«

»

Molar um málfar og miðla 1104

Molalesari skrifar (09.01.2013): ,,Sagt var í Bylgjufréttum: „Fengu þau hvor um sig …“ en átti að segja: „Þau fengu hvort um sig“.
A.m.k. sjö sinnum var talað um afbrot „Karl Vignis“ en ekki „Karls Vignis“ í Sjónvarpinu í gær, þriðjudag.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Það er undarleg minnimáttarkennd hjá íslenskum fjölmiðlum að kalla alla fræga útlendinga sem hér hafa drepið niður fæti Íslandsvini (Stöð tvö 09.01.2013)! Þetta segir meira um fjölmiðlana en þann sem um er rætt.

Það var ekki nákvæmt þegar sagt var í yfirliti frétta Ríkissjónvarps (09.01.2013) að bensín hefði lekið úr geymum Boeing Dreamliner farþegaþotu. Þotur eru ekki knúnar bensíni og hafa aldrei verið. Þær nota annarskonar eldsneyti sem er skyldara steinolíu.

Í fréttum Stöðvar tvö (09.01.2013) um myglusvepp í húskynnum Landspítalans var talað um eldri byggingu spítalans. Ekki vel orðað að mati Molaskrifara. Nær hefði verið að tala um gamla Landspítalahúsið eins og gert var í fréttum Ríkissjónvarps.

Enginn má við mörgum, segir hér-hikk-á rúv dagskrárkynnir Ríkissjónvarpsins um sjónvarpsþátt. Samkvæmt íslenskri málvenju ætti að segja Enginn má við margnum. Kannski halda þeir að fólk skilji ekki þetta ágæta orðtak.

Fréttastofa Ríkissjónvarpsins hefur verið í herferð undanfarna daga og flutt í hverjum fréttatíma gamlar fréttir og nýjar um greiðslur úr sjúkrasjóðum ýmissa stéttarfélaga. Milli þess sem fréttir hafa verið sagðar af sjúkraflugi til Vestmannaeyja. Sjúkrasjóðsfréttirnar eru líklega til að sýna hve ástandið í þjóðfélaginu sé slæmt núna í aðdraganda kosninganna, – eða hvað?

Í Fréttablaðinu (10.01.2013) er þriggja dálka frétt þar sem sagt er frá því að bandarískt tryggingafélag bjóði bifreiðaeigendum iðgjöld sem ráðist af því hve bílnum sem tryggður er sé ekið mikið. Þetta þykir Molaskrifara ekki mikil nýlunda. Þegar hann bjó og starfaði í Noregi 1993 til 1998 greiddi hann einmitt iðgjöld af bíl sínum miðað við akstur. Ef ekið var meira en tryggingafélaginu hafði verið sagt, þurfti einungis að greina frá því og iðgjaldið var hækkað. Ef hinsvegar varð tjón og bíllinn var kominn fram yfir tiltekið kílómetramark var bíleigandinn ekki í góðu máli. Það hafði einnig áhrif til lækkunar iðgjalds hvort bíllinn var jafnaðarlega geymdur í bílskúr. Þegar heim kom hafði Molaskrifari samband við tryggingarfélagið sitt hér. Engin iðgjaldaívilnun var þar í boði. Hvorki fyrir bílskúr eða lítinn akstur. Ekki skipti máli hvort bílnum var ekið fimm þúsund eða tuttugu þúsund kílómetra á ári. Þannig er það enn.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Bogi skrifar:

    Vísa hér á hlekk af vefsetri Skeljungs, þar sem eru upplýsingar um eldneyti fyrir flugvélar og þotur. Vandinn er líklega sá að sú rangfærsla að tala um bensín á loftför hverskonar hefur hreinlega tekið sér fasta búsetu í málinu og þá er ekki svo gott að vinda ofan af vitleysunni. Til þess að gæta allrar sanngirni sömuleiðis, þá er hreinlega ekki hægt að gera kröfu til þess að fréttamenn sem kannski ekki eru langreyndir hafi efnasamsetningu eldsneytis á gjörsamlega 100% á hreinu. Eitthvað þykist ég vita um flug – en að fara í gegnum þessa pistla er mér nýr sannleikur.

    http://skeljungur.is/Fyrirtaeki/Flugthjonusta

  2. Eiður skrifar:

    Vel man ég forsíðuuppsláttinn hjá MYND, – stórkostlæeg fyrirsögn eftir margra daga fæðingarhríðir vegna bilaðrar prentvélar.Ég var´þá á Alþýðublaðinu.

  3. Sigurður Bogi skrifar:

    Síðustu daga hafa stéttarfélögin hvert um annað þvert sent til fjölmiðla fréttir um að greiðslur úr sjúkrasjóðum þeirra hafi aldrei verið meiri. Og bara fínt að fá það fram; frétt er frétt. En ætli sé nokkur undirliggjandi tilgangur með slíku, annar en sá að bregða upp mynd af því að margir eiga undir högg að sækja í lífsbaráttunni. Sú hefur raunar alltaf verið raunin, alveg sama hvaða stjórnmálahreyfingar ráða ferðinni. Hins vegar tekur sig alltaf upp einhver viðkvæmni gagnvart svona fréttum þegar kosningar nálgast, þá er stjórnvöldum í mun að ástand mála sé sýnt sem þekkilegast. — Fréttin um sjúkraflug frá Eyjum er hins vegar drepfyndin. Árið 1962 hófst útgáfa á dagblaðinu Mynd, sem raunar kom ekki út nema í fáar vikur. Aðalfyrirsögn fyrsta blaðsins var: Flug til Eyja stopult næstu áratugina. Í þessu ljósi má segja að Mynd hafi verið kristalkúla um örlög Eyjanna.

  4. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Mikið rétt varðandi flugvélaeldsneytið. Allar stærri vélar t.d Fokker F-50 og þotur eru knúnar efni náskyldu steinolíu. Einungis smávélar eins og kennsluvélar nota svokallað flugvélabensín oftast 98 okt. Eitt eitt dæmi um óvönduð vinnubrögð fréttamanns.
    Kv, Egill

  5. Friðjón Hallgrímsson skrifar:

    Enginn má við margnum. Það var lóðið.

    Að vera í vondum málum. Ég held að það sé skömminni til skárra að hafa þetta í fleirtölu. Mér finnst hins vegar þetta orðalag ljótt og misnotað þar að auki.
    Hefði talið, að standa illa að vígi, betra og mun skiljanlegra. Jafnvel mætti notast við, að vera í klandri.
    Baráttuveðjur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>