin sinn á fjölmiðlinum og segir: Heyrðu, – ég steig á glerbrot ……
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Engar athugasemdir

1 ping

  1. Afrek „séð og heyrt” fólksins: Heyrðu – ég steig á glerbrot skrifar:

    […] Í pistli á heimasíðu sinni 12. desember tekur Eiður dæmi: „Ákaflega misjafnt er hvað telst við hæfi þegar kemur að því að tíunda afrek ,,séð og heyrt” fólksins. Í dálki á baksíðu Fréttablaðsins (10.12.2012) er greint því að nafngreindur poppsöngvari hafi fengið svolítið glerbrot í hælinn er hann steig á brot úr jólaskrauti heima hjá sér. Svo segir: ,, … þurfti hann að haltra á læknavaktina þar sem hlúð var að honum”. Það vantaði bara að sagt væri að hann væri nú úr allri lífshættu og líðan hans stöðug eins og fréttaskrifarar segja svo oft. Hvernig kemst svona lagað á prent? Líklega hringir viðkomandi í vin sinn á fjölmiðlinum og segir: Heyrðu, – ég steig á glerbrot …” Share this:FacebookTwitterEmailPrint   Tengt efni […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>