«

»

Molar um málfar og miðla 1095

Í bréfi frá Molavin (26.12.2012) segir: ,,Þegar Ríkisútvarpið segir í fréttum kl. 10 að morgni annars dags jóla að frumvarp hafi ,,farið í gegn um þrjár umferðir“ í rússneska þinginu er vitaskuld átt við ,,þrjár umræður.“ Verið rætt í þrígang. Það er málvenja að tala um fyrstu, aðra og þriðju umræðu á Alþingi en ekki umferðir. Fjölmiðlar, ekki sízt Ríkisútvarpið, hafa veigamiklu hlutverki að gegna að gæta íslenzkrar tungu. Það hlutverk er á ábyrgð ráðamanna. Nýliðum þarf að leiðbeina.” Rétt er það, Molavin.

Af mbl.is (27.12.2012): Kate Winslet giftist unnustanum Ned RocknRoll við leynda athöfn á dögunum. Leynd athöfn? (e. secret ceremony) Hér hefur annaðhvort Gúggl þýðingavélin eða fréttabarn verið að verki. Visir.is skrifaði um leynilega athöfn. Meira af mbl.is sama dag: Frestur til að sækja um sérstæka skuldaaðlögun að (svo!)rennur út um áramót. Fyrst hélt Molaskrifari að hér væri um innsláttarvillu að ræða. En bæði í fyrirsögn og texta er talað um sérstæka skuldaaðlögun. Seinna í fréttinni kemur fram að átt er við sértæka skuldaaðlögun.

Úr Morgunblaðinu (27.12.2012) Yfirvöldum sem rannsaka mál barna sem rænt var af foreldrum sínum á valda tíma einræðisherrans …Hér hefði farið betur á að tala um börn sem rænt hefði verið frá foreldrum sínum, ekki af foreldrum sínum.

Af mbl.is (28.12.2012): Þrátt fyrir að skuggi Díönu heitinnar prinsessu, hafi löngum lifað yfir Camillu, núverandi eiginkonu Karls Bretaprins … Lifað yfir? Halló mbl.is! Fréttabarn á vaktinni?

Helga Árnadóttir þakkar fyrir Molana (27.12.2012) og skrifar: ,, Ekki er vanþörf á að standa vörð um móðurmálið okkar. Ósköp fannst mér ankannalegt er ég hlýddi á síðdegisútvarpið á Rás 2 nú áðan, að heyra annan stjórnandann kveðja gesti sína við komu, í stað þess að heilsa þeim!!! ,,Verið þið sæl’ sagði hún. Enn eitt dæmið um vankunnáttu. Ég geri meiri kröfur á fólk sem vinnur á fjölmiðlum að það hafi þekkingu og vald á íslenskri tungu. Með ósk um farsælt komandi ár. “ Molaskrifari þakkar Helgu bréfið.
Lesandi bendir á fyrirsögn á mbl.is (28.12.2012): Í fyrirsögninni og í fréttinni segir: Féll til bana á Nýja Sjálandi Þessi lesandi segir einnig: ,,Hráslagaleg þýðing úr ,,fell to his death“. Á íslensku hrapa menn til bana. Því miður.” Lesandi hefur nokkuð til síns máls.
Af því að hér er stundum (ærið oft líklega!) agnúast út í Ríkisútvarpið þá er skylt að geta þess að yfirleitt er þjónusta á vefsíðu Ríkisútvarpsins, aðgengi að áður fluttu efni, til dæmis, til mikillar fyrirmyndar. Það er ber að þakka.
Tveir lesendur hafa athugasemd við orðið veðuratburður, sem ítrekað var notað um óveðrið í gærkveldi (28.12.2012). Annar segir: ,Nú gerast veður válynd og verða atburðir alvarlegir http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/28/alvarlegasti_veduratburdur_i_morg_ar/
Ég hef aldrei áður heyrt veðri eða spá um veður lýst sem atburði. Hugsanlega er þetta stofnanavæðing almannavarna” Það er líkast til rétt til getið.
Lesa mátti í Fréttablaðinu á aðfangadag um menningarframlag Ríkissjónvarpsins, hinar sjálfumglöðu Hraðfréttir sem svo eru kallaðar, og kosta okkur hluta þess takmarkaða dagskrárfjár sem stofnunin hefur til umráða. – – Mikil ánægja er með þessi innslög okkar hér innan húss, segja höfundar og umsjónarmenn kampakátir. Það skiptir auðvitað mestu að það fólk sem sífellt er verið að fjalla um sé ánægt með þá félaga. Auðvitað eru allar auglýsingarnar í þessum þáttum bara vinagreiðar! Hvað borgar Ríkissjónvarpið fyrir þessa vitleysu? Eigum við ekki rétt á að fá að vita það?
Það er ekki ein báran stök hjá þessari blessaðri stofnun.

