«

»

Molar um málfar og miðla 1092

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.12.2012) var sagt að ákveðið hefði verið að loka þjálfunarbúðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Gufuskálum. Málvenja er fyrir vestan að segja á Gufuskálum. Gufuskálar eru líka í Leirunni suður með sjó, lengi ysti eða vestasti bær í Leiru. Nú löngu í eyði. Þar er líka sagt á Gufuskálum. Fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins var: Gufuskálum lokað.

Í sama fréttatíma var sagt: Aðfangdag, jóladag og annan jóladag ber upp á virkum dögum í ár. Hér hefði átt að segja að mati Molaskrifara: Aðfangadag, jóladag og annan jóladag ber upp á virka daga í ár. Eða: Aðfangadagur, jóladagur og annar jóladagur eru á virkum dögum í ár.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (21.12.2012) var þrísagt: Þar sem Þorláksmessu ber upp á sunnudegi. Er máltilfinning Molaskrifara farin að brenglast? Er hvort tveggja jafngilt? Hann telur þó að hér hefði frekar átt að segja: Þar sem Þorláksmessu ber upp á sunnudag, eða ,- þar sem Þorláksmessa er á sunnudegi.

Fimm heilsutrend ársins 2012, segir Fréttatíminn í fyrirsögn. (21.12.2012) Eins og ekkert sé !
Vettvangur kemur mjög við sögu í stuttri frétt á mbl.is (21.12.2012): ,,Vettvangur verður lokaður í a.m.k. klukkustund svo unnt sé að sinna björgunarstörfum og vettvangsrannsókn.
Þeir sem eiga leið um í námunda við vettvang sýni ítrustu varkárni og tillitssemi og finni sér aðrar götur til að komast leiðar sinnar.” Það var og.
Meira af mbl.is sama dag: Þúsundir rússneskra barna ferðast þessa daganna út í skólendi í grennd Moskvu þar sem rússneski jólasveinninn, Frostfaðirinn, dvelur. Þau vonast sjálfsagt til að fá í skóinn í skóginum þar sem jólasveinninn dvelst. Hvar er gæðaeftirlitið mbl.is?
Tveir þingmenn segja í yfirlýsingu sem birt er á mbl.is (21.12.2012): Afkoma sjávarútvegs er nú með besta móti, hún hækkaði um 26% milli áranna 2010/2011 … Að mati Molaskrifara fer ekki vel á því að tala um að afkoma hækki. Hagnaður getur ef til vill hækkað, aukist, en afkoma batnar eða versnar.

Svo segir góður vinur þessara pistla ( 20.12.2012): ,, Sæll vertu molamaður.
Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að nauðgun geti aldrei verið lögmæt en annað er gefið til kynna á visir.is i dag 20. desember í umfjöllun um dóm gegn ofbeldismönnum þar segir:
,,Dómurinn … tekur meðal annars til þriggja sérstaklega hættulegra líkamsárása, ólögmætrar nauðungar og frelsissviptingar.“ Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er rétt athugað.

Hamsarnir bráðnuðu, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (21.12.2012). Hamsatólgin bráðnaði.

Á baksíðu Morgunblaðsins (21.12.2012) er sagt frá jólaskeið sem Gull- og silfursmiðjan Erna framleiðir í nýrri útgáfu fyrir hver jól, og hefur gert síðan 1949. Þar segir: … en skeiðin er misjöfn milli ára. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Skárra væri: … en skeiðarnar eru ólíkar milli ára.

Hver fjölmiðillinn étur nú eftir öðrum að setja eigi viðræðurnar við ESB á ís. Hversvegna má ekki tala um að gera hlé á viðræðunum? Er ekki átt við það?

Svo er hér að lokum skemmtileg tilvísun frá góðvini Molanna Helga Haraldssyni, prófessor emeritus, í Osló á grein í VG um skötuát Íslendinga í Noregi http://pluss.vg.no/2012/12/16/1055/1rxwQht

Þetta er síðasti Molapistill fyrir jól.

Góðar stundir og gleðileg jól!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ekki í upphafi setningar, – þá skal vera upphafsstafur.

