«

»

Molar um málfar og miðla 1106

Lesandi benti á frétt á visir.is (11.01.2013) Þar segir frá því að sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver hafi gert samning við knattspyrnuliðið Manchester City um að elda ofan í fína fólkið sem sækir leiki og veislur félagsins. Svo kemur þessi gullvæga setning: Oliver hefur verið í herferð gegn heilbrigðari skólamat í Bretlandi og Bandaríkjunum og spurning hvort hann muni bjóða fína fólkinu upp á grænmetisbakka og gulrótarsafa? Hér er skrifað þvert á veruleikann! Sjónvarpskokkurinn hefur verið og er að berjast fyrir því að skólabörn í Bretlandi og Bandaríkjunum fái hollari mat. Tvímælis orkar að tala um helilbrigðan mat. Það er álitamál hvort sá sem skrifaði þessa frétt kunni og skilji íslensku nægilega vel til að sinna þessu starfi. Sjá: visir.is/man.-city-semur-vid-jamie-oliver/article/2013130119906

Ég lét þá fífla mig hvað eftir annað, er haft eftir handboltamanni á visir.is (13.01.2013). Þetta er greinilega hið versta mál. Sögnin að fífla þýðir nefnilega að fleka eða ginna til kynmaka. http://www.visir.is/hm-2013–eg-let-tha-fifla-mig-hvad-eftir-annad/article/2013130119694 Líklega átti maðurinn við að hann hefði verið hafður að fífli hvað eftir annað, en það er annar handleggur.

Í leiðréttingu (11.012013) sem pressan is kýs að kalla áréttingu en ekki leiðréttingu segir: Hið rétta er að Vigdís segist í viðtalinu ekki hafa borist hótanir um líflát eða líkamsmeiðingar. Hér ætti fremur að standa: Hið rétta er að Vigdís segir í viðtalinu að sér hafi ekki borist ….

Ríkisútvarpið auglýsir aftur og aftur að það njóti meira trausts en aðrir fjölmiðlar. Þá eigum við að geta treyst því að Ríkisútvarpið fari rétt með. Í stuttri frétt í sjöfréttum að morgni laugardags (12.01.2013) um auglýsingu um starf ráðuneytisstjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytis var farið rangt með tvær staðreyndir. Molaskrifari ætlar ekki að leiðrétta ranghermið. Það ætti fréttastofa Ríkisútvarpsins að gera sjálf, en það er líkast til borin von. Leiðréttingar eru sjaldgæfar þar á bæ. Þær gætu kannski dregið úr traustinu hjá einhverjum. En hvað sem því líður verður að gera þá kröfu að farið sé rétt með staðreyndir.

Af mbl.is (11.01.2013): ,,Katrín, sem er gift Vilhjálmi prins, er máluð af listamanninum Paul Emsley en það var framkvæmdastjóri National Portrait Gallery, Sandy Nairne, sem fékk listamanninn til verksins”. – Óþörf þolmyndarnotkun.
Af mbl.is (11.01.2013): Fyrirsögn: Fengu alls tæp tíu ár fyrir nauðgun. Í fréttinni segir: ,,Tveir karlmenn voru í morgun dæmdir í fimm ára og 4 ára og 6 mánaða fangelsisrefsingar fyrir nauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur.” Hvaða tilgangi þjónar að leggja þetta saman og tala um tæp tíu ár? Molaskrifari áttar sig ekki alveg á því. Svo ætti að vera samræmi, annað hvort að rita allar tölur með bókstöfum eða tölustöfum. Ekki sitt á hvað.
..nokkur af þeim trendum sem verða stór í sumar , segir í sjónvarpsauglýsingu frá Fréttablaðinu (11.01.2013). Óboðlegt málfar í auglýsingu frá fjölmiðli sem vill að hann sé tekinn alvarlega.
Bakkavararbræður tala í málshöfðun um hatursherferð DV gegn sér. Orðið hatursherferð kemur reyndar oftar í hug þegar fylgst er með skrifum Morgunblaðsins um aðildarumsókn okkar að ESB og þá starfsmenn utanríkisráðuneytisins sem mest hafa unnið að málinu og staðið sig með miklum ágætum. Það er með ólíkindum hve lágt Morgunblaðið hefur lagst í þessum skrifum og persónulegum árásum á einstaka starfsmenn utanríkisráðuneytisins sem af fullum trúnaði eru að sinna mikilvægum störfum fyrir land og þjóð.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>