«

»

Molar um málfar og miðla 1086

Molalesandi benti á eftirfarandi: ,,Í Viðskiptablaðinu 13.12.12 er flennistór fyrirsögn á forsíðu sem hrópar:
Vill rukka á Gullfoss. Þetta er fyrirsögn á viðtali við
framkvæmdastjóra Blá lónsins.
Hvað þýðir þetta á íslensku?” Molaskrifari hefur ekki Viðskiptablaðið við hendina, en giskar á að framkvæmdastjóri Bláa lónsins vilji taka gjald af ferðamönnum koma austur að Gullfossi. Það heitir víst á máli sumra í nútímanum að fara á Gullfoss!

Í fréttum (12.12.2012) var talað um starfstengd vinnumarkaðsúrræði. Óskiljanlegt stofnanamál.

Það var ekki rétt til orða tekið í fréttum Ríkissjónvarps (13.12.2012) þegar sagt var að bátum hefði verið siglt í strand vegna sofandaháttar stjórnenda. Bátunum var siglt í strand vegna þess að sá sem var við stýrið var sofandi. Sofandaháttur er slóðaskapur, dauðyflisháttur. Sofandaháttur er ekki það sama og að vera sofandi.

Leitarsvæðið nær yfir 35 sjómílur, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps (13.12.2012) . Hvernig ber að skilja það?

Um tíu börn fæddust á LSH segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu (13.12.2012). Níu og hálft eða tíu og hálft?

Fleiri hundruð börn í heimsókn, segir í fyrirsögn í Garðapóstinum (13.12.2012). Betra væri: Mörg hundruð börn í heimsókn.

Enn sáum við í fréttum Ríkissjónvarps (13.12.2012) hvernig sömu lögfræðingarnir vaða uppi í fréttatímum þar á bæ, – algjörlega að tilefnislausu. Það var ekkert tilefni til varnarræðu fyrir þá sem stóðu fyrir spilavítinu sagt var frá í fréttinni.

Líkast til var Sveinn Helgason, fréttaritari Ríkisútvarpsins vestanhafs eini fréttamaðurinn sem bar nafn ríkisins Connecticut rétt fram í fréttum gærkveldsins (14.12.2012) af harmleiknum þar í gær. Það virðist einstaklega erfitt að hafa þetta rétt.

Ný stjórn verður kosin í stjórn hjúkrunarheimilisins Eirar í fyrramálið, las reyndur fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (13.12.2012). Hikaði, skiljanlega, í miðri setningu en endurtók svo vitleysuna. Sami las: Farið hefði verið fram á varðhald svo ekki væri hægt að spilla fyrir rannsóknargögnum. Þarna var orðinu fyrir ofaukið. Rétt hefði verið að tala um að spilla rannsóknargögnum. Ekki spilla fyrir … Öllum verður okkur á.

Enn er spurt: Er Ríkissjónvarpinu algjörlega fyrirmunað að sýna okkur þá kurteisi að geta þess í dagskrárkynningum þegar þættir eru endursýndir að um endursýnt efni sé að ræða? Á miðvikudagskvöld (12.12.2012) var þess ekki getið að ágætir þættir Ara Trausta Guðmundssonar um nýsköpun og þróun í iðnaði væru endursýnt efni. Þetta er ótrúlegur og óskiljanlegur dónaskapur.

Mælt er með Tungutakspistli Þórðar Helgasonar á bls.40 í Morgunblaðinu í dag (15.12.2012).

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>