Sumir segja að gera eigi minni kröfur um málfar á bloggsíðum en á öðrum opinberum vettvangi. Þessu er Molahöfundur ósammála. Bloggarar eiga að vanda málfar sitt. Gott málfar hefur góð áhrif á þá sem lesa. Á sama hátt smitar vont málfar út frá sér eins og hver önnur pest. Í morgun (13.04.) las ég eftirfarandi á bloggi konu úr Vestmannaeyjum. Hún var að gera athugasemd við frétt um skemmtanahald á Suðurlandi þar sem Vestmannaeyjar voru nefndar. Konan skrifaði: ,,Hvað er verið að bendla Eyjunum við þetta?“ Auðvitað hefði þarna átt að standa:,,Hvað er verið að bendla Eyjarnar við þetta?“. Annars var tekið ágætlega til orða í umræddri frétt í Vefmogga , þegar sagt var að skemmtanahald á Suðurlandi hefði gengið skammlaust fyrir sig.
Orðalagið að vera ,,með bakið upp við vegg“ er í tísku í íþróttaheiminum um þessar mundir. Þessi ambaga var endurtekin í RÚV í morgun(14.04.). Þar var líka talað um tryllingsleg fagnaðarlæti að loknum leik. Ekki er það orðalag mér að skapi.
Í fréttum RÚV (14.04) var talað um slys í Perú þar sem hengibrú hefði ,,slitnað í tvennt“ með hörmulegum afleiðingum. Þetta fannst mér andkannalegt orðalag.Vel er hugsanlegt að brúin hafi verið úr reipum eða tágum, sem hafi slitnað, en ekki þurfti að segja að hún hefði slitnað í tvennt. Til dæmis hefði mátt segja að brúin hefði brostið eða brotnað.
Umsjónarmönnum tónlistarþátta í RÚV gengur illa að fallbeygja nöfn flytjenda. Í morgun (14.04) var sagt:,, Nú heyrum við lag með hljómsveitinni Spaðar“. – Lag með hljómsveitinni Spöðum hefði kynnir betur sagt. Eða hljómsveitin Spaðar leikur næsta lag. Varla hefði verið sagt: Næst heyrum við lag með Guðmundur Jónsson.
Það var óheppilegt orðalag, vægt til orða tekið, þegar annar stjórnandi kosningaþáttarins á RÚV (14.04) talaði um að „fara í slorið“ og átti þar við sjósókn og fiskvinnslu. Það var eins og þetta væri eitthvað sérstaklega sóðalegt og ógeðfellt. Trúi því illa að þannig hafi það verið meint.
Ösköp var annars hallærislegt að hlusta á umsjónarmenn morgunútvarps Rásar tvö gera grín að færeyska orðinu æl eða æli (14.04). Heyrði þetta fyrir tilviljun. Hlusta annars ekki á Rás tvö á morgnana því sjálfumgleði , fliss og aulafyndni umsjónarmanna , – eins og þetta með færeyskuna höfðar ekki til mín. Allt annað að hlusta á Rás eitt snemma á morgnana.
Erum við komin af öpum ? Svo er spurt í fyrirsögn í Mogga (14.04). Þetta minnir á gamla sögu um að vissulega sé mannkynið komið af öpum. Nema Íslendingar. Þeir séu komnir af Norðmönnum. Það er auðvitað sjálfsagt að bæta því við, að Norðmönnum finnst þetta ekki vitund fyndið !
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eygló skrifar:
16/04/2009 at 01:24 (UTC 0)
ASK Takk, þetta var betra en góður brandari. Legg sérstaka áherslu á: „Hjartatónar fjólu fléttast saman við topptóna villtra jarðarberja og moskus- og vanillu-grunntón“
Það hefur reyndar verið stungið uppá því við mig að ég fengi mér vinnu sem hasshundur (mjaðmirnar leyfa bara ekki mikið klifur upp ferðatöskustafla). Frá því sjónarhorni skil ég að ilmur er ekki bara ilmur… jafnvel þótt hann sé „næstum“ eins.
En öll þessi ósköp í kringum ilm og vín (og örugglega fleira? veiðiflugur?) eru í mínum huga, ein tegund/útgáfa af Nýju fötum keisarans
Eiður skrifar:
15/04/2009 at 21:46 (UTC 0)
Hjartanlega sammála þessu með víndómana. Mér hefur alltaf fundist þetta argasta bull og verið væri að hafa lesendur að fíflum. Það er flestum auðvelt að átta sig á því hvað þeim finnst gott og hvað vont.Það er verið að gera einfalda hluti flókna. Þetta með ilmvötnin er auðvitað sama ruglið. Þakka þér fyrir að vekja athygli á þessu.
