«

»

Molar um málfar og miðla 1109

Hjálmtýr Heiðdal sendi eftirfarandi: ,,Það er auglýsing í Fréttablaðinu í dag (15. jan.) sem vakti athygli mína. Ég gladdist þegar ég sá loksins einhvern nota sögnina að „kaupa“ í stað „versla“. Það þykir eðlilegt hjá mörgum að segjast hafa „verslað“ sér buxur osvfrv. En gleðin stóð ekki lengi því að framhaldið var á þessa leið: „Hvernig á að kaupa hollt í matinn?“ Hefði ekki verið fallegra og réttara að skrifa „hvernig á að kaupa holla fæðu“ eða „hollan mat“.” Molaskrifari er sammála þér, Hjálmtýr. Vissulega er það fallegra orðalag sem þú leggur til.

Lesandi skrifar (14.01.2013): ,,Í Fréttablaðinu um helgina var sagt frá því að Svavar Gestsson ætlaði að kryfja menningararf Vestur-Íslendinga á einhverjum fundi. Þar yrðu „krufnar“ ýmsar spurningar …. Mér þótti þetta merkilegt, því að mér var ekki kunnugt um andlát menningararfsins. Ég tek það fram að þetta krufningartal virðist vera á ábyrgð blaðamanns sem skrifar fréttina, þ. e. þetta er að því er mér sýnist ekki frá Svavari sjálfum. Mér var kennt það einhvern tíma að menn brytu mál til mergjar, þ. e. að beinið væri brotið til að komast að mergnum. Þú hefur kannske skoðun á þessu.” Molaskrifari hallast sömuleiðis að því að þetta sé heldur ankannalegt orðalag og líkast til er rétt til getið að það sé blaðamanns en ekki Svavars.

Margir eiga í engin hús að venda, var sagt í fréttum Stöðvar 2 (15.01.2013). Nær málvenju hefði verið að segja: Margir eiga ekki í nein hús að venda.

Lesandi skrifar (15.01.2013): ,,Gjarnan mætti vekja máls á orðinu verklag, sem er mjög áberandi í dag. Þetta er tískuorð og afbrigði af því er verklagsreglur eða verkferlar. Þetta er sérfræðimál eða kannselístíll, hvers vegna ekki bara að segja vinnubrögð? Einfalt og skýrt.” Þessu er hér með komið á framfæri. Molaskrifara finnst reyndar orðið verklag ágætt svo og verklagsreglur.

Svo er hér vinsamleg ábending til fréttaþular á Stöð tvö að gefnu tilefni (15.01.2013). Tónskáldið heitir Händel ( borið fram hendel) ekki Handel eins og sagt var í fréttum.

Önnur smávægileg ábending: Í texta í þættinum Lilyhammer í Ríkissjónvarpinu var talað um sýslumann í Lillehammer. Í Noregi eru ekki sýslumenn. Eini sýslumaðurinn í norskri lögsögu er á Svalbarða og Svalbarði er ekki Noregur, þótt Norðmenn fari með stjórn eyjaklasans.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>