«

»

Molar um málfar og miðla 1130

Gildishlaðinn inngangur þessarar fréttar úr Ríkisútvarpinu (05.02.2013) er einkar óvenjulegur.:
,,Íslendingur aðstoðar nú Grænlendinga við að koma í veg fyrir arðrán alþjóðafyrirtækