«

»

Molar um málfar og miðla 1114

Hlustendakannanir Ríkisútvarpsins hljóta að hafa leitt í ljós að þúsundir íslenskra barna sitji við viðtækin á milli klukkan hálf átta og átta á sunnudagsmorgnum. Þá er á dagskrá þátturinn Leynifélagið, fyrir alla krakka, eins og það er orðað í kynningu á þættinum. Þátturinn væri vart endurtekinn á þessum tíma nema því aðeins að dagskrárstjórar viti um stóran hóp hlustenda. Í þættinum ætti að gæta þess að vanda málfar fyrir unga hlustendur og segja ekki spá fyrir endalokunum (20.01.2013). Heldur til dæmis; spá hver endalokin verði.

Af mbl.is (22.01.2013): Um var að ræða 27 tonn af svokölluðum brunost sem er karamelluostur. Í Ríkisútvarpinu var talað um brúnost. Þetta var osturinn sem við köllum mysuost. Það segir wikipedia að minnsta kosti: http://en.wikipedia.org/wiki/Brunost

Hér birtist enn eitt dæmi um beygingafælni eða vankunnáttu fréttaskrifara. Af mbl.is (20.01.2013): „Ég get staðfest að sjómaður, sem er búinn að vera á fleka í Suðurhöfum síðustu þrjá daga, hefur verið bjargað um borð í skemmtiferðaskipið Orion. …” Hér segir: … sjómaður … hefur verið bjargað. Á að vera: … sjómanni … hefur verið bjargað…

Undarleg frétt á mbl.is sl. laugardag (19.01.2013) http://www.mbl.is/folk/frettir/2013/01/19/med_vitlaust_laufblad_a_peningasedlinum/ Aftur og aftur er talað um hlyn sem blóm! Hlynur er tré. Eðaltré. Þetta var leiðrétt seinna. Fréttabarnið sem skrifaði upprunalegu fréttina hefur ekki verið eitt á vaktinni.

Í fréttum Stöðvar tvö var (20.01.2013) sagt um landsfund Samfylkingar: Þar verður kosið um varaformann flokksins. Molaskrifari hefði sagt: Þar verður kosinn varaformaður flokksins.

Af mbl.is (21.01.2013): Það er siður í Klakksvík að senda flöskuskeyti á sjómannadaginn og fleiri hundrað flöskuskeytum var sleppt í sjóinn þennan dag og eitt fór sumsé alla leið til Íslands. Nú hefur eitt af fréttabörnum mbl.is verið á vaktinni: … fleiri hundrað flöskuskeytum var sleppt í sjóinn … Mörg hundruð flöskuskeytum var kastað í sjóinn, hefði verið skárra.

Þegar Telma Tómasdóttir fréttaþulur Stöðvar tvö skipar mér fyrir verkum og segir mér að fara ekki langt því íþróttafréttir séu að byrja, slekk ég ævinlega á Stöð tvö. Þeim á Stöð tvö kemur ekkert við hvort ég er eða fer.

Ég ætla að soga í mig the spirit of Breiðholt, sagði Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík við hlustendur í fréttum Ríkisútvarpsins (21.01.2013). Hversvegna talar borgarstjórinn ekki við okkur á íslensku? Svo hoppaði hann út í sundlaug í öllum fötunum. Erum við ekki að kvarta yfir því að erlendir ferðamenn fari ekki í sturtu áður en þeir gangi til laugar? Hversvegna er verið að segja fólki að fara í sturtu, þegar borgarstjórinn hoppar í laugina í öllum fötum og kannski líka á skítugum skónum? Ja, hérna.

Ríkissjónvarpið auglýsir generalprufu í sambandi við eitthvað sem kallað er Söngvakeppnin 2013, – sú keppni snýst víst ekki um sígilda tónlist, heldur er þetta hluti af poppdýrkun sjónvarpsins. Hversvegna generalprufa? Hversvegna ekki lokaæfing eins og segir í Morgunblaðinu? En Morgunblaðið er náttúrulega ekki með málfarsráðunaut.

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (21.01.2013): Þrennar hraðbrautir hafa lokast vegna ófærðar og mikil seinkun er á lestarferðum. Hér hefði átt að standa: Þrjár hraðbrautir hafa lokast …

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Jú , félagi, allt eins má orða það þannig.

  2. Bjarni Felixson skrifar:

    Í molum nr. 1114 stendur:
    Ég get staðfest að sjómaður, sem er búinn að vera á fleka í Suðurhöfum síðustu þrjá daga, hefur verið bjargað um borð í skemmtiferðaskipið Orion. …” Hér segir: … sjómaður … hefur verið bjargað. Á að vera: … sjómanni … hefur verið bjargað…

    Á það ekki að vera, að sjómanninum hafi verið bjargað.
    Það má reyna að bjarga viðtengingarhættinum í íslensku máli.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    Þetta með flekann. Á ensku heitir þetta -raft- en á íslensku -björgunarbátur-. Fleki er allt annað en sá björgunarbúnaður sem notaður er á litlum seglskútum nú til dags.
    En kannski var þýðandinn betri í ensku en móðurmálinu?

  4. Gunnar skrifar:

    Ég hefði frekar haft það: „Þar verður varaformaður flokksins kosinn“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>