«

»

Molar um málfar og miðla 1090

Molavin sendi þessa réttmætu ábendingu (17.12.2012): ,,Enskan er lævís og lipur og smeygir sér bakdyramegin inn í íslenzkt mál. Ekki er að furða, því illa máli farið fjölmiðlafólk skilur þær dyr eftir upp á gátt. Úr mbl.is: „Lík Jacinthu Saldanha, hjúkrunarfræðingsins sem tók eigið líf í kjölfar símaats ástralsks útvarpsfólks…“ Í enskum fréttum segir um þetta hörmulega mál „took her life…“ sem á íslenzku hefur að jafnaði verið orðað svo að viðkomandi hafi svipt sig lífi, fyrirfarið sér; jafnvel framið sjálfsvíg. Íslenzkt mál býr yfir miklum fjölbreytileika orða, orðasambanda og myndlíkinga, sem auðga frásögnina og algjör óþarfi er að nota svonefnda „orðabókaþýðingu“ á erlendum fréttum. Ef hinir ungu fréttafákar skilja ekki það orð heldur, er þar átt við „google-þýðingar.“ Molaskrifari þakkar sendinguna.

Fimmtán geðveik jólalög keppa , segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (17.12.2012). Látum nú vera að unglingar noti orðið geðveikt í talmáli um eitthvað sem þeim þykir alveg frábært eða einstaklega gott. Þetta á hinsvegar ekki heima í fyrirsögn í dagblaði.

Það er góðra gjalda vert þegar Ríkissjónvarpið sýnir frá tónleikum. En Molaskrifari klórar sér svolítið í hausnum yfir því hversvegna var á þriðjudagskvöld sýnt frá tónleikum sem fóru fram þriðja febrúar síðastliðinn. Þetta var kallað 25 ára upptökuafmæli. Eru það einhver sérstök tímamót?
Ótal , ótal aðrir tónleikar hafa verið haldnir á þessu ári sem meiri ástæða hefði verið til að sýna í Ríkissjónvarpinu.

Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (18.12.2012): … úrbætur í öryggismálum standa fyrir dyrunum. Hér hefur eitthvað skolast til. Úrbætur í öryggismálum standa fyrir dyrum, úrbætur í öryggismálum eru á næsta leiti. En: Þú stendur fyrir dyrunum þannig að ég kemst ekki út.

Tilkynning af fésbók (18.12.2012): Grár Audi A4 með bílnúmerið LY100 var rænt í hlíðunum rétt í þessu af fjölskyldumeðlim, mundi þykja vænt um ef þið gætuð haft augun opin … Það eru svo sem ekki gerðar neinar kröfur um stafsetningu eða íslenskukunnáttu á fb. En ólíkt hefði nú verið skemmtilegra að lesa: Gráum Audi A4 með skrásetningarnúmerinu LY 100 var stolið í Hlíðunum rétt áðan. Eigandi bílsins er úr minni fjölskyldu. Vinsamlegast hafið augum hjá ykkur. Eins og þetta er skrifað , – þolmynd – er eiginlega ómögulegt að skilja hvort það var einn úr fjölskyldunni (fjölskyldumeðlimur) sem stal bílnum eða hvort bílnum var stolið frá honum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Það má vitaskuld að öllu finna, með réttu eða röngu. Það sem mér fannst einkar tilfyndið var að agnúast út í meintar málfarsvillur sem eru það alls ekki sé grannt skoðað. Þó er ég auðvitað sammála því að menn eiga að draga bjálkann úr eigin auga áður en þeir fara að fást við flísina í auga bróður síns. En það gildir ekki bara um félaga Eið. Ekki eru allir þeir sem telja sig þess umkomna að leiðrétta hann lausir við orðalag sem til þessa hefur ekki verið viðurkennt í voru máli. Þannig er eignarfallið -bróðursins- fremur sjaldgæft í vönduðum texta. Og að láta eignarfornafn í hvorugkyni eintölu -þess- vísa til nafnorðs í karlkyni fleirtölu -einstaklinga- sömuleiðis.
    En svo er margt sinnið sem skinnið.

  2. Eiður skrifar:

    Gleðileg jól, Gísli Sigurður.

  3. Gísli Sigurður skrifar:

    Þið virðist misskilja mín orð algjörlega.
    Eiður er maður sem ég þekki ekki og hef enga hagsmuni af því að koma á hann höggi.
    Það sem ég er að benda á er að hér erum við á bloggsíðu sem Eiður notar til að benda á slæmt málfar fjölmiðlanna. Þá finnst mér eðlilegt að höfundur sýni bestu hlið eigin málfars og vandi mál sitt. Enginn er fullkominn, og allra síst ég sjálfur, en mér finnst einfaldlega skrýtið að sjá einstaklinga dæma málfar annarra þegar það vantar talsvert upp á þess eigið.

    Ég set þetta ekki fram sem skot á persónur, heldur bendi á það sem betur mætti fara. Sumir sjá flísina í auga bróðursins en sjá ekki bjálkann í eigin auga.

    Ég fagna þessari síðu og þínum ábendingum Eiður, því málfarsnotkun og stafsetningarkunnátta fjölmiðlafólks á Íslandi jaðrar oft við að vera fáránleg. Þetta er fyrsta og eina færslan sem ég hef lesið eftir þig. Ég mun lesa fleiri eftir hátíðarösina og þá ekki í þeim tilgangi að gagnrýna þitt mál. Ég vildi bara benda á það sem ég sá, því ég sjálfur er mikill áhugamaður um breytt og bætt málfar á meðal Íslendinga.

