Molavin sendi þetta (19.01.2013): ,,Dularfullar blæðingar“ er fyrirsögn á frétt í Netmogga 18.1.2013. Þar segir m.a. ,,Þegar olíu blæðir úr slitlagi eða klæðingum hleðst hún á bíldekk smátt og smátt þar til hún getur breyst í köggla sem losna síðan af. Þetta gerist á þessari svokölluðu klæðingu, þ.e.a.s þessu hefðbundna bunda (svo) slitlagi sem við erum með úti á landi, þetta gerist ekki í malbiki…“ Þetta er sérkennilegt orðalag. Rennur blóð úr olíunni, eða lekur olía úr vegarklæðningunni? (Ekki ,,klæðingu” eins og ítrekað er skrifað í fréttinni). Kannski er þetta vegagerðarmálfar, en mætti maður þá biðja um útskýringar fyrir almenning. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Af mbl.is (18.01.2013): Tilkynnt var rétt fyrir hálf tvö um vinnupalla sem væru að losna við fjölbýlishús í Breiðholti. Verktaki var kallaður á vettvang til að tryggja pallana. Rak verktakinn tryggingafélag? Var hann ekki kallaður á staðinn til þess að festa pallana? Líklega er hér um enska hugsun að ræða , en enska sögnin to secure getur þýtt að festa og að tryggja.
Í Molum 1110 var minnst á frétt Stöðvar tvö af gíslatökunni í Alsír þar sem fréttamaður talaði um olíufélagið Bípí! (BP, British Petroleuum) Athugull hlustandi hefur bent Molaskrifari á að sami fréttamaður sagði í sömu frétt: … á meðal þeirra sem handteknir voru í gíslingu. Mennirnir voru teknir í gíslingu, – ekki handteknir í gíslingu. Sá sem þetta sagði þarf að lesa upp og læra betur.
Það var kurteisi hjá forráðamönnum Orkubús Vestfjarða og fréttnæmt að þeir skyldu biðja viðskiptavini afsökunar á rafmagnsleysinu í áhlaupinu um daginn. Þessi kurteisi stóð hinsvegar ekki undir því að vera fyrsta frétt í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum eins og var í Ríkisútvarpinu (19.01.2013). Það hefur ekki verið mikið um að vera á þeirri fréttavakt.
Í undirfyrirsögn í Fréttablaðinu (19.01.2013) segir: Ein vinsælasta dagmamma landsins … Það fylgir ekki á hvaða rannsóknum eða könnunum þessi fullyrðing byggist. Þessvegna er þetta út í hött. Fram kemur einnig að sá sem skrifar greinina sem fyrirsögnin er við þekkir ekki muninn á sögnunum að týnast og að villast. Það er nokkuð algengt nú orðið.
Úr fréttum og af vef Ríkisútvarpsins sama dag. Í fjögur fréttum var sagt: Alsírski herinn var búinn að umkringja stöðina síðan á fimmtudag. Á vef Ríkisútvarpsins var sagt: Alsírski herinn var búinn að vera með stöðina umkringda frá því á fimmtudag. Hvorugt er gott. betra hefði verið: Alsírski herinn umkringdi stöðina á fimmtudag. Stöðin var búin að vera í herkví alsírska hersins síðan á fimmtudag.
Beygingafælni eða vankunnátta á mbl.is (19.01.2013): William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í dag að fimm Bretar hefðu fallið eða væri saknað, en mikill meirihluti þeirra Breta sem starfað hefðu á gasvinnslusvæðinu hefði verið bjargað. … miklum meirihluta þeirra Breta sem starfað hefðu á gasvinnslusvæðinu hefði verið bjargað.
Fyrir nokkrum dögum var hér í Molum vikið að því fræga skipi ,,Dronning Alexandrine” sem lengi sigldi millin Danmerkur og Íslands. Af því tilefni sendi Ólafur Egilsson Molum þessa skemmtilegu upprifjun: ,, Við frásögnina af því ágæta skipi „Dronning Alexandrine“ í Molum fyrir fáeinum dögum má e.t.v. bæta, að skipið hét nafni síðustu drottningar Íslands, Alexandrínu, eiginkonu Kristjáns 10. Ekki er víst að allir muni þetta lengur. Hún sjálf kom ekki eins oft til landsins og skipið, en engu að síður nokkrum sinnum og var vel látin.
Þegar danska útvarpið flutti fréttina um andlát Alexandrine í árslok 1952 (28. desember) kom við sögu önnur kona tengd Íslandi, Else Brems, sem gift var Stefáni Íslandi óperusöngvara. Hún var ein dáðasta söngkona Danmerkur og til að búa Dani undir hin dapurlegu tíðindi var á undan andlátsfréttinni flutt einkar hugljúft og milt lag danska tónskáldsins A.P. Berggreen: “ Her vil ties, her vil bies…“ sungið af Else. – Lagið, reyndar ekki sungið af henni, má heyra m.a. hér: http://www.youtube.com/watch?v=kUN1faXggRA “ Skrifari kann Ólafi bestu þakkir fyrir sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
23/01/2013 at 08:50 (UTC 0)
Þakka þér, Gunnar. Þakkirnar á líka Ólafur Egilsson fyrir pistilinn um drottninguna.
Gunnar Waage skrifar:
23/01/2013 at 08:19 (UTC 0)
Takk fyrir fínan pistil Eiður, að vanda. Einstaklega skemmtileg ágrip um Dronning Alexandrine og Else Brems.