«

»

Molar um málfar LII

Tvö eru þau orð,sem margir fjölmiðlamenn hafa sérstakt dálæti á. Þar hef ég í huga orðin áhafnarmeðlimur og aðili. Þegar verið er að ræða um skipverja er oftast talað um áhafnarmeðlimi, en það orð er óttalegur óskapnaður. Þegar Geysir fórst á Vatnajökli tókst svo giftusamlega til að öll áhöfnin bjargaðist. Tveir skipverjar úr áhöfn togarans Jökuls urðu strandaglópar á Mjóafirði. Karl og kona voru handtekin á Keflavíkurflugvelli og reyndust hafa fíkniefni innvortis. Þetta par, karlinn og konan voru í næstum öllum fréttum nefnd „tveir aðilar“. Hallast að því að þetta sé einhverskonar skýrslumál yfirvalda,sem berst í fréttirnar. Kansellístíll samtímans.

„Þegar menn hafa orðið fótaskortur á þingsvellinu“, skrifar bloggari(14.04.). Réttara hefði verið að segja: „Þegar mönnum hefur orðið fótaskortur á þingsvellinu“. Annars sýnist mér að hér sé verið að blanda saman tveimur orðatiltækjum: Að verða fótaskortur , að hnjóta um eitthvað oft í óeiginlegri að verða á mistök og orðatiltækinu að verða hált á svellinu, að lenda í ógöngum eða erfiðleikum.

  Það er subbuskapur  að  fara rangt með tölur í fréttum og leiðrétta ekki. Sagt var í kvöldfréttum RÚV(14.04,)  að metaðsókn hefði  verið að  skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli á  skírdag, – þangað hefðu komið þrjú hundruð manns. Í  viðtali sem  fylgdi  fréttinni kom fram að gestafjöldinn í  fjallinu var þrjú þúsund manns, ekki þrjú hundruð. Ranghermið í inngangi var ekki leiðrétt. Það er óvirðing   við hlustendur. Þetta var líka dæmi um það,  að þulur  les án þess að heyra hvað hann les  og  án þess  að  beina huganum  að því sem lesið er. Auðvitað lá það í augum uppi, að  þrjú hundruð  gestir í Hlíðarfjalli um  páska var engin metaðsókn.

Vandaðir  fjölmiðlar leiðrétta, þegar rangt er  farið með. Það er engin minnkun að því.

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Árni Gunnarsson skrifar:

    Ein grátbroslegasta myndin af aðilabjálfunum er nú þegar aðilar ganga í hjónaband og þegar aðili deyr. Að þvílíkum fréttum hef ég oft orðið vitni.

    Svo er ég orðinn hundleiður á öllu þessu háttalagi gáfumannasamfélagsins. Enginn getur lengur gert neitt þannig eða með þessu móti eða hinu. Allir gera eða segja allt með þessum hætti eða hinum. Pólitíkus er ekki lengur undrandi á manninum yfir því að hann segi þetta eða hitt. Nei, hann er agndofa yfir því að maðurinn skuli leyfa sér að tala með þessum hætti.

  2. Eiður skrifar:

      Þetta er örugglega  rétt  tilgáta, Jón. Íslensk hugsun er þetta  ekki.

  3. Jón Óskarsson skrifar:

    Orðalagið  að vera ,,með bakið upp við vegg“ sem þú nefndir í pistli þínum í gær bendir til að þeir sem skrifa fréttir hugsi á ensku og rembist svo við að þýða yfir á móðurmálið.

    Til er í enskunni orðtakið “ to be with the back against the wall“ merkir að vera í vondum málum eða í þröngri stöðu.

    Þetta er ekki eina dæmið um að íslenskir fréttamenn virðast hugsa á ensku áður en þeir skila hugsunum sínum frá sér á vondri Íslensku.

  4. Eiður skrifar:

     Ágæta  Hildur Helga, —  vegglausnir, þaklausnir, parketlausnir eru auðvitað  orðskrípi sem  enginn maður ætti að  nota. Ég hugsa að þetta  sé  klastur auglýsingamanna, sem  bera  ábyrgð á mörgum ambögum sem  nú vaða uppi í málinu. Tek  svo undir  hvert orð þeirra  Haraldar og  Jóns. Allt er það rétt sem þeir  segja.

  5. Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar:

    Er öllum sama um lausnamiðaðar parketlausnir ?

  6. °Emil R. Hjartarson skrifar:

    Sæll Eiður. Þarfar eru ábendingar þínar. Ég hélt að búið væri að ganga af „áhafnarmeðlimnum“ dauðum en hann gengur sífellt aftur. Hvað finnst þér um orðalagið „tala látinna“ sem nú er í tísku. Þegar stórslys verða og óvíst um afdrif fólks er næstum því alltaf sagt sem svo:“'Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka“. Má ekki stundum  segja t.d.:“Óttast er að fleiri hafi farist“Það má alveg forðast einhæft orðalag í fréttum sem annars staðar. En „víðar er djöfullinn en í Aðalvík“ Á bloggsíðu nokkurri standa þessi  málblóm: „Til að flækja ekki fólk enn frekar í rýminu “ Hvaða rými ?

    „Ég ætla að bera blak fyrir höfuð félaga minna“ og „Fleiri en einn aðili sóttust eftir sama sætinu “

  7. Haraldur Bjarnason skrifar:

    Eiður. Orðið aðili er ofnotað og nánast alltaf óþarft. Ég hnaut líka um orðið áhafnarmeðlimir í frétt um daginn og gerði athugasemd við það á bloggi mínu. Svo ég vitni enn og aftur til Árna Bö., þá man ég að i eina tíð talaði hann um hortitti í íslensku máli, sem hann vildi ekki heyra í útvarpi. Á meðal þessara hortitta voru orðin aðili, aðstaða og magn. Öll óþörf. – Annars sýnist mér að notkun aðila sé sérstaklega kennd í lögfræðinámi og í lögregluskólanum. Í starfi mínu sem frétta- og blaðamaður les ég oft dóma og lögregludagbækur. Þar er þetta orð í hávegum haft. Þetta endurspeglast oft í fjölmiðlunum þegar það er gripið hrátt frá lögreglu eða lögmönnum. 

  8. Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar:

    Allt eru þetta hinar þörfustu ábendingar.

    En hvað finnst mönnum um „lausirnar“ sem hér hafa tröllriðið öllu málfari í nokkur ár ?

  9. Jón Óskarsson skrifar:

    Enn er þakkað.

    Sumir fréttalesarar taka einfaldlega ekki eftir því sem þeir lesa. Páfagaukar sum sé.

    (Verra er þó þegar sumir fréttamenn hlusta ekki á svör viðmælenda sinna.)

    Svo langar mig að minnast á tvö orð sem mér finnst vera ofnotuð þegar annað betra býðst.  Þetta eru orðin manneskja og persóna

    Fréttamenn segja og skrifa t.d. „Tvær manneskjur/persónur voru í bílnum“ þegar dugir að hafa setninguna styttri og fallegri.  „Tvennt var í bílnum.“ / „Tveir voru í bílnum.“

    Ég hef grun um að þeir sem skrifa erlendar fréttir noti orðabók en í ensk – íslenskri orðabók stendur að enska orðið person þýði manneskja og persóna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>