«

»

Molar um málfar og miðla 1112

Molavin benti á íþróttaskrif á visir.is: ,, Fyrirliði Liverpool, telur að liðinu vanti en fleiri heimsklassa leikmenn…“ segir í íþróttafrétt Vísis 20. jan. Það er grátlegt að svo stór netmiðill, sem birtir efni allra fjölmiðla 365-steypunnar notist við fréttafólk, sem kann hvorki réttritun né beygingar nafnorða. Liðið vantar enn fleiri… ætti vitaskuld að standa. Það þarf að stöðva lausagöngu fréttasauða.-
Satt segir Molavin að venju.

Molavinur sendi (17.01.2013) þessar ábendingar um málfar í fréttum dv.is : ,,Í frétt DV um heyrnarlausa tvíbura í Belgíu sem kusu að binda endi á líf sitt frekar en að verða blindir segir að þeir hafi verið menntaðir „skóviðgerðarmenn“. Kannski ekki beinlínis rangt en viðkomandi blaðamaður hefur greinilega ekki þurft á þjónustu skóara eða skósmiðs að halda.
http://www.dv.is/frettir/2013/1/16/tviburarnir-sem-voldu-ad-deyja/

Öllu verra er að lesa aðra frétt um ekki síður viðkvæmt mál, lögreglumann sem sakaður er um að hafa misnotað unga stúlku.
Þar stendur meðal annars: „Móðir einnar stúlkunnar sem segir hann hafa brotið gegn sér þegar hún var gestkomandi í sumarbústað, 9 ára gömul, telur rannsókn málsins hafa verið mjög ábótavant …“

Þessa setningu má skilja sem svo að maðurinn hafi brotið á móður stúlkunnar þegar hún var níu ára, en ekki stúlkunni. Stuttu síðar kemur þessi setning:

„Aðalvitni í máli stúlkunnar, sem í dag er 15 ára, voru þáverandi sambýliskona lögreglumannsins, vinahjón sem voru gestkomandi í sumarbústaðnum og stjúpdóttir kærða, sem var vinkona stúlkunnar.“

Þessa setningu má skilja sem svo að aðalvitnið sé í dag fimmtán ára. Í framhaldi þessarar setningar er svo ýmist vitnað til stjúpdóttur kærða og vinkonu stúlkunnar sem „stjúpdótturinnar“ og „vinkonunnar“, eins og um sitt hvora manneskjuna sé að ræða.
http://www.dv.is/frettir/2013/1/17/toludu-um-hver-yrdi-fyrri-til-ad-sofahjakonunni-sinni/ – “

Synd væri að segja í þessum tilvitnuðu fréttum dv.is væri vandað til verka.

Breyting til batnaðar. Aldrei þessu vant voru tvær bitastæðar myndir í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöldi (19.01.2013), – Vitnið með Harrison Ford var raunar vel það, þótt ekki sé hún ný af nálinni.

Íris Erlingsdóttir skrifar (17.01.2013): ,,Sæll Eiður – langaði að spyrja þig álits á hvort rétt/leyfilegt sé að,,tilvísa“ á þennan hátt í íslensku:
,,Augljóst er að mennirnir tíu – enginn hverra gekkst við ábyrgð – standa í þeirri trú…“
Þ.e. ,,enginn hverra“ í stað þess að nota ,,sem…allir neituðu að gangast við ábyrgð“ eða e-ð í þá áttina.” Molaskrifari þakkar bréfið. Miklu betra er að nota orðalagið sem Íris leggur til, – sem allir neituðu að gangast við ábyrgð. Hitt er bannsett klúður. Oft hafa Íslendingar sem búsettir eru erlendis, eins og Íris Erlingsdóttir, betri tilfinningu fyrir móðurmálinu en þeir sem starfa við fréttaskrif á fjölmiðlum.

Á laugardagskvöld (19.01.2013) flutti Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs áhrifaríkt ávarp til þjóðar sinnar vegna gíslatöku hryðjuverkamanna í Alsír. Það var flutt á tveimur rásum norska ríkissjónvarpsins. Ekki hvarflaði að Ríkissjónvarpinu að sýna okkur hluta, þó ekki væri nema fáeinar setningar, úr þessu ávarpi. Slakt.

Af mbl.is (19.01.2013): … þegar öryggissveitir Alsír hófu lokaárás á gasvinnsluna þar sem uppreisnarmennirnir hafa haldið fjölda gísla síðan á miðvikudag, þar á meðal 41 erlenda gísla. Hér er Molaskrifari á því að ekki sé rétt að orðið kveðið. Setningunni ætti að ljúka svona: …. þar á meðal 41 erlendum gísl.

Undarlega hástemmd lýsing íþróttafréttamanns Ríkissjónvarps á knattspyrnumanni (17.01.2013) … ástsælasti, lifandi goðsögn. Orðanotkun af þessu tagi er ávísun á gengisfellingu orðanna.

Hversvegna í ósköpunum segir hér-hikk-á rúv konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins okkur ekki frá því þegar myndir eru endursýndar eins og t.d. s.l. laugardagskvöld (19.01.2013)? Hafa stjórnendur Ríkissjónvarpsins svo vonda samvisku að þeir þurfi að fela sannleikann fyrir áhorfendum?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ja,hérna. Nú varð Molaskrifara heldur betur á í messunni! Þetta verður snarlega leiðrétt.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Hvað varð um þætti 1112-2011?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>