«

»

Molar um málfar og miðla 1091

Fréttastofa Ríkisútvarpsins er alveg við það að ná réttum framburði á heiti ríkisins Connecticut í Bandaríkjunum. Sveinn Helgason og Gunnar Hrafn Jónsson hafa farið rétt með þetta og í hádegisfréttum (19.12.2012) fór fréttastjórinn, Óðinn Jónsson, rétt með þetta.

Úr Fréttablaðinu (19.12.2012): Oftar en ekki er þrætueplið hið sama, annað fyrirtækið sakar hitt um að brjóta á lögum um hugverkavernd. Að mati Molaskrifara hefði verið eðlilegra að segja: … annað fyrirtækið sakar hitt um að brjóta lög um hugverkavernd, eða annað fyrirtækið sakar hitt um brot á lögum um hugverkavernd. Lög er brotin. Það er ekki brotið á lögum.

Í íþróttafréttum Ríkisútvarps (19.12.2012) var sagt frá manni sem gekkst undir aðgerði vegna æxli í eitlum. Vegna æxlis í eitlum hefði átt að segja. Vegna einhvers.

Á vefsíðu Ríkisútvarpsins (19.12.2012) stendur: Síðasti séns á póst. Þetta er auðvitað ákaflega vandað og íslenskulegt orðalag. Verið er að segja lesendum að nú séu síðustu forvöð að setja bréf í póst eigi það að ná til viðtakanda fyrir jól.

Heimili Amy Winehouse selst ekki (19.12.2012) segja snillingarnir sem skrifa séð og heyrt dálk mbl.is. Skilja ekki muninn á húsi, íbúð eða heimili. Dæmalaust.

Enn eitt dæmið um furðulega samsetningu dagskrár Ríkisjónvarpsins er að verðlaunamyndin fræga Forrest Gump með Tom Hanks í aðalhlutverki skuli sett á dagskrá á Þorláksmessukvöld sem er nú ekki beinlínis sjónvarpskvöld hjá öllum þorra þjóðarinnar. Þeim sem raða saman dagskránni er vart við bjargandi. Þessi stórkostlega kvikmynd á betra skilið. En hvað um það, ekki ber að vanþakka þegar meistaraflokksmynd ratar loksins á ríkisskjáinn.

Góð viðtöl Egils í Kiljunni (19.12.2012) við Pétur Blöndal, Lýð, frænda minn Árnason og Sigurð A. Magnússon. Það var ekki fyrr en í fyrra að Sigurður A. Magnússon náði inn í heiðurslaunaflokkinn á Alþingi. Pólitíkin sá fyrir því. Reyndar sátu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hjá þegar atkvæði voru greidd um Sigurð A. Gott dæmi um þá þröngsýni sem stundum opinberast hjá stjórnmálamönnum. Enda fátt um mjög bókmenntalega sinnaða menn á þingi síðan Halldór Blöndal hætti. Sigurður A. var látinn gjalda skoðana sinna. Þetta eru í raun sömu viðhorfin og ríktu í kommúnistaríkjunum og ríkja enn austur í Kína. Sorglegt að enn skuli eima eftir af þeim í alþingishúsinu við Austurvöll.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>