    Gleðileg jól

  4. Þorvaldur S skrifar:

    Langt þykir mér seilst til að koma höggi á félaga Eið. Þó sérstaklega þegar amast er við -hinsvegar- og -hversvegna- (hver bannar annars að hafa þankastrik um orð sem ætlunin er að vekja athygli á?) sem þó hafa löngu unnið sér þegnrétt í málinu, sbr. t.d. félaga Mörð. Og að fjargviðrast út af innsláttarvillum á bloggsíðum sem í engu breyta merkingu nær ekki mörgum áttum. Annað mál væri ef um væri að ræða prófarkalestur að Biflíunni.
    Og hvort henda menn gaman að eða hafa gaman af?

  5. Arnbjörn skrifar:

    Gísli Sigurður, menn eiga alltaf að vanda mál sitt og stíl, setja greinarmerki á réttum stöðum og gæta að stafsetningu þegar þeir semja texta ætlaðan til birtingar. Ekki skiptir þá máli hvert umfjöllunarefnið er.

  6. Eiður skrifar:

    Ja, hérna. Ég þarf auðvitað að vanda mig meira. Orðabil, orðabil og sumt hálfgerðir útúrsnúningar. Gaman að þessu. En ég tek það auðvitað mjög nærri mér að voga mér að setja bil á undan t.d. upphrópunarmerki þegar letrið er þannig að upphrópunarnmerkið nánast límist við lokastaf orðsins ! Þórðargleðileg jól, Gísli Sigurður, haltu þessu endilega áfram.

  7. Gísli Sigurður Gunnlaugsson skrifar:

    Ég hef alltaf gaman að því að sjá fólk benda á málfarsvillur annarra þegar það getur ekki sjálft komið máli sínu frá sér villulaust.

    Ég bendi á nokkur atriði:
    1) „Úr mbl.is“. Fylgjandi tilvitnun er tekin af fréttavefnum Mbl.is. Af, en ekki úr.

    2) „[…] jólalög keppa , segir[…]“. Á undan greinarmerkjum setjum við ekki bil.

    3) „Hinsvegar“. Hér er um að ræða orðasamband, en ekki samsett orð. Því skal vera bil á milli „hins“ og „vegar“. Það sama gildir um „hvers“ og „vegna“ sem þú setur saman í eitt orð í næstu málsgrein.

    4) Höldum áfram með þá setningu;
    „En Molaskrifari klórar sér svolítið í hausnum yfir því hversvegna[sic] var á þriðjudagskvöld sýnt frá[…]“, þó ekkert sé í raun beinlínis rangt við þennan rithátt, þá færi eftirfarandi orðaröð málinu mun betur; „En Molaskrifari klórar sér svolítið í hausnum yfir því hvers vegna sýnt var frá, á þriðjudagskvöld,[,,,] eða áþekk orðaröð.

    5) „Þetta var kallað[…]“ Þetta hvað? Sýningin á tónleikunum? Tónleikarnir? Athæfið?Orðið „þetta“ er hvorugkynsbeyging ábendingarfornafnsins „þessi“. Þar sem ekkert hvorugkyns nafnorð er í setningunni, þá er ansi erfitt að átta sig á því um hvað þú ert að tala. Nema þú sért að vísa í athæfið að kalla tónleikana upptökuafmæli. Nema þú sért að tala um að kalla upptökuafmælið upptökuafmæli? Hver veit?
    Það er kannski ansi djúpt í árar tekið að benda á þetta, en fyrst ég er byrjaður þá get ég alveg eins klárað.

    6) „Ótal , ótal“. Bendi á atriði númer 2.

    7) „Ótal , ótal aðrir tónleikar hafa verið haldnir á þessu ári sem meiri ástæða hefði verið til að sýna í Ríkissjónvarpinu.“ Hérna get ég líka bent á óheppilega orðaröð. „Ótal aðrir tónleikar sem meiri ástæða hefði verið til að sýna í Ríkissjónvarpinu hafa verið haldnir á þessu ári“. Eða „Á þessu ári hafa verið haldnir ótal aðrir tónleikar sem meiri ástæða hefði verið til að sýna í Ríkissjónvarpinu. Eða átti kannski að sýna þetta ár í Ríkissjónvarpinu?

    8) „fésbók“ er sérnafn, því skal það skrifað með hástaf, „Fésbók“.

    9) „augum“. Að sjálfsögðu er hér um að ræða einfalda innsláttarvillu, sem þó hefði mátt taka eftir við yfirlestur.

    10) „[…]þetta er skrifað , -þolmynd – er eiginlega[…]“. Ég bendi enn og aftur á bilið sem þú setur á undan greinarmerkinu. Þar að auki eru bandstrik ekki notuð til þess að afmarka orð. Nær væri að nota gæsalappir. Einnig vantar kommuna sem ætti að fylgja seinna bandstrikinu eftir.

    Þessi athugasemd er sett fram í fyllstu vinsemd, en mín skoðun er einfaldlega sú að fólk þurfi að vanda sig á rithætti, stafsetningu og málfari greina sinna þegar það skrifar ádeilur um slæmt ritmál annarra.

  8. Gunnar skrifar:

    Ég er sammála, Valur, mér finnst þetta alveg eiga heima í fyrirsögn í þessu tilviki. Átakið heitir jú „Geðveik jól“, það er ekki hægt að rífa þetta bara úr samhengi og láta eins og þetta hafi verið notað í annarri meiningu

  9. Valur skrifar:

    „Fimmtán geðveik jólalög keppa“

    Verkefnið Geðveik Jól er jólalagakeppni 15 fyrirtækja til styrkar Geðhjálpar. Þaðan er nú þetta geðveika fengið. Í því samhengi finnst mér þetta allveg eiga heima í fyrirsögn í Fréttablaðinu.

    http://www.gedveikjol.is/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>