«

»

Molar um málfar og miðla 1107

Lesandi spyr (12.01.2013): ,,Ég hef tekið eftir því að skilningur fólks er mismunandi um hvor endi Laugavegarins sé efri. Eru Samtökin 78 á Laugavegi 3 efst á Laugavegi og Shell stöðin á Laugavegi 180 þá neðst? Eða er þetta öfugt?
Hvort er eðlilegra að miða við húsnúmer eða sjávarmál þegar maður tekur svona til orða? Ég held að það sé algengara að fólk miði við sjávarmál, en er það rétt?” – Molaskrifari svarar: Nú veit ég ekki hvað er,, rétt” í þessu efni. Ég er alinn upp í Norðurmýrinni, ekki ýkja langt frá Laugavegi. Ævinlega var miðað við húsnúmer. Hæstu númerin voru efst á Laugaveginum,austast. Svo vann ég um árabil á Laugavegi 176.Hallast að því að stundum hafi maður sagt ,,innst á Laugaveginum”. Enda var maður þá kominn langleiðina inn að Lækjarhvammi, sem fáir muna nú lengur hvar var.

Fyrir nokkru var eftir ábendingu málfróðs Molavinar gerð athugasemd við þáttarheiti í Ríkisútvarpinu. Þáttur sem einkum er ætlaður ungu fólki heitir: Hvað er málið? Þetta er ekki rétt málnotkun samkvæmt reglum tungunnar sem Ríkisútvarpinu ber skylda til að hafa í heiðri. Hvað segir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins um þetta þáttarheiti? Er þetta vandað mál? Á ekki ungt fólk það skilið að til þess sé talað á góðu máli? Gott væri að fá viðbrögð.

Ég felldi tár eins og stunginn grís, sagði slúðurpistlahöfundur Ríkisútvarpsins á mánudagsmorgni (14.01.2013). Fleiri gullkorn hrutu af vörum pistlahöfundar, að vanda, en verða ekki tíunduð hér.

Það eru líklega ein fjörutíu og fimm ár síðan Molaskrifari, sem nú er, fékk ádrepu á fundi í Blaðamannafélagi Íslands. Mér varð það á að tala um blaðakonur. Þær leiðréttu mig snarlega Elín Pálmadóttir og Hólmfríður K. Gunnarsdóttir. Þær sögðust vera blaðamenn. Elín starfaði í áratugi á Morgunblaðinu en Hólmfríður starfaði á Alþýðublaðinu á sjöunda áratugnum. Þær voru ekki blaðakonur. Þær voru blaðamenn. Það gladdi gamalt blaðamannshjarta þegar Anna Kristín Jónsdóttir sagðist í Útsvari (11.01.2013) vera fréttamaður og í Fréttablaðinu (12.01.2013) var sagt að Elísabet Margeirsdóttir væri veðurfréttamaður á Stöð tvö.

Enn kemur Ungmennafélag Íslands við sögu frétta (11.01.2013) vegna lóðabrasks. Nú fær félagið 14 milljónir króna fyrir að skila Reykjavíkurborg lóð í miðbænum. Allt er þetta mál hið undarlegasta. UMFÍ hefur að líkindum meginhluta tekna sinna af Lottógróðanum og af fjárveitingum úr ríkissjóði. Um langt árabil var félagið eins og deild í Framsóknarflokknum. Kannski er svo enn. Ekki má dragast mikið lengur að endurskoða skiptingu hins lögverndaða einkaleyfisgróða af Lottóinu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Bogi Sævarsson skrifar:

    Gatnakerfið í Reykjavík er afar einfalt. Grófarhúsið svonefnda, þar sem veitingastaðurinn Kaffi Reykjavík var lengi og er kannski enn, er núllpunktur borgarinnar. Frá því teljast allar götur borgarinnar – og þarna á Núllinu t.d. byrja Vesturgata, Austurstræti, og Hafnarstræti. Eftir því sem fjær dregur umræddu húsi þá hækka húsnúmerin og í Reykjavík gildir að oddatöluhús eru á vinstri hönd og á þeirri hægri er slétta talan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>