Gleðilegt og gæfuríkt ár, góðu lesendur. Skrifari þakkar ánægjuleg samskipti á liðnum árum.
Loksins er hægt að hrósa Ríkissjónvarpinu fyrir góða dagskrá, – dagskráin á nýársdagskvöld var með ágætum. Fyrst snillingarnir Kristinn og Víkingur Heiðar með óviðjafnanlega, og ógleymanlega, Vetrarferð Schuberts og því næst verðlaunamyndin víðfræga , Listamaðurinn. Takk fyrir það.
Að mati Molaskrifara var margt vont við heldur ófyndið áramótaskaup Ríkissjónvarpsins. Fernt var verst: Í fyrsta lagi hugmyndafátæktin sem lýsir sér í því hve miklum tíma var varið til að fjalla um Ólaf Ragnar Grímsson. Í öðru lagi hrikalegt einelti gagnvart Eddu Sif Pálsdóttur, íþróttafréttamanni. Hún hefur ekkert annað til saka unnið en að vera dóttir föður síns. Óbreyttur starfsmaður Ríkisútvarpsins. Þessi háttsemi höfunda Skaupsins er einsdæmi. Þau eru líka verst. Í þriðja lagi gera höfundar sér enga grein fyrir muninum á beittu háði, ádeilu og hreinni illgirni. Í fjórða lagi klámfengið og subbulegt orðbragð. Börn horfa á Skaupið. Á heildina litið var þetta heldur vont Skaup.
Molalesandi vekur athygli á fyrirsögn á vefnum, visir.is (28.12.2012): ,,Rakst á þessa fyrirsögn á visir.is í morgun :
Tileinkaðu þér bættari siði á árinu
Ég spyr: Hvað með „betri“, er það ekki nógu sterkt orðalag?” Það gæti verið rétt tilgáta, en betra er að tala um betri siði en bættari siði.
Hjörleifur Jóhannesson sendi eftirfarandi (27.12.2012),, Mig langar að benda þér á þátt sem var annan í jólum á Ríkisútvarpinu. Þar er viðtal við tvær ungar konur sem eiga sér þann draum að talað sé rétt við unga fólkið. Undirstaða þess að íslenskan haldi velli sé að fullorðnir vandi sig og tali rétt mál við börnin. Vandamálið er að sjaldan eða aldrei hef ég heyrt jafn margar ambögur og málvillur í viðtali hjá Útvarpinu. Það byrjar á tuttugustu og sjöundu mínútu. Mér dettur í hug að þér þætti gaman að hlusta á þátt þennan, en eftir að ég heyrði hann skildi ég eilítið betur vandamálið sem börn eiga við að etja í dag.
Sendi þér þetta til gamans.”
http://www.ruv.is/sarpurinn/stor-og-litil-aevintyri/25122012-0 Rétt er það hjá Hjörleifi að þarna má ýmislegt betur fara en Molaskrifara finnst hann þó taka fullsterkt til orða. Lesendur dæmi.
Þóra þakkar þessa pistla og segir (27.12.2012): Undirrituð hefur áhuga á ísl. máli og er uppalin við rétt og gott mál norður í landi.
Ég horfði á fréttir í sjónvarpinu um daginn, fréttakonan sagði frá dansleik og ,,dansinn dundi“.. ekki dunaði,slæm villa hjá þeim.
Svo eru orðin „klárlega“ og „gríðarlega“
of mikið notuð. Hvenær ætli orðið „klárlega“ hafi orðið svona algengt? Það er ekki hægt að ,,toppa“ gríðarlega… hvað segir þú um þetta?
Þá finnst mér leiðinlegt að heyra að e-ð sé,,grafalvarlegt“ er það ekki frekar að Jón sé grafalvarlegur á svipinn?
