Í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (17.01.2013) var talað um breska olíufyrirtækið Bípí ! Ja, hérna. Hvaðan kemur fólk sem svona talar við okkur?
Molalesandi skrifar vestan um haf (16.01.2013): ,,Ég á það nú til að fylgjast með molum þínum um málfar og miðla. Finnst nú tilefni til að deila með þér vangaveltum.
Þannig er mál með vexti að ég hef nú tvívegis, á skömmum tíma, heyrt talað um að fólk hafi ekki í nein hús að vernda. Fyrra skiptið var í byrjun þáttar Sölva Tryggvasonar um útigangsfólk í Reykjavík og svo nú síðast í frétt Stöðvar 2, þann 15. 01. 2013, um Sýrlenskt flóttafólk í Líbanon.
Ég held að hér hefði betur farið að tala um að eiga ekki í nein hús að venda.
Það getur svo sem verið að hér hafi ég rangt fyrir mér, eða mér jafnvel misheyrst”. Í fréttinni á Stöð tvö hallast Molaskrifari að því að um misheyrn hafi verið að ræða , en athugasemd var gerð við annað orðalag í þessar frétt í Molum gærdagsins ( 1109)
Af mbl.is (17.01.2013): Björgvin Gústavsson og samherjar hans í íslenska landsliðinu voru bara ferskir þegar mbl.is spjallaði við þá … getur einhver útlistað hvað þetta þýðir? Það var sem sé ekki farið að slá í þá, eða hvað?
Lesandi skrifaði (16.01.2013): ,,Af vef Umhverfisstofnunar um meinta sprengju í Eldey. Óskiljanlegur texti. Kanselístíll og svo þetta gullkorn. ” … áhrif á eyjuna og fuglalíf hennar ef hún springur.” Er eyjan að springa?“ Ljóst er að ef um sprengju er að ræða getur það haft mjög neikvæð áhrif á eyjuna og fuglalíf hennar ef hún springur. Leitað verður allra leiða til að koma í veg fyrir skaða.” Einfaldast væri að segja:”Sprenging myndi valda skaða í eynni, s.s. á fuglalífi. Því verður gripið til varna vegna meintrar sprengju.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Á mánudagsmorgni (14.01.2013) var sagt í morgunútvarpi Rásar tvö að Alþingi yrði sett síðar um daginn. Það var rangt. Fundir Alþingis voru að hefjast að nýju eftir jólahlé. Þetta var leiðrétt síðar. Á miðvikudagsmorgni (16.01.2013)var sagt í sama morgunþætti að klukkan í Bretlandi væri klukkutíma á undan okkar klukku. Það er rangt. Sami vetrartími er á Íslandi og í Bretlandi. Ef við eigum að geta treyst Ríkisútvarpinu verða smáatriðin líka að vera rétt. Svo er spurt: Einn umsjónarmanna þessa þáttar er oftar en ekki kallaður Doddi litli. Eiga umsjónarmenn þátta í Ríkisútvarpinu ekki að koma fram undir nafni? Hversvegna er hér notað dulnefni eða barnalegt gælunafn?
Af mbl.is (16.01.2013): Að minnsta kosti 14 manns biðu bana er íbúðarblokk hrundi í hafnarborginni Alexandrina í Egyptalandi í dag , … Þegar síðast var vitað hét borgin Alexandría. Dronning Alexandrine var hinsvegar frægt skip í eigu Sameinaða gufuskipafélagsins (DFDS) sem sigldi milli Íslands og Danmerkur, oftast með viðkomu í Færeyjum og Skotlandi, á árunum 1927 til 1965 þegar skipinu var lagt og það selt til niðurrifs. Ótal margir Íslendingar fóru sína fyrstu utanlandsferð með ,,Drottningunni”.
Um þessa setningu af af mbl.is (16.01.2013) má margt segja en seint verður svona skrifum hrósað: David Cameron forsætisráðherra Bretlands sagði á þingi í dag, að uppgötvun hrossakjöts í stað nautakjöts í hamborgurum, sem seldir hefðu verið í verslunum stórra verslunarkeðja, hefðu slegið sig afar þungt. Lesendum er látið eftir að dæma! Hestar geta verið slægir. Varla hrossakjöt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/01/2013 at 16:17 (UTC 0)
Nei, hreint ekki.
Eiður skrifar:
18/01/2013 at 16:16 (UTC 0)
Kærar þakkir,Eirný. Ekki bregst þeim bogalistin á mbl.is !
Eirný Vals skrifar:
18/01/2013 at 15:56 (UTC 0)
Sæll,
Annað hvort skrifa ég nokkrum sinnum sama dag eða læt alveg vera að minnast á það sem mér þykir athugavert.
Legg ekkert mat á frétt sem biritst á Morgunblaðin (borgarstjóri ætti þó að láta öðrum eftir að dæma hvort tilraunin er merkileg). Skrifin eru aftur á móti kostuleg.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/18/borgarstjori_flytur_timabundid_i_breidholt/
Skrifstofan verður staðsett og heldur fundi!
,,Þá mun borgarstjóri gera víðreist í öllum hverfum Breiðholts til að kynna sér starfsemi borgarinnar í þessu fjölmennasta hverfi borgarinnar.“ Var virkilega ekki hægt að koma orðunum borg og hverfi oftar fyrir í einni setningu?
Borgarstjóri hefur tekið vaktir í starfsemi sem er út um alla borg, jafnvel allt höfuðborgarsvæðið. Nú ætlar hann að prófa annað hverfi. Hvaða hverfi borgarinnar er fyrir utan vaktsvæði slökkviliðs og lögreglu?
Mínar bestu óskir um góða helgi,
Eirný
Eirný Vals skrifar:
18/01/2013 at 15:44 (UTC 0)
Sæll,
Í morgun voru fluttar fréttir af vörusvikum. Seldir eru hamborgarar, aðallega á Bretlandseyjum, þar sem lýsing innihalds er í ósamræmi við raunveruleikann. Í stað nautakjöts er kjöt af hrossum eða eins og þulur sagði, hakkað hestakjöt.
Ég efast lítið um færni þeirra er skrifa og flytja fréttir en staldraði við. Hakkað hestakjöt? Er það í samræmi við málvitund þína?
Kveðja,
Eirný
Eiður skrifar:
18/01/2013 at 13:58 (UTC 0)
Hann hefur svo kannski farið til Hveragerðar að skemmta þar !
bernharð haraldsson skrifar:
18/01/2013 at 11:20 (UTC 0)
Þekkt „poppgoð“ sagði eitt sinni á skemmtun í Sjallanum á Akureyri, að sér þætti gott að vera kominn til Akureyris!
Eiður skrifar:
18/01/2013 at 10:42 (UTC 0)
Takk fyrir, Hörður. Ekur ekki strætó líka örugglega til Selfossar?
Hörður Björgvinsson skrifar:
18/01/2013 at 09:45 (UTC 0)
Félagi minn vinnur í Reykjavík, en býr á Akranesi. Hann ferðast á milli með strætó. Í morgun (18. 1.) fékk hann eftirfarandi smáskilaboð í símann sinn:
Vegna veðurs mun leið 57 kl 7:43 fara aðeins til Akranesar en ekki Borgarnesar.
Ég hefði ekki trúað þessu nema vegna þess að ég sá það með eigin augum.
Þetta segir hroðalega sögu um skólakerfið og fyrirtækið.