K kv Eiður
ask skrifar:
15/04/2009 at 20:53 (UTC 0)
Í byrjun árs las ég grein eftir sérfræðing í rauðvínum. Eftir stutta stund var mér ljóst að sérfræðingurinn hafði mun öflugri bragðlauka en ég. Í fyrsta sopa fann hann bragð af gúmmíi, mold, hnetum og rúsínum! Mér varð fljótlega ljóst að rauðvínsdrykkja er list og kassavínið mitt er ómerkilegt. Gallinn er bara sá að ég kann ágætlega við bragðið af því. Þegar ég fletti dagblaði í byrjun apríl datt mér í hug hvort þessi sami sérfræðingur væri nú farinn að skrifa um ilmefni, en taktarnir voru svipaðir. Þessi grein er svo sannarlega þyngdar sinnar virði í sérhjóðum. Femme l´eau fraiche er létt útgáfa af hinum vinsæla Femmeilmi frá Boss. Ilmurinn er bæði kvenlegur og fíngerður með frísklegum keim með mildum hjartatónum hvítra blóma. Topptónninn er hrífandi, ávaxtakennd blanda tangerínu og sólberja, en grunntónninn mynda kremkenndir tónar viðar og rafs. Femme l´eau fraiche er kjörinn ilmur fyrir hin ýmsu tækifæri og veitir áreynslulausan þokka á komandi sumardögum Um annan ilm segir: Hjartatónar fjólu fléttast saman við topptóna villtra jarðarberja og moskus- og vanillu-grunntón. Um Ocean Lounge segir: … samanstendur af ríkulegum topptónum frískandi sumaraldina, miðtónar minna á blóm og grunntónarnir eru frá rafi, tonkabaunum, vanillu og tekki. Ég velti því fyrir mér hvort fólk taki mark á svona texta sem ég flokka raunar undir bull. Einstaklingar sem geta greint tonkabaunir og tekk í ilmvatni ættu að fá vinnu hjá tollinum á Keflavíkurvelli sem hasshundar eða gefa sig fram við næstu hjálparsveit skáta. Ég dreg mjög í efa að samsuða af þessu tagi hafi jákvæð áhrif á sölu. Svo mikið er víst að ef ég á eftir að kaupa ilmvatn handa dóttur minni eða eiginkonu mun ég forðast ilmvatn með kremkenndum tónum viðar og rafs! Kv. Ask.
doddý skrifar:
15/04/2009 at 20:26 (UTC 0)
til gamans ætla ég að rifja upp ömurlega fyrirsögn í DV fyrir nokkrum árum. á heilsíðu var mynd af ungum manni sem átti framtíðina fyrir sér. í fyrirsögninni var haft eftir manninum „ég er jákvæður á bjartsýnt svar“.
þetta er ekki grín og þessi viðsnúningur var svona í alvörunni. ég hef ekki, fyrr né síðar, séð annað eins bull í rituðu máli. stuttu síðar var talað við fótboltakarl í sjónvarpi. hann sagði „blaðamannafundur verður klukkan átjánhundruð.
svona er ömurlegt. kv d
Eiður skrifar:
15/04/2009 at 15:34 (UTC 0)
Lana Kolbrún Eddudóttir skrifar:
15/04/2009 at 14:53 (UTC 0)
Sæll Eiður. Viltu vera svo vænn að setja okkur umsjónarmenn tónlistarþátta á RÚV ekki öll undir sama hatt, með því að væna okkur um að kunna ekki að fallbeygja íslensku. Mér finnst afar líklegt að þú sért bara að tala um einn ákveðinn dagskrárgerðarmann og því þá ekki frekar að nafngreina hann en að gera lítið úr okkur hinum, að ósekju ?
Haraldur Bjarnason skrifar:
15/04/2009 at 08:48 (UTC 0)
„Hann er að spila góða vörn,“ heyrum við íþróttafréttamenn segja og ég tek undir með þér um sagnirnar Maíja. Sérstaklega eru íþróttafréttamenn slæmir með þetta. Mér finnst að menn, sem eru ágætlega máli farnir, detti niður á þetta lélega málfar um leið og þeir fara að fjalla um íþróttir. Eiður. Ég fann í fórum mínum fjölrituð blöð um málfar í útvarpi frá 1987, sem Árni Bö. lét mig hafa þegar ég byrjaði að vinna hjá RÚV 1988. Var að glugga í þetta og nánast allt sem þar er skrifað væri holl lesning fyrir þá sem starfa á fjölmiðlum í dag. Enn er verið að segja sömu vileysurnar og Árni varaði við fyrir rúmum 20 árum.
Eygló skrifar:
15/04/2009 at 03:01 (UTC 0)
Nú finnst mér ég hafa fundið bróður í (nei, ekki í Drottni) ylhýra. Þegar ég byrjaði að blogga, fyrir rúmu ári, ætlaði ég einungis að skrifa um mitt hjartans mál, – íslenskt mál.
Ég er nefnilega komin með alvarlega líkamlega kvilla af því að hlusta á útvarp og sjónvarp. Það sama á við um texta í sjónvarpi og prentmiðlunum. Ég kippist við og dreg svo axlirnar upp að eyrum : ) – oft á dag.
Á hverjum degi heyrir maður að margt (flest?) fólk er farið að sleppa eignarfalli („vegna lagningu vegarins“ – „vatnsaflvirkjanir“ „til þinglýsingu“. Annað virðist líka útdautt; viðtengingarháttur („ég held að þetta er það besta) Já, ég hef margoft heyrt þáttastjórnendur og viðmælendur nota málið svona. Hefur fólk aldrei heyrt talað mál eða lesið, þ.e. „réttara“ mál.
Það sem gengur þó endanlega frá mér er að fólk kann núorðið ekki að beygja neina (ýkjur) sögn, nema „að vera“ . Þannig „mál“ heyrði ég fyrst árið 2000: „Ég er ekki að skilja þetta“ „Við vorum ekkert að græða í fyrra“ „Þau voru ekkert að kaupa það að hanni ætlaði að…“
Meira síðar