«

»

Molar um málfar og miðla 1093

Jólakveðjulesturinn í Ríkisútvarpinu er eins og jólalögin. Ómissandi.
Stöku sinnum virðast slæðast villur með hjá þeim sem taka við kveðjunum. Vanir þulir leiðrétta það í lestri.

Er leikin var tónlist úr þularstofu árla á Þorláksmessumorgni , minnir mig, var fluttur sálmurinn Sjá, himins opnast hlið. Óvanur þulur sagði að textinn væri eftir Björn Halldórsson í Laufási. Sálminn orti séra Björn Halldórsson í Laufási.

Flestar útvarpsstöðvar sem flytja fréttir á klukkustundarfresti setja nýjustu fréttina fyrsta í fréttatímanum þannig að sjaldnast er sama fréttin fyrst marga fréttatíma í röð. Ríkisútvarpið hefur annan hátt á. Allan Þorláksmessumorgun alveg frá sex og fram til klukkan tíu var ný stjórnarskrá í Egyptalandi fyrsta frétt Ríkisútvarpsins hér á Íslandi. Það er svo annað mál að eftir rúmlega áttatíu ára starf hefur Ríkisútvarpið enn ekki orku til að segja hlustendum fréttir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn.

Áskell sendi eftirfarandi undir fyrirsögninni: Dónalegur vegur í Svíþjóð, fréttin er af mbl.is: „Fimmtíu kílómetra bílaröð myndaðist í sænskum þjóðvegi vegna mikils snjóþunga. Fjöldi árekstra leiddi til þess að vegurinn lokaðist á þessum langa kafla. Yfirvöld hafa beðið fólk að halda sig innanbæjar ef það mögulega getur sökum slælegra aðstæðna á þjóðvegum. Röðin myndaðist á út frá bænum Gävle í norðausturhluta Svíþjóðar eftir fjórir bílar keyrðu út af á þjóðveginum E4.“
Ég leyfi mér að halda því fram að fréttin sé illa skrifuð. Slælegur getur t.d. merkt „dónalegur“ en ég má fullyrða að sænskir þjóðvegir séu það ekki. Í Íslenskri orðabók er ekki að finna neina merkingu orðsins „slælegur“ sem gæti átt við sænska þjóðveginn.
Þarna stendur líka að röðin hafi myndast „ … á út frá bænum…“ síðan: „ … keyrðu út af á …“. Þarna hefði verið betra að segja að ökumenn fjögurra bifreiða á þjóðvegi E4 hefðu misst stjórn á þeim og hafnað utan vegar, segir Áskell.
Áskell benti einnig á eftirfarandi: ,,Á mbl.is var greint frá því að maður nokkur hafi verið handtekinn á flugvellinum í Kairó en tollverðir fundu tæplega 100 snáka í tösku mannsins. Í fréttinni segir: „Málið er litið alvarlegum augum í Egyptalandi og er það nú í rannsókn hjá þar til gerðum stofnunum.“
Trúlega er lögreglan eða tollgæslan með málið á sinni könnu, en hvers vegna blaðamaðurinn segir: „… hjá þar til gerðum stofnunum“ skil ég alls ekki, segir Áskell”.

Konnekkktikött (Connecticut ,frb konnettikött) draugurinn gekk aftur í fréttum Ríkissjónvarps á Þorláksmessukvöld. Og Molaskrifari sem hélt að búið væri að kveða drauginn niður. Þetta er ótrúlega erfitt!

Algjörlega óboðlegt orðalag á fréttavef Ríkisútvarpsins (23.12.2012). ,,Greint var frá því í kvöldfréttum í gær að maður sem jarðaði konu sína fyrr í þessum mánuði sé skuldugur eftir útförina.”

Í fyrirsögn á dv.is (25.12.2012) segir um mann að hann sé kominn í heljarinnar jólaskap. Molaskrifara finnst það svolítið undarlega til orða tekið !

Svolítill eftirmáli: Er það ekki dálítið skrítið að þunnskipað skuli á kirkjubekkjum Dómkirkjunnar í sjónvarpsmessu á aðfangadagskvöld ? Kannski er tímabært að huga að breytingum ? Hafa messuna í beinni útsendingu ? Norrænu sjónvarpastöðvarnar flytja allar miðnæturmessu páfans á aðfangadagskvöld. Hún er flutt í sjónmvarpi um víða veröld. Hefur aldrei verið sýnd hér svo Molaskrifari muni.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Þótt mér sé illa við að viðurkenna það vantar hjá félaga Merði algengustu merkingu orðsins -slælegur- sem er -lélegur- Þótt það sé ekki fimlega að orði komist þýðir -slælegar aðstæður- lélegar aðstæður. Má t.d. um þetta sjá í orðabók Háskólans: http://lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=435028&s=539599&l=sl%E6lega
    En ekki er þetta þó vanalegt orðalag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>