«

»

Molar um málfar og miðla 1111

Undarlegt að ekki skuli meira af vönduðu innlendu menningarefni fá náð fyrir augum þeirra sem stýra dagskrá Ríkissjónvarpsins. Á fimmtudagskvöld (17.01.2013) var að loknum fréttum og Kastljósi, matreiðsluþáttur, en svo tók við hin englissaxneska fjöldaframleiðsla sem svo mjög ræður ríkjum í Efstaleitinu. Þrjár þáttaraðir, ein bresk, tvær amerískar. Slíkt efni á að vera með í dagskrá þessarar einu rásar Ríkissjónvarps, en hófs er hér ekki gætt.
Sú var tíðin að stjórnendur Ríkissjónvarpsins höfðu háleitari markmið. Í grein sem Benedikt Gröndal, lengi formaður útvarpsráðs og einn aðalhvatamaður að stofnun íslensks sjónvarps , skrifaði í Eimreiðina 1. tbl. 1971 segir hann: ,, Í upphafi var ekki búizt við að til mála kæmi að flytja mikið af íslenzkum leikritum. Þó hefur verið farið inn á þá braut að flytja eitt slíkt leikrit í mánuði hverjum, sum lítil, önnur mikil verk.” Þessari stefnu var fylgt bæði í tíð Jóns Þórarinssonar og Sveins Einarssonar dagskrárstjóra. Yfir vetrarmánuðina var íslenskt leikrit á dagskrá í sjónvarpinu einu sinni í mánuði. Hvað er langt síðan íslenskt leikrit hefur verið sýnt í Ríkissjónvarpinu? Dans, dans, dans og stússið í kringum Evróvísjón eru ær og kýr þeirra sem ráða dagskrá Ríkissjónvarpsins. Tugir, (kannski hundrað?) milljóna króna, af takmörkuðu dagskrárfé hafa farið og fara í þessar hítir. Þar virðist ekkert lát á. Þar þrýtur aldrei fé. En mín vegna hefði þetta fimmtudagskvöld mátt vera sjónvarpslaust, – eins og hér áður fyrr!

Inflúensan er á hraðri uppleið samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu. Þetta orðalag er úr frétt á mbl.is (17.01.2013). Þegar sagt er að eitthvað sé á uppleið er oftast verið að vísa til einhvers sem er jákvætt. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja til dæmis: Inflúensan breiðist hratt út.

Lesandi (Páll Sólmundur) bendir á þessa frétt á dv.is (17.01.2013): http://www.dv.is/lifsstill/2013/1/17/pallettur-odlast-nytt-hlutverk/
og segir: ,,Þessi frétt er mjög illa skrifuð. Pallettur og vörubretti eru sami hluturinn. Svo er þessi málsgrein alveg skelfileg :“Það er hægt að versla Pallettur fyrir lítin pening ef maður lumar ekki á einni eða tveimur í geymslunni sinni.”. Það er rétt. Þetta er hreinasta hörmung. Sá sem svona skrifar á ekki að hafa leyfi til lausagöngu á neinni ritstjórn.

Í fréttum Stöðvar tvö (16.01.2013) var tvívegis talað um að eiga fótum sínum fjör að launa. Molaskrifari er vanari því að heyra talað um að eiga fótum fjör að launa. Kannski er þetta orðalag álíka algengt. Hvað segja lesendur?

.. að engar fornminjar séu á því svæði sem borað verður, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (16.01.2013). Betra hefði verið að segja, – að engar fornminjar séu á svæðinu þar sem borað verður. Í sama fréttatíma var sagt: Samræmt einingakerfi verður komið upp í framhaldsskólum, – hefði átt að vera: Samræmdu einingakerfi verður komið upp ….

Í leiðara Morgunblaðsins (17.01.2013) segir: Samfylkingin lýsir samþykktinni sem dúsu upp í nefið á Steingrími J. í þakklætisskyni fyrir að hann skyldi reka Jón Bjarnason … Börn fengu áður fyrr dúsu í munninn, tusku með tuggnum mat til að sjúga næringu úr, þegar þau voru óvær. Eitthvað hefur skolast til hjá Moggaskrifara þegar talað er um að fá dúsu í nefið! Málfar í leiðurum Moggans er jafnan til fyrirmyndar, – hvað svo sem menn segja um efni og efnistök!

Molaskrifari naut stórkostlegra tónleika í Hörpu í gærkveldi (18.01.2013). Kom heim á ellefta tímanum. Notfærði sér nýja þjónustu í Sjónvarpi Símans og horfði þá á Útsvar. Fínt að geta horft við hentugleika á þætti í heilan sólarhring eftir að þeir voru fyrst sýndir. Takk fyrir það.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

3 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Dæmalaust.

  2. Sverrir Friðþjófsson skrifar:

    DV í dag – myndatexti : „Norskt gísl (t.h.) og tveir Bretar „

  3. Unnar Már SIgurbjörnsson skrifar:

    ,,Eitthvað hefur skolast til hjá Moggaskrifara þegar talað er um að fá dúsu í nefið!“ Var leiðarahöfundur ekki einfaldlega með hugann við neftóbaksdósina hans Steingríms J ? Án þess að ég viti hvort hann taki enn í nefið þá minnir mig að hann hafi sést þiggja ruddann í sölum þingsins.

  1. Ekkert sjónvarp betra en dagskrá Ríkissjónvarpsins, segir Eiður skrifar:

    […] Í pistli á heimasíðu sinni segir Eiður að undarlegt sé að ekki skuli vera meira af vönduðu innlendu menningarefni. „Dans, dans, dans og stússið í kringum Evróvísjón eru ær og kýr þeirra sem ráða dagskrá Ríkissjónvarpsins,” skrifar Eiður um innlenda dagskrárgerð. Eiður heldur því fram að sú hafi verið tíðin þegar stjórnendur Ríkissjónvarpsins höfðu háleitari markmið og vitnar meðal annars í grein sem Benedikt Gröndal, lengi formaður útvarpsráðs og einn aðalhvatamaður að stofnun íslensks sjónvarps , skrifaði í Eimreiðina 1. tbl. 1971: […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>