Á Páskadag var frumfluttur sálmur í þýðingu doktors Sigurbjörns Einarssonar biskups (ekki doktor Sigurbjarnar eins og sagt var í RÚV). Sálmurinn hefst á orðunum ,,Nú máttu´ ekki, María gráta“. Í vefmogga var úrfellingarmerkið birt eins og rétt er. Á heimasíðu RÚV var heiti sálmsins þannig ritað:, Nú máttu ekki María Gráta“ Allir þar á bæ sem tóku sér heiti sálmsins í munn lásu skýrt ,,máttu„, en ekki -,,Nú mátt ekki , María gráta“, eins og rétt hefði verið lesið. Ég er ekki vel að mér um kirkjutónlist, en einkennilegt fannst mér að höfundar sálmalagsins var hvergi getið. Kannski er það eitthvað sem allir eiga að vita, en ég veit ekki.
Of sjaldan sér maður vel að orði komist í fjölmiðlum. Á Vefdv var sagt (11.04) :,, … að þeir sæti ábyrgð,sem um véluðu“. Þetta er prýðilega að orði komist. Ekki verður sama sagt um fyrirsögn í Vefmogga (12.04),,Umferðarslys og fíkniefnaakstrar“. Orðið ,,akstrar“ hef ég aldrei séð áður. Í sömu frétt er talað um að ,,bíll hafi klesst á ljósastaur“. Það er hárrétt sem Haraldur Bjarnason segir í athugasemd við fréttina, – þetta er leikskólamál.
Málblómin blómstra sem fyrr í íþróttafréttum: ,, Káerringar voru með bakið upp við vegg eftir tapleik liðsins….“ sagði íþróttafréttamaður RÚV í sjónvarpsfréttum (11.04). Þetta er ekki íslenska. Ég hefði skilið ef hann hefði sagt að eftir tapið hefðu þeir farið með veggjum. Verð að viðurkenna að mér ekki alveg ljóst hvað er verið að reyna að segja okkur hlustendum með þessu einkennilega orðalagi.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Bjarni Sigtryggsson skrifar:
17/04/2009 at 10:06 (UTC 0)
Það sést æ oftar að fyrsta kynslóð leikskólanema hefur tekið við starfi á fjölmiðlum. DV fjallar í dag um frambjóðanda, sem hefur tvívegis „klesst“ bíl, sem fyrri vinnuveitandi hans hefur lagt honum til. Í annað skiptið, amk. var hann svo illa klesstur að „tjón hlaust af.“ Og af því hlýst fyrirsögnin: Sigmundur tjónaði tvo bíla.
Leikskólamálið hefur fyrir löngu haldið innreið sína í fréttir. Oftar en einu sinni hef ég sé frétt um útflutning á „nammi„, þar sem væntanlega er átt við sælgæti. Í frétt var líka sagt frá því að maður hafi „dinglað bjöllunni“ en ekki hringt henni. Ég bíð eftir því að fundi verði frestað vegna drekkutíma.
Eiður skrifar:
14/04/2009 at 20:35 (UTC 0)
Þetta eru þarfar ábendingar,Jón. Auglýsingastofur, margar hverjar, eru ótrúlega kærulausar þegar íslensk tunga á í hlut. Jafnvitlaust finnst mér að sleppa stórum stöfum eins og algengt er orðið að sjá.
Jón Óskarsson skrifar:
14/04/2009 at 18:38 (UTC 0)
Þakka pistlana um málfarið.
Annað sem mér finnst vert að benda á en það er reglan um stóran og lítinn staf.
Á vef ríkisútvarpsins er heiti sálmsins ritað svona: Nú máttu ekki María Gráta.
Þarna hefur heilög María fengið ættarnafnið Gráta.
Þessi venja er að ég tel komin frá auglýsingastofunum en þar starfa textagerðarfólk sem hefur takmarkaða málvitund nema þá helst fyrir enskunni. Þetta er víst algengt í enskum auglýsingum en nýkomið hér til þess að gera.
Einnig sést að fyrirtæki sem hafa tvö orð í heiti eru bæði orðin skrifuð með stórum staf. Dæmi: Siggi Smiður Ehf þar sem ritvenja er Siggi smiður ehf. Sú stofnun sem annast skráningu fyrirtækja ætti að hafa einhvern með málkunnáttu til að laga svona villur.
Og svo þetta: Tölvur á Góðu Verði þar sem eðlilegra væri að skrifa Tölvur á góðu verði.
Hér er ábyrgð auglýsingastofa og fjölmiðlamanna mikil.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
14/04/2009 at 15:58 (UTC 0)
Þakka þér athugasemdina ,,Gæsapabbi“ . Rétt er það að ég á í vandræðum með gæsalappirnar. Þetta væri ekki vandamál ef ég væri með nýjustu Word útgáfuna er mér sagt. Það gengur ágætlega að fá upphafs gæsalappirnar með alt0132 en þegar ég skrifa þær seinni með sömu aðferð alt0147 þá hverfur allur textinn, – allt sem ég hef skrifað í þá færslu fer forgörðum. Þannig er nú það, þessvegan hef ég ýmist notað tvær kommur í upphafi eða alt0132 og ´til að fá fram efri gæsalaðppirnar shift 2
Kær kveðja Eiður
Gæsapabbi skrifar:
14/04/2009 at 14:26 (UTC 0)
Heill og sæll Eiður
Takk fyrir málfarseljuna. Ekki veitir af að benda á það sem betur má fara í málnotkun Íslendinga.
Ég tek eftir því að þú skrifar fremri gæsalappir sem tvær kommur og seinni gæsalappir með táknunum sem er að finna á lyklaborðinu. Kannski er þér ekki kunnugt um að miklu fallegri gæsalappir má finna með því að halda ALT lyklinum niðri og velja fjórar tölur á talnaborðinu hægra megin. Fremri gæsalöppin fæst með því að velja ALT+0132 og sú síðari með því að velja ALT+0147 – semsagt og
Sigurður Þór Guðjónsson skrifar:
14/04/2009 at 00:37 (UTC 0)
Ég hnaut einmitt um þetta sama að lagsins var að engu getið. Og þess er ekki einu sinni getið á vef Þjóðkirkjunnar. Það er eins og menn átti sig ekki á því að sálmur eru ekki bara ljóð heldur líka lag. Mér finnst ég kannast við lagið en það gæti verið misskilningur.