Það hefur lengi verið opinbert leyndarmál að íþróttafélög og ungmennafélög birta bólgnar og rangar félagatölur til að fá meira fé í sinn hlut af Lottógróðanum og til að líta betur út gagnvart fjárveitingavaldinu, þegar gerðar eru fjárkröfur á ríkissjóð. Þessar tölur eiga oft lítið eða ekkert skylt við veruleikann. Ágæt umfjöllun var um þetta í fréttum Ríkisútvarps og sjónvarps á mánudagskvöld (07.01.2013). Íþróttafélög skrá alla félaga sem mæta á æfingar,- jafnvel þótt viðkomandi komi aðeins á eina æfingu. Þegar íbúar heils bæjarfélags eru hvattir til að ganga í ungmennafélag sveitarinnar til að auka hlut þess í Lottógróðanum er tímabært að endurskoða skiptingu Lottógróðans frá grunni.
Konan sem kynnti efni síðdegisútvarps á Rás tvö sl. mánudag (07.01.2013) ætti að huga að málfari í kynningunum sem hún las. Þar var fleira en eitt eða tvennt sem var athugavert.
Á Smartlandi, séð og heyrt síðu mbl.is, sagði (08.01.2013): Ofurskutlan Kristrún Ösp Barkardóttir er sest á skólabekk í Verkmenntaskólanum á Akureyri og ætlar að rumpa stúdentsprófinu af. Sögnin að rumpa þýðir að staga eða bæta. Líklega hefur sá sem skrifaði verið með aðra sögn í huga , að rubba af, eins og stundum er sagt. Að gera eitthvað fljótt og illa. Umrædd kona ætlar þá ekki að leggja sig fram, heldur rubba náminu af. Þetta er hinsvegar ekki frétt.
Kunnur sjónvarpsmaður skrifar á fasbók (08.01.2013): Já mín var ánægjan að fá gera þetta efni. Gera efni?
Úr grein í Morgunblaðinu á þriðjudag (08.01.2013): „Frá því á síðustu öld hefur hlutur sjávarútvegs í landsframleiðslu minnkað mikið og störf honum tengd fækkað enn meira“ segir Haukur Már Gestsson, hagfræðingur … Beygingafælni. …. hlutur sjávarútvegs í landsframleiðslum hefur minnkað og störfum honum tengdum fækkað enn meira …
Lesandi sendi þetta (07.01.2013): ,,Í veðurfréttum í hádeginu í dag var sagt ,,dálitlir“ skúrir. Leiðinlegt að heyra þetta. Regnskúr er kvk-nafnorð og þar með er spáð dálitlum skúrum, sem falla sjálfsagt á dálitla skúra.“ Molaskrifari bætir við: Skúr í merkingunni, úrkoma sem er ekki langvinn, getur verið bæði karlkyns og kvenkyns íslensku. Það mun vera landshlutabundið hvort talað er um regnskúr í karlkyni eða kvenkyni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
Skildu eftir svar