«

»

Molar um málfar og miðla 1108

Í fréttatíma Stöðvar 2 ( 13.01.2013) var sagt um Mubarak fyrrum Egyptalandsforseta …. svara til saka fyrir þau voðaverk sem hann framdi í valdastóli. Hér hefði farið betur á að segja til dæmis: .. sem hann framdi meðan hann sat á valdastóli. Í íþróttafréttum á Stöð tvö var sagt að Ísland hefði svarað með þremur mörkum og ekki litið til baka eftir það ! Að venju var talað um knattspyrnumann sem hefði verið sjóðheitur í allan vetur.

Molalesandi vitnar í frétt á mbl.is (14.01.2013): ,,Mjólkurbúið KÚ telur skýringar Mjólkursamsölunnar á gríðarlegri mismunun við verðlagningu á mjólk annars vegar til Mjólku ehf. sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðingar/Mjólkursamsölunnar og til mjólkurbúsins KÚ ehf. vera ótrúverðugar og ósannar.” Hann segir: ,,Nafnið á fyrirtækinu er út úr kú. Það er ekkert erfitt að beygja belju. En kýr beygist kýr-kú-kú-kýr. Jafnvitlaust væri að nefna fyrirtæki í hestamennsku: Ferðaþjónustan hest.“ Reyndar er fleira athugavert við þessa frétt mbl.is en nafnið á fyrirtækinu !

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (13.01.2013) var fjallað um mótmæli í Frakklandi vegna hjónabanda samkynhneigðra. Þar var sagt: …væru mótfallnir því að samkynhneigðir gætu gengið í hjónabönd. Hér hefði verið eðlilegra að nota eintöluna, … gætu gengið í hjónaband.

Gunnar skrifaði (13.01.2013): „… vann einnig til tveggja gullverðlauna …“ sagði Edda Sif Pálsdóttir í sjónvarpsfréttunum í dag, laugardag. Auðvitað var unnið til tvennra verðlauna.
Ég horfði einnig á sjónvarpsþáttinn HA? í ólæstri dagskrá á Skjá einum í gær. Þar var maður að nafni Gunnar Sigurðarson sem gat varla látið út úr sér óbrenglaða setningu og gjöreyðilagði þáttinn þar með. T.d.: „… svo lengi sem …“ (e. as long as, sem er svo framarlega eða svo fremi, á íslensku), sofnaði í Álftavatni á bát, hann er ekki að vera vondur, spreyta sig í þessu … o.fl.
Páll Óskar, í sama þætti: „Ég gruna …“ Mig grunar hefði hann betur sagt. Já, fólki gengur misvel að koma frá sér óbrengluðum texta.

Á vef Ríkisútvarpsins segir (14.01.2013): Jón Bjarnason í engum nefndum. Hefði ekki verið eðlilegra að segja. Jón Bjarnason ekki í nefndum ?

Þannig er tekið til orða í frétt á visir.is (14.01.2013): … hvernig tveir íslenskir íþróttamenn úr kraftagreinum hefðu verið bráðkvaddir árið 1993. Þetta er ekki í samræmi við málvenju. Menn eru ekki bráðkvaddir, heldur verða bráðkvaddir þegar þeir deyja skyndilega og án sýnilegs aðdraganda.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Auðvitað er það rétt, Eirný, að skóli er settur en skólaár hefst.

  2. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Nýtt ár Kvikmyndaskóla Íslands byrjar með glæsibrag.

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/16/vandlatir_og_vel_taekjum_bunir_thjofar/

    Í fréttinni segir m.a.

    … en nýtt skólaár verður sett í dag.

    Mín máltilfinning og minni mitt eru sammála um að skóli sé settur og skólaár hefjist.

    Fyrst ég er byrjuð. Hvers vegna segjum við sjaldan höfundur skýrslu en veljum skýrsluhöfundar?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>