  2. Eiður skrifar:

    Allt er það rétt sem sagt hefur verið um nauðung og nauðgun. Auðvelt að mislesa.
    Takk fyrir allar ábendingarnar.
    Gleðileg jól !

  3. Aron Hrafn skrifar:

    „Svo segir góður vinur þessara pistla ( 20.12.2012): ,, Sæll vertu molamaður.
    Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að nauðgun geti aldrei verið lögmæt en annað er gefið til kynna á visir.is i dag 20. desember í umfjöllun um dóm gegn ofbeldismönnum þar segir: ,,Dómurinn … tekur meðal annars til þriggja sérstaklega hættulegra líkamsárása, ólögmætrar nauðungar og frelsissviptingar.“ Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er rétt athugað.“

    Hér virðist þið félagar lesa vitlaust. Þarna stendur ólögmæt nauðung, nauðUNG, ekki nauðGUN. Það er ekki sami hluturinn.

  4. Húsari. skrifar:

    Sæll Eiður.

    Bestu þökk fyrir þætti þína um málfar.

    „Aðfangadag, jóladag og annan jóladag ber upp á virka daga í ár.“

    e-n (hvern og einn) ber upp á e-n dag; orðin eru í et. og því
    eðlilegt að sögn taki mið af því: „aðfangadag, jóladag og annan jóladag
    ber upp á virkan dag í ár.“
    Í upptalningu af þessu tagi og með því að orðið aðfangadagur
    er jafnan ritað með litlum staf fer betur á því að segja og skrifa:
    aðfangadag, jóladag og annan jóladag.
    Svona er ég nú vitlaus, Eiður minn! Gleðileg jól!

  5. Andri Ólafsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Í frétt á visir.is er talað um nauðung, ekki nauðgun. Eins og kemur reyndar skýrt fram í hinum tilvitnaða texta hér að ofan.

  6. Þorsteinn skrifar:

    Nauðung og nauðgun er ekki sami það sama. Ofbeldismennirnir voru fundnir sekir um ólögmæta nauðung. Ekki nauðgun.

  7. Markús Þórhallsson skrifar:

    Sæll Eiður og þakka þér fyrir oft mjög áhugaverða pistla. Molavinur þinn veltir fyrir sér hvort nauðgun geti verið lögmæt, og vísar svo til fréttar í Vísi þar sem sagt er frá glæpamönnum sem voru dæmdir fyrir ólögmæta nauðung. Nauðgun og nauðung er alls ekki það sama, ólögmæt nauðung er lögfræðilegt hugtak sem m.a. kemur fyrir í 225.gr almennra hegningalaga, þar sem segir: „Ef maður neyðir annan mann til þess að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta hjá líða að gera eitthvað með því að beita líkamlegu ofbeldi eða hóta honum að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi eða frelsissviptingu eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér sökum þess málefnis, sem hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, þá varðar það sektum … eða fangelsi allt að 2 árum.“ Því má búast við að blaðamaður Vísis sé hér að vitna beint í dómsorð héraðsdómarans. Beztu kveðjur, Markús Þórhallsson

  8. Sigurður G. Tómasson skrifar:

    Sæll Eiður! Nauðung og nauðgun er ekki hið sama. Nauðung getur verið lögleg (t,d, af hálfu logreglumanns) Nauðgun er á hinn bóginn alltaf ólögleg. Kær kveðja, og gleðileg jól, sgt.

  9. Ármann skrifar:

    Ef þessi grein er lesin sést að rætt er um „ólömæta nauðung“….ekki ólögmæta nauðgun.

    Svo segir góður vinur þessara pistla ( 20.12.2012): ,, Sæll vertu molamaður.
    Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að nauðgun geti aldrei verið lögmæt en annað er gefið til kynna á visir.is i dag 20. desember í umfjöllun um dóm gegn ofbeldismönnum þar segir:
    ,,Dómurinn … tekur meðal annars til þriggja sérstaklega hættulegra líkamsárása, ólögmætrar nauðungar og frelsissviptingar.“ Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er rétt athugað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>