«

»

Molar um málfar LIII

Einkennilega var tekið til orða í frétt á Vefvísi (15.04):„einhverjir mótmælendurnir grýttu grjóti í lögreglumenn á meðan að aðgerðir þeirra stóðu yfir.“ Að grýta grjóti er tugguorðalag. Eðlilegra hefði verið að segja: Einhverjir úr hópi mótmælenda grýttu lögregluna meðan á aðgerðunum stóð. Eða einhverjir úr hópi mótmælenda köstuðu grjóti í lögregluna..

Nú er mikið um skoðanakannanir. Í fréttum RÚV var sagt (14.04.) : „Könnunin var tekin…“ Kannanir eru ekki teknar. Þær eru gerðar. Betra hefði verið að segja: Könnunin var gerð, – eða könnunin fór fram.

Fréttastofa RÚV  bjó til  nýja  borg í  Frakklandi í  fjögurfréttum (15.04). Þar var ítrekað talað um borgina  Kalæ (ritað eftir  framburði). Greinilega var átt  við  ferjuhöfnina  Calais  en  heiti hennar er borið   fram Kale , Kalei. Sú  skylda   hvílir  á þeim sem lesa fréttir  að gera sér það ómak  að kynna sér framburð  erlendra  staðanafna. Sumir kunna  að  telja  þetta  smáatriiði,  en  fagmennskan  felst einmitt í smáatriðum.

Vefvísir bregst ekki frekar en fyrri daginn þegar um ambögur er að ræða. Þar mátti (14.04) lesa: „Haukur Már Helgason ritstjóri dagblaðsins Nei var meinuð aðganga að svæðinu við Vatnsstíg“. Hvað er sá sem svona skrifar að hugsa? Hann er ekki að hugsa. Þarna ætti með réttu að standa: Hauki Má Helgasyni ritstjóra dagblaðsins Nei var meinuð aðganga að svæðinu við Vatnsstíg, eða … var meinaður aðgangur að svæðinu við Vatnsstíg. Nú er atvinnuleysi meira en nokkru sinni fyrr. Ritstjórar hafa ekki lengur þá afsökun að ekki fáist skrifandi fólk til starfa. Þeir eiga að láta svona bögubósa lönd og leið og ráða fólk sem getur hugsað og skrifað á íslensku.

Skíðaskálinn í Hveradölum auglýsir húsnæði fyrir samkvæmi og mannamót. Í auglýsingunni er talað um ættarmót og „reunion“. Orðið „reunion“ er enskusletta.Á ensku er það mjög notað um endurfundi gamalla skólasystkina. Á íslensku mætti til dæmis tala um nemendamót. Skíðaskálinn í Hveradölum ætti að skammast sín fyrir þessa enskuslettu. Hún er óþörf, – rétt eins og aðrar slettur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>