Að síðustu langar mig að nefna eitt, það er ef e-r er spurður og hann byrjar á að svara: „Heyrðu“….. Það er kækur að nyrja svar á þv í að segja heyrðu, oft hurðu. Klárlega er tískuorð sem sennilega hverfur að mestu áður en langt um líður.
Óveður hefur víða ollið rafmagnsleysi var sagt í fréttum Stöðvar tvö (29.12.2012). Sögnin að valda velur sem sé víða vandræðum. Hér hefði átt að segja að óveðrið hefði valdið rafmagnsleysi. Óveðrið olli rafmagnsleysi. Í fréttum af þessu sama óveðri var í Ríkissjónvarpi sagt að háspennulínur væru úti. Eru ekki allar háspennulínur úti? Varla eru þær inni. Hér hefði til dæmis mátt segja að háspennulínur hefðu slitnað í óveðrinu. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (30.12.2012) voru farsímasendar á Vestfjörðum og víðar ýmist úti eða inni. Fréttamenn eru að festa þetta í málinu.
Vinur Molanna skrifaði: ,,Íþróttafréttamaðurinn … … sagði frá því í íþróttafréttum Ríkissjónvarps í kvöld (30.12.2012) að Vala Flosadóttir hefði verið tekin inn í heiðurshöll ÍSÍ fyrir afrek sín í spjótkasti.
Vala Flosadóttir vann vitanlega bronsverðlaun á Ólympíuleikunum árið 2000 í stangarstökki og held ég að svona lagað ætti að vera eitt af því sem menn þurfi að vita þegar þeir fá vinnu sem íþróttafréttamenn”. Molaskrifari ákvað að sleppa lýsingu bréfritara á fréttamanninum og nafni fréttamannsins úr þessu bréfi.
Í Ríkisútvarpi er enn hvað eftir farið rangt með framburð á heiti ríkisins Connecticut í Bandaríkjunum. Nokkrir fréttamenn eru með þetta á hreinu. Aðrir virðast ekki skilja þetta eða er alveg sama um rétt og rangt í framburði. Meðal annars í fréttaannál útvarpsins var farið rangt með þetta. Það er með ólíkindum hve sumum gengur illa að hafa þetta rétt. Ótrúlega vond vinnubrögð. Fréttastofan segist njóta mikil trausts. Henni er samt ekki treystandi til að hafa þetta einfalda atriði rétt.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins verðlaunar fréttastofu Ríkisútvarpsins. Sjá: http://www.ruv.is/frett/frettamenn-arsins-utnefndir Gaman að þessu. Ekki vantar húmorinn í Efstaleiti.
Vegna kostnaðar ætla nokkur Evrópulönd að hætta við þátttöku í Evróvisjónsöngvakeppninni á næsta ári. Þetta eru að sögn til dæmis Pólland, Portúgal og Slóvakía. Löndin telja sig ekki hafa ráð á þessu. Kostnaður við þátttöku getur hlaupið á milljónatugum og enn dýra er að sigra í keppninni. Umbúnaðurinn, ramminn, hefur þanist út en innihaldið samtímis rýrnað. Það er auðvitað sjálfsagt að sýna þetta en það er ekki sjálfgefið að við eigum að vera meðal keppenda. En örugglega verðum við það því Ríkisútvarpið þrýtur aldrei fé þegar popp-tónlist og íþróttir eru annarsvegar. Þá skiptir ekki máli þótt tapið hafi verið 85 milljónir króna á rekstrarárinu sem lauk 31. ágúst 2012. Stjórn Ríkisútvarpsins ohf fékk líka rúmlega sex milljónir króna fyrir að stimpla þessa glæsilegu rekstrarniðurstöðu. Það virðist að lögum næstum eina hlutverk stjórnarinnar. Þörfin fyrir umbætur innan Ríkisútvarpsins ætti nú að vera öllum ljós. http://edition.cnn.com/video/#/video/world/2012/12/28/wr-soares-eurovision-sings-blues.cnn?iref=allsearch
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
Skildu eftir svar