«

»

Molar um málfar og miðla 1099

Málfróður maður benti Molaskrifara á furðulegt þáttarheiti í Ríkisútvarpinu, rás eitt. Þar var á dagskrá í gærkveldi þáttur sem gefið hefur verið nafnið: Hvað er málið? Hann benti á að þetta þáttarheiti væri andstætt reglum málsins, ambaga. Það er rétt. Þetta er heldur hallærislegt slangur, svona í besta lagi. Gæti verið úr Virkum morgnum á rás tvö. Hér á málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins að láta til sín taka og hafa vit fyrir þeim sem láta svona vitleysu viðgangast. Þátturinn er einkum ætlaður unglingum. Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Ekki síst ungu fólki. Þetta þáttarheiti er það ekki. Það er Ríkisútvarpinu ekki til sóma, – vægt til orða tekið.

Viðar Hjartarson sendi Molum þetta ágæta bréf (02.01.2013): ,,Sæll. Langar að minnast á 2 atriði í málinu sem oft er farið rangt með. Legg í þínar hendur að birta eða birta ekki eftirfarandi: Virtur hagfræðingur (og dósent við HÍ) segir (Smugan 2.1.2013):“…að þrátt fyrir þessa þróun (þ.e. veikingu krónunnar) geti kaupmáttur haldið áfram að síga upp á við“. Sögnin að síga þýðir að lækka eða hníga, fyglingurinn sígur (niður) í bjargið en ekki upp það. Landið sígur, það lækkar, það sígur ekki upp á við. Þessi ambaga er ótrúlega lífsseig.
Önnur rassbaga sem skýtur upp kollinum af og til er tengd orðinu vonarpeningur, sem eins og flestir vita merkir eitthvað sem lítils má vænta af. Reyndur blaðamaður sagði nýlega í fréttaskýringu sinni að konan X væri helsti vonarpeningur ákveðins stjórnmálaflokks og átti við að hún væri líklegri en aðrir til að efla flokkinn.
Þú, Eiður, gagnrýnir oft Ríkisútvarpið (þori ekki að segja RÚV!) en vel skilaði fréttastofa þess hlutverki sínu, nú um áramótin, með ítarlegum fréttum af óveðrinu (og rafmagnsleysinu)á Vestfjörðum og Snæfellsnesi og sannaði enn einu sinni hversu mikilvægur hlekkur það er í öryggisnetinu þegar hættur steðja að. Með kveðju VH.” Molaskrifari þakkar Viðari bréfið. Það er rétt hjá honum að fréttastofan stóð sig vel þarna. Hún gegnir víðtæku og mikilvægu öryggishlutverki.

Með jöfnu millibili heyrist orðalagið samkvæmt lögreglunni eða samkvæmt yfirvöldum eins og nýlega var sagt á Stöð tvö. Betra væri: Að sögn lögreglunnar, að sögn yfirvalda.

Í fréttum Stöðvar tvö (02.01.2012) var sagt um flugskeytaárás á bensínstöð í Damaskus (ekki da´Maskus, eins og sagt var með enskri áherslu) að skotið hefði verið einu loftskeyti á stöðina. Orðið loftskeyti hefur fasta merkingu í íslensku, það er ekki flugskeyti eða eldflaug. Loftskeytastöðin á Melunum var til að mynda ekki vopnabúr, heldur fjarskiptastöð.

Búast má við vatnselgi á vegum, segir í fyrirsögn á mbl.is (04.01.2013). Betra væri: Búast má við vatnselg á vegum, vænta má vatnselgs á vegum.

Af dv.is (04.01.2013): ,,Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning rétt upp úr miðnætti í nótt vegna aðila sem hafði ruðst inn í íbúð við Hverfisgötu og tekið þar GSM-síma af borði og kastað honum í gólfið. Var aðilinn sagður í mjög annarlegu ástandi og var haldið af íbúum þegar lögregla kom á svæðið. Var hann vistaður í fangelsi og beðið með að yfirheyra hann þar til hann verður í ástandi til þess.” Frétt? Eiginlega ekki. Þar að auki ótrúlega illa skrifað.

Málglöggur maður hafði samband við Molaskrifara og gerði athugasemd við að Mjólkursamsalan talaði í auglýsingum um mjólkurbændur. Hann taldi, réttilega að mati Molaskrifara. að eðlilegra að talað væri um kúabændur. Þá má spyrja hvort sauðfjárbændur séu ekki samkvæmt þessu kjötbændur?

Dálítið skondið að heyra forseta Íslands segja í áramótaávarpi að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá mundu auðvelda fólki að ná þingsetu í krafti fjölmiðlafrægðar! Ólafur Ragnar kom sér í útvarpsráð og þáttastjórnun í Sjónvarpinu hér á árum áður. Fjölmiðlafrægð átti þátt í að fleyta honum inn á þing. Það gildir auðvitað um fleiri eins og þann sem þetta skrifar. Það var ekkert verra að þurfa ekki að kynna sig í kosningabaráttunni veturinn og vorið 1978. Þá hlotnaðist mér uppnefnið ,,sjónvarpsstrákurinn að sunnan” frá virðulegri prestsfrú að norðan sem einnig bauð sig fram til þingsetu fyrir Vestlendinga. Gaman að rifja þetta upp.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Geri það, Egill. Kærar þakkir.

  2. Egill þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Mér finnst það sjálfsagt að þú birtir þessa ábendingu mína varðandi snjóruðning undir nafni og yrði jafnvel montinn ef það gerðist. Afsakaðu hvað ég svara seint hafði
    ekki aðgang að tölvu fyrr en núna.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>