«

»

Molar um málfar og miðla 1094

Í fyrirsögn á visir.is (24.12.2012) segir: Matthías Máni hafði til í Árnesi. Þetta er óskiljanlegt. Í fréttinni segir að Matthías Máni hafði dvalist, haldið til, í sumarbústað í Árnesi, en ekki verður af fréttinni ráðið nákvæmlega hvar sumarbústaðurinn er. Í félagsheimilinu Árnesi er ekki vitað til að séu neinir sumarbústaðir. Væntanlega hefur bústaðurinn verið í grennd við félagsheimilið.

Af mbl.is á jóladag: Vilborg Arna Gissurardóttir, sem stefnir á suðurpólinn, heyrði í fjölskyldu sinni í gærkvöldi og gæddi sér á hreindýrarétt og drakk það besta malt og appelsín sem hún hefur fengið. Líkast til gæddi þessi mikla afrekskona sér á hreindýrarétti, en ekki hreindýrarétt. Vonandi var það Renbiff sem er lostæti. Réttur beygist: Réttur, rétt, rétti, réttar.
Visir.is á jóladag: Lögreglumennirnir frá Selfossi sem fóru og sóttu strokufanga á Álfhólsstaði í Þjórsárdal í gærmorgun var brugðið við að sjá hve hann var vel vopnum búinn. Lögreglumennirnir var ekki brugðið. Lögreglumönnunum var brugðið. Það er orðið ótrúlega algengt að sjá villur af þessu tagi. Hugsunarleysi eða kunnáttuleysi. Nema hvort tveggja sé. Hét ekki bærinn annars Ásólfsstaðir?
Á aðfangadagskvöld flutti Ríkissjónvarpið okkur prýðilega tónleika sem einhverra hluta vegna voru kallaðir Jólatónleikar Rásar eitt. Hversvegna ekki Jólatónleikar Ríkissjónvarpsins? Kynningar lesnar af blaði voru frekar hallærislegar. Á ekki hið góða hús Harpa textavél (e. teleprompter)fyrir ræðumenn? Forljótt ljósgult píanó stakk í stúf við sviðsmyndina. Dugði ekki eðalflygillinn frá Steinway ? En tónlistin og söngurinn var með ágætum.
Áskell benti á þetta á fréttvefnum visir.is: ,,Strætó, lestir og rútur ganga ekki þar sem margir vegir eru hreinlega ófærir vegna snjós” Hann segir: .
,,Ofangreint er tekið af visir.is / Ég hefði frekar talað um fannfergi en ,,snjós“. Í sannleika sagt þá man ég ekki eftir að hafa heyrt talað um að vegir hafi verið ófærir vegna ,,snjós“. http://www.visir.is/mikill-snjor-i-danmorku—samgongur-liggja-vida-nidri/article/2012121229627Þess er rétt að geta að á vef Árnastofnunar, Beygingarlýsingu íslensks máls er að finna eignarfallsmyndina snjós, auk snjóar og snjóvar.

Ríkissjónvarpið heldur sig við þá undarlegu stefnu að sýna oft bitastæðasta efnið um það leyti sem venjulegt fólk er að ganga til hvílu. Í fyrrakvöld var sýnd gömul og góð spennumynd með úrvalsleikurum, Byssurnar í Navarone. (Gregory Peck, David Niven, Anthony Quinn o.fl. ) Endursýnd að vísu. Sýning hennar hófst klukkan 23 35 en átti samkvæmt dagskrá að ljúka klukkan rúmlega tvö um nóttina. Hverskonar dagskrárgerð er þetta eiginlega? Hver stjórnar svona vitleysu?

Í Ljósvakarýni Morgunblaðsins (27.12.2012) skrifar Vilhjálmur Andri Kjartansson um stórkostlega jóladagskrá í ár. Hann er reyndar ekki að tala um Ríkissjónvarpið okkar því hann segir: ,,Það er kannski merki um nýja tíma að aldrei þessu vant gafst enginn tími fyrir skylduáskriftarstöðina í eigu ríkisins”. Molaskrifara finnst þetta hraustlega mælt. Eitt og annað var bitastætt þar á bæ þótt ekki væri mikil reisn yfir heildarmyndinni þegar horft er yfir hátíðisdagana.

Molaskrifari man ekki betur en um hver jól hafi verið sagt eftir hléið, þögnina, á undan útvarpsmessunni á aðfangadagskvöld: Útvarp Reykjavík, útvarp Reykjavík. Ríkisútvarpið óskar landsmönnum gleðilegra jóla. Nú var aðeins sagt: Útvarp Reykjavík. Gleðileg jól. Ekki ber að vanþakka þá góðu ósk. Kannski er þetta misminni hjá Molaskrifara, en kannski er þetta nýr þáttur í bannfæringu útvarpsstjórans á orðinu Ríkisútvarp. Orðinu sem enginn má lengur taka sér munn í Efstaleiti.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta væri aumt sjónvarpslíf ef ekki kæmi til aðgangur að norræu stöðvunum og fleiri erlendum stöðvum og svo auðvitað mynddiskarnir. Áhorf á Ríkissjónvarpið fer að ég held almennt minnkandi . Ég er ekki sá eini sem gagnrýni vonda dagskrá, ekki aðeins efnið heldur uppsetninguna.

  2. Axel skrifar:

    Með fullri virðingu fyrir Guðrúnu Bjarnadóttur, þá var þessi mynd um hana, sem sýnd var á besta tíma á jólum, litið áhugaverð. Stundum finnst mér Eiður ósanngjarn þegar hann fjallar um dagskrá Rúv (já Rúv). En ég verð að segja alveg eins og er að jóladagskráinn þetta árið var fremur metnaðarlítil og lítt safarík svona heilt yfir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>