«

»

Molar um málfar og miðla 1098

Frá Molavin:,, Af Netmogga á nýársdag: ,,Þegar lögregla og sjúkralið koma á staðinn ræðst maðurinn á sjúkraflutningsmenn og sló lögreglukonu í andlit.“ Hvað er athyglisvert við þessa frásögn? Hún er dæmi um slík byrjendamistök í ritun frásagnar að ætti ekki að henda nokkra manneskju, sem lokið hefur námi og er komin er til starfa við fréttaskrif. Flakkað er milli nútíðar og þátíðar í beinni frásögn í einni og sömu setningunni. Sé þetta komið úr fréttatilkynningu lögreglu ber blaðamanni að leiðrétta og umorða. Svo myndi ekki saka að fjölmiðlar hefðu prófarkalesara eða að minnsta kosti eina fullorðna persónu á vakt.” Rétt.
Meira frá Molavin: ,, Af vísi.is á nýársdagsmorgni: ,,Slagsmál brutust út í heimahúsi í Hafnarfirði á fimmta tímanum í nótt. Þegar lögreglumenn komu á vettvang kom í ljós að aðili í húsinu var vopnaður halgabyssu.“ Ekki er nánar fjallað í fréttinni um hver ,,aðild“ viðkomandi var. Í þessari frétt eins og nokkrum öðrum frá lögreglu ,,haldlagði“ lögregla vopnið. Er lögreglu eða þeim, sem matreiða fréttatilkynningar hennar gersamlega fyrirmunað að tjá sig á mannamáli?” Það virðist erfitt.

Erlingur Sigurðarson skrifaði á fésbók (02.01.2013): Í ,,helstinu“ í hádegisfréttum Rúv og inngangi að ,,frétt“ sagði orðrétt: ,,Formaður stjórnlagaráðs tekur undir gagnrýni forseta Íslands“ á stjórnarskrárfrumvarpið. ÞETTA ER EINFALDLEGA RANGT. Í fréttinni sem fylgdi sagðist Salvör Nordal geta verið sammála forseta um að sá tími sem þingið hefði til að ljúka málinu væri orðinn ansi knappur, tók ekki undir eitt einasta atriði í efnislegri gagnrýni og (rang)túlkun ÓRG í nýjársávarpinu. Hvaða tilgangi á þessu líkur fréttaflutningur að þjóna, Óðinn Jónsson, fréttastjóri?” Einnig var rætti við Ragnhildi Helgadóttur prófessor. Haft var eftir henni að boðaskapur forsetans væri ,,skýr og fínn”. Allt annað kom hinsvegar fram í viðtali við hana í fréttatímanum. Þetta voru undarleg vinnubrögð. Hvergi sést að fréttastjóri hafði svarað þessari réttmætu athugasemd Erlings Sigurðarsonar. Hann las fréttina og er ábyrgur fyrir því sem sagt er í fréttum. Samtímis auglýsir fréttastofan að hún njóti meira trausts en allir aðrir miðlar!

Um áramót var sagt í efnislista í Ríkissjónvarpi að lagið við ljóðaþýðingu Jónasar, Álfareiðina (Stóð ég úti í tunglsljósi) væri íslenskt þjóðlag. Áhöld eru um það. Í Tónlistarsögu Reykjavíkur eftir Baldur Andrésson segir: ,,Lagið „Stóð ég úti í tunglsljósi“ er hvergi talið íslenzkt lag í íslenzkum nótnabókum; í sumum er það talið þjóðlag, en ekki þess getið, hverrar þjóðar lagið er.”

Heyrði ekki betur en orðið togstreita væri notað í fleirtölu, togstreitur, í dagskrárkynningu í Ríkisútvarpi á nýársdag. Vefur Árnastofnunar birtir einungis eintöluna. Sem sé að orðið sé ekki til í fleirtölu. Það þýðir þó ekki að rangt sé að nota fleirtöluna.

Í opnuauglýsingu í Morgunblaðinu á gamlársdag fræddi fyrrverandi ,,óskabarn þjóðarinnar” Eimskip lesendur á því hve mörgum það hefði lagt lið. Voru þar ýmis samtök nefnd til sögu. Þess var hinsvegar látið ógetið að Eimskip hefði styrkt Árna Johnsen alþingismann, eða Þorláksbúðarfélag hans, með ríflegu fjárframlagi til kofabyggingar í Skálholti og enn fremur styrkt þingmanninn til grjótflutninga til Vestmannaeyja. Þessu verður að halda til haga. Því er alls ekki haldið fram að ættartengsl forstjórans og þingmannsins hafi ráðið hér nokkru um.

Enn var fréttabarn við skriftir á mbl. is að kveldi nýársdags: ,, Meðlimir tríósins eru þeir Þórir Baldursson, Troels Bendtsen og Björn Björnsson, en Þórir var meðal þeirra 10 sem í dag fengu afhendan riddarakross frá forseta Íslands.” Menn fá ekki afhentan riddarakross og enn síður afhendan ! Molaskrifari bætir því við að þeir Björn og Troels hefðu ekki síður átt þennan heiður skilinn.

Í fréttum (02.01.2013) var frá því greint að sjö af átta svokölluðum hælisleitendum hefðu í fyrra logið til um aldur, sagst yngri en þeir voru. Einn hefði ekki verið hægt að rannsaka því hann hefði þjáðst af tannvöntun, sagði sá sem rætt var við. betra hefði verið að segja að ekki hefði verið hægt að rannsaka manninn því hann hefði verið svo illa tenntur eða tannlaus!

Gaman að lesa fréttir um systkinahópa hér á landi sem ná samtals þúsund ára aldri. Fréttin um Kjóastaðasystkin rifjaði upp fyrir Molaskrifara að hálfbróðir hans, Tryggvi, sem fæddur var 1930 og lést 1952 mun að talsverðu leyti hafa alist upp í hópi Kjóastaðasystkina. Honum kynntist Molaskrifari hinsvegar lítið, – því miður.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Rétt er að fara varlega í því að skammast sín fyrir að skrifa nýjár. Þegar ég var í íslenskunni forðum minnist ég þess að lærifaðir minn Halldór Halldórsson taldi að ekki væri síður ástæða til að hafa joð en sleppa því. Og skoði menn orðasafn Árnastofnunar má sjá báðar myndirnar gefnar, vita athugasemdalaust.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Þorgils. Rétt hjá þér. K kv ESG

  3. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Sæll Eiður og gleðilegt ár! Ég fagna því eins og ýmsir fleiri að þú skulir halda áfram þessum þörfu pistlaskrifum. Í þessum pistli sá ég þó eina meinlega villu; „í nýjársávarpinu“ (svo). Ef til vill var þetta vísun í hinn góða mann Erling Sigurðarson, en mig langaði bara til þess að benda á að nýár og allt sem því tengist er ekki með j-i. Síðar í pistli þínum er þetta alveg rétt. Kær kveðja, með innilegum þökkum, Þorgils Hlynur.

  4. Eiður skrifar:

    Sæl, – sá þetta líka. verður nefnt í Molum. Í Noregi var maður á nálum á vissum svæðum að aka ekki á elgi. Vatnselgir eru hinsvegar óþekktir þar í landi, en þeir eru greinilega komnir til Íslands!

  5. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Það hefur heldur betur bæst í dýralíf hér á landi. Elgir kenndir við vatn á vegum landsins.

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/04/buast_ma_vid_vatnselgi_a_vegum/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>