«

»

Molar um málfar og miðla 1102

Útvarpshlustandi skrifar (06.01.2013)
,,Margir sem koma fram í fjölmiðlum tala fallega íslensku og koma vel fyrir sig orði. Þetta er fagnaðarefni. Þeir sem flytja mál sitt áheyrilega geta líka vænst þess að betur sé tekið eftir máli þeirra. Ambögur og málvillur færast þó í vöxt í útvarpi, jafnvel virðist vera ráðið til fastra starfa hjá RÚV og fleiri stöðvum fólk sem ekki hefur nærri því nógu gott vald á móðurmálinu. Það ætti ekki að þekkjast, því mállýti geta smitast hratt út í gegnum þessa miðla mörgum til ama.
Nú er einnig svo komið að fjöldi viðmælenda stöðvanna getur tæpast sagt heila setningu, án þess að tafs og gjörsamlega óþörf milliorð skjóti aftur og aftur upp kollinum: „…hérna…“, „…sko…“, „…ég meina…“, „…þú veist…“ og fleiri slík eru endurtekin í þaula, stundum oft í sömu setningu. Þótt undarlegt sé, gerist þetta ekkert frekar hjá lítt skólagengnu fólki, heldur má heyra hvern háskólakennarann af öðrum lýta mál sitt með þessum hætti. Þeir verða að vanda sig betur, það er ætlast til að þeir séu fyrirmynd. Og, svo fleiri dæmi séu tekin, í hinum vinsæla umræðuþætti „Í vikulokin“ sl. laugardag var talskona nýs stjórnmálaflokks svo illa haldin af þessu meini að undrum sætti. Þeir sem stjórna þáttum af þessu tagi verða að velja til viðræðunnar fólk sem kann að tala.
Velski stjórnmálamaðurinn Aneurin Bevan, einn snjallasti ræðumaður sinnar tíðar í Bretlandi, sagði einhvertíma: „Það, sem er heimskulega sagt, er heimskulega hugsað“. Kannske þarf sumt af því fólki sem talar svona meingallað að hugsa betur sitt mál, áður en það opnar munninn – frekar en að vera með ónytjuorðum að reyna að skapa sér tíma til þess eftir að út í umræðuna er komið”. Molaskrifari þakkar þetta prýðilega bréf og þessa þörfu áminningu.

Egill Þorfinnsson sendi þetta (07.01.2013): ,,Áðan var ég að hlusta á fréttir Bylgjunnar. Þar var fréttaskýrandi ( ekki Gissur) að tala um mikla snjókomu í Kína og minntist hann m.a. á mikinn snjómokstur af vegum en orðaði það svo skemmtilega að það hefði þurft að ryðja ,,vegunum“ á milli borga. Ég hef heyrt að snjór væri ruddur en aldrei að heilu vegunum væri rutt. Ætli færðin hafa ekki versnað til muna eftir að vegunum var rutt í burtu.” Erfitt er að ímynd sér að færðin hafi batnað. Satt segirðu, Egill!

Það orkar mjög tvímælis hvernig fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur verið notuð í umfjöllun um sjúkraflug til Vestmannaeyja. Ekki fagleg vinnubrögð. Til dæmis í fréttum á mánudagskvöld (07.01.2013)

Nú fær Rás eitt ekki lengur frið fyrir poppinu. Á mánudagskvöld (07.01.2013) var hálfs annars klukkutíma poppþáttur á Rás eitt. Ekki að Molaskrifari hafi neitt á móti Rolling Stones. Hreint ekki. En fram til þessa hefur verið verkaskipting milli rásanna. Ætla núverandi dagskrárstjórar að breyta þessu? Er unnið að því að leggja Rás eitt í vaxandi mæli undir popptónlist? Það væri alveg í samræmi við stefnu æðstu stjórnenda Ríksútvarps þar sem popp og íþróttir eru í öndvegi.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps talaði fulltrúi Eimskips (07.01.2013) um Landeyjarhöfn. Rétt hefði verið að tala um Landeyjahöfn.

Lesandi sendi þetta (07.01.2013): ,,Í veðurfréttum í hádeginu í dag var sagt ,,dálitlir“ skúrir. Leiðinlegt að heyra þetta. Regnskúr er kvk-nafnorð og þar með er spáð dálitlum skúrum, sem falla sjálfsagt á dálitla skúra.“ Molaskrifari bætir við: Skúr í merkingunni, úrkoma sem er ekki langvinn, getur verið bæði karlkyns og kvenkyns íslensku. Það mun vera landshlutabundið hvort talað er um regnskúr í karlkyni eða kvenkyni.

Molaskrifara skjátlaðist í pistli gærdagins, þegar hann taldi að Ögurvík væri togari. Það er rangt. Ögurvík er útgerðarfélag. Þessvegna var fyrirsögnin á mbl.is Næst síðasta veiðiferðin fyrir Ögurvík sem Molaskrifari gerði athugasemd við alveg rétt og ekkert við hana að athuga. Beðist er velvirðingar á því.

Stöð tvö auglýsir þjónustu sem sagt er að kosti aðeins 265 krónur á dag. Klókt að geta þess ekki að 265 krónur á dag eru um 8000 krónur á mánuði. Eða 96 000 krónur á ári!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er að sjálfsögðu réttmæt athugasemd, Gunnar.

  2. Gunnar skrifar:

    Það væri svosem í lagi að auglýsa að áskriftin kosti 265 krónur á dag, ef maður gæti keypti t.d. helgaráskrift eða áskrift í nokkra daga. En það er ekki hægt. Því er þetta marklaust þvaður og beinlínis villandi auglýsing.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>