«

»

Molar um málfar og miðla 1105

Guðmundur Ásgeir vísar í ambögulindina Smartland á mbl.is (10.01.2013) og segir: ,,Í þessum pistli er talað um ,,7 óhollustur“ aldrei hef ég séð orðið óhollusta í fleirtölu og Árnastofnun samþykkir það ekki heldur. Einnig er talað um ,,hrein matvæli“ sem matvæli sem eru óunnin og laus við aukaefni. Í mínum heimahögum myndu hrein matvæli þýða til dæmis kartöflur eftir að þær hafa verið skolaðar eða þvíumlíkt”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Gunnar segir (10.01.2013): „Á horni Bergstaðastrætis og Laugavegs,“ var sagt í auglýsingu frá veitingastað, á Rás 2 áðan. Molaskrifari bætir við að eignarfallsmyndin vegs er vel þekkt. Lengi  starfaði Laugavegsapótek við Laugaveginn, á horni Laugavegar og Vegamótastígs.

 

Fyrsta málverkið af Kötu, segir mbl.is í fyrirsögn (11.01.2013) Fréttin er um málverk af Katrínu hertogaynju af Cambridge, eiginkonu Vilhjálms Bretaprins. Ef sagt væri frá málverki af Ólafi Ragnari, forseta Íslands, mundi þá mbl.is tala um fyrsta málverkið af Óla? Örugglega ekki.

 

Stundum sjá þeir sem skrifa fréttir í netmiðla villu síns vegar og leiðrétta. Um tíma var (10.01.2013) fyrirsögn á dv.is þar sem sagði: Ég var ekki að leitast eftir vandræðum. Þetta var leiðrétt og sagt. Ég var ekki að leita eftir vandræðum. Lesandi benti á þetta á mbl.is (10.01.2012): ,,Þetta leiðir til þess að lítil fyrirtæki aftra sér frá að ráða nýtt fólk og kemur þannig í veg fyrir að þau hjálpi til við að draga úr atvinnuleysi. Þetta var meðal þess sem Sigurjón M. Egilsson, blaðamaður og útgefandi, sagði ..” Að aftra er koma í veg fyrir , hindra. En að aftra sér að einhverju segir orðabókin að sé að hika við eitthvað, en það er einmitt merking þess sem Sigurjón segir, þótt hann orði það ekki nákvæmlega þannig.

 

Annar lesandi bendir á fyrirsögn á visir.is (10.01.2013): ,,Best klædda bisnessfólkið
http://www.visir.is/best-klaedda-bisnessfolkid/article/2013130119928
Svo sem ekkert nýtt en alveg hrikalega kjánaleg fyrirsögn. Vefur einsog visir.is á að mínu mati að sýna metnað í því að tala íslensku, en ekki sletta svona.” Molaskrifari er sammála.

 

Árla á föstudagsmorgni (11.01.2013) hlustaði Molaskrifari á endurflutta Víðsjá, að hluta á Rás eitt. Þar var rætt við Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, tónlistarstjóra Hörpu, um tæknina sem notuð er til að stilla hljómburð í Eldborgarsal Hörpu. Alveg makalaust, – mjög fróðlegt. Einnig var þar fluttur ágætur leikdómur um Mýs og menn Steinbecks á fjölum Borgarleikhússins.

 

Lesandi spyr (11.01.2013): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/11/thusund_km_murinn_rofinn_2/
Ætli blaðamaðurinn sem skrifaði þetta hafi verið of þreyttur til að skrifa kílómetra í stað km? – Það gæti svo sem verið. Eða bara latur?

 

Tuttugu milljóna fjárdráttur í Valhöll hefur verið í fréttum undanfarna daga. Fjármunirnir komu frá flokkahópi hægri manna í Norðurlandaráði. Það starf flyst milli Norðurlandanna. Þjófnaðurinn uppgötvaðist ekki í Valhöll, heldur þegar Finnar tóku við starfinu og bókhaldinu. Þá kom í ljós að tuttugu milljónir vantaði. Morgunblaðið segir um þann sem þetta gerði: Vegna starfa sinna fékk hann þó kreditkort frá Sjálfstæðisflokknum …” Kortið var ætlað til að greiða útgjöld vegna flokkahópsins. Spurningar vakna: Voru Sjálfstæðisflokkurinn og norræni flokkahópurinn með sameiginlegan fjárhag? Var norræna féð inni í rekstri Valhallar og Sjálfstæðisflokksins? Hversvegna uppgötvast þetta ekki fyrrr en Finnar taka við bókhaldinu? Dálítið undarlegt. Þess er sennilega ekki að vænta norrænir hægrimenn treysti Sjálfstæðisflokknum á Íslandi fyrir fé á næstunni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón H. Brynjólfsson skrifar:

    Hertogaynjan af Cambridge heitir Catherine Elizabeth Middleton en er nánast alltaf kölluð Kate eða jafnvel Katie í breskum fjölmiðlum. Þér finnst greinilega ekki við hæfi að kalla hana Kötu í íslenskum fjölmiðlum. Þér finnst hins vegar í lagi að kalla konuna sem hefur þann starfa að lesa dagskrárkynningar í Sjónvarpinu „hér-hikk-á rúv dagskrárkynni Ríkissjónvarpsins“. Þótt þú berir svona mikla virðingu fyrir útlensku kóngafólki finnst mér óþarfi að hæða og uppnefna fólk sem ekki er eins „fínt“ fyrir það eitt að sinna starfi sínu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>