«

»

Molar um málfar IL

Nokkuð algengt er að heyra orðalag eins og  lesið var í hádegisfréttum RÚV (09.08): ,,Forysta Sjálfstæðisflokksins  segist ekki hafa verið kunnugt um…“  Betra hefði  verið að  segja: ,,Forystumenn Sjálfstæðisflokksins  segja,  að þeim hafi ekki verið kunnugt um…“

Á vefdv  gengur laus  skriffinnur sem  gerir   engan mun á  forsetningunum af og  að. Hann skrifar (12.04):,,Leit af henni er því lokið.“ Þetta er ekki  einsdæmi, heldur gerist  þetta aftur og  aftur. Menn leita að einhverju,  en svo  er hægt  að líta af einhverju og á eitthvað  annað.

Á vefdv var skrifað: ,,…segjast hafa aflað styrkjanna,sem  Sjálfstæðisflokknum var veitt.“ Málfarsklúður  ofan á  annað klúður,svo ekki sé  meira  sagt. Oft hafa hér  verið  gerðar  athugasemdir við  auglýsingu  sparisjóðsins  Byrs  um það sem  sparisjóðurinn kallar  ,,fjárhagslega heilsu“.  Sé eitthvað að marka fréttir  undanfarinna daga  eru  sumir  stjórnendur  sparisjóðsins líklega   við talsvert betri ,,fjárhagslega heilsu“ en  flestir  stofnfjáreigendur og  viðskiptavinir sjóðsins. Sparisjóðurinn Byr  ætti að  sjá  sóma sinn í því að hætta að  bulla   í auglýsingum um  það sem þeir kalla ,,fjárhagslega heilsu“.

Hvað eiga  þau sameiginlegt frjálshyggjufrelsari Sjálfstæðisflokksins Hannes Hólmsteinn Gissurarson og  öfgafemínistinn, ritari VG  Sóley Tómasdóttir?  Bæði  eru  stóryrt á blogginu og hvorugt leyfir lesendum að gera athugasemdir  við það sem þau skrifa. Það er  raunar sameiginlegt mörgum  stjórnmálamönnum að leyfa   ekki athugasemdir á  bloggsíðum  sínum. Kjósa  heldur    einræður.  Athugasemdir,lesenda, kjósenda eru hvort sem er ekki merkilegar,  eða hvað ?

 Á bloggsíðu las ég (09.04): ,,Enginn getur tæplega sætt sig við annað en  þingmenn með hreint borð“. Það er  sæmilega ljóst hvað átt er  við, – þingmenn verði  að hafa hreint  borð,- í þeim skilningi  að þeir hafi ekkert að fela   til  dæmis í fjármálum. En ekki verður  sagt  að þetta sé  skýrt fram sett. Þessi bloggari er einn þeirra,sem leyfir lesendum  ekki að  tjá sig um  það sem  hún skrifar.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. HVG skrifar:

    Takk fyrir þína þörfu pistla.

    Vildi vekja athygli á döpru málfari veðurfréttamanna í sjónvarpi. Þetta eru Einar á RUV og Soffía á Stöð 2. Þrátt fyrir að þau séu engir nýgræðingar þá finnst mér átakanlegt að hlusta á þau. Óskýr framsetning og einhæft málfar er áberandi.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar  þakkir fyrir ábendinguna, Benedikt. Ég var ekki viss um hvernig  rétt væri að  skrifa  49  í  rómverskum tölum  svo ég notaði breytisíðu á netinu Javascript Roman Numerals Convertor V2. Nú  sé  ég að    þessi  síða  er líklega  sú eina sem  gefur  IL, – nota hana ekki  aftur. Það er úr  mörgum  síðum að velja.   K kv   Eiður

  3. Benedikt skrifar:

    Um leið og ég þakka enn og aftur fyrir afar skemmtilega pistla, langar mig að benda þér á eina smávillu í þessari færslu.  Í rómverskum tölum er 49 almennt táknað sem XLIX, en IL þykir verra „málfar“.

    Í framhaldi af síðustu færslu þar sem þú fjallaðir um það gagn sem má hafa af vel skrifuðum texta, langar mig að benda á ferðabækur Kjartans Ólafssonar, sem skrifaðar eru á sérlega „skemmtilegri íslensku“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>