Þetta er síðasti Molapistill þessa árs. Molaskrifari þakkar lesendum tryggð á árinu, þakkarbréf og kveðjur og óteljandi ábendingar um það sem betur megi fara í málfari í fjölmiðlum. Að forfallalausu verður haldið áfram enn um sinn meðan örendið ekki þrýtur.

Gleðilegt og gæfuríkt ár, góðu lesarar !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Útúrsnúningar,Guðjón , ég vísa aftur til íslenskrar orðabôkar. Flettu þessu upp.

  2. Guðjón skrifar:

    Enda voru Passíusálmarnir jafnan lesnir upphátt fyrir hlustendur. Og eru enn.

  3. Eiður skrifar:

    Þetta er ekki rétt hjá þér, Guðjón. Flettu upp í íslenskri orðabók. Guðhræddum lesara heilsun, skrifaði Hallgrímur Pétursson í aðfararorðum eða inngangi að Passíusálmum.

  4. Guðjón skrifar:

    ,, … góðu lesarar!“

    Hér er ekki rétt að orði komist.

    Lesari les upphátt fyrir hlustendur.

    Þeir sem lesa í hljóði fyrir sjálfa sig eru lesendur.

  5. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir hlý orð og góðar óskir , Gunnar. Allt er þetta rétt sem þú segir. Gæðaeftirliti hjá fjölmiðlum hefur hrakað. Slakað hefur verið á kröfum. Framleiðslan eykst en gæðin minnka. Það er æ algengara að óyfirlesnar illa skrifaðar fréttir komi fyrir augu lesenda eða eyru hlustenda. Frábærir þulir starfa hjá Ríkisútvarpinu en að undanförnu er eins og þar hafi verið slakað mjög á í kröfum til nýrra þula. Mælikvarðarnir eiga að vera fyrst og fremst skýr og áheyrileg framsögnog rétt hrynjandi. Nú orðið er eins og einhver önnur sjónarmið verði stundum ofan á í þessari gömlu stofnun. Það er miður.

  6. Gunnar Guðmundsson skrifar:

    Sæll og blessaður Molaskrifari.
    Ég fylgist af og til með skrifum þínum og tel þau vera mikið þarfaverk. Það virðist sem slaknað hafi verulega á eðlilegum kröfum til málfarskunnáttu og færni þeirra sem vinna á fjölmiðlum í að beita íslenzkri tungu.
    Annað atriði sem ég tel mig taka eftir er sjálf framsögnin hjá þeim sem flytja talað mál. Nú er það svo að það eru ekki allir fæddir með góða og skýra framsögn, – hana er unnt að læra og þjálfa. Mér finnst skorta þjálfun í framsögn hjá sumum sem flytja talað mál, – þ. e. að röddin hljómi ( – ,,að talað sé upp í höfuðið en ekki (muldrað ) niður í bringu“ – eins og söngstjóri /raddþjálfari myndi orða það). Þar sem ég er kominn yfir miðjan aldur gæti verið að heyrnin sé farin að daprast eitthvað, – en samt finnst mér ekki eðlilegt – t.d. þegar ég hlusta á fréttir í RÚV – að þurfa að hækka í viðtækinu um 2-4 stig þegar einstaka ónefndir þulir flytja fréttirnar.

    Gleðilegt ár, og þökk fyrir góða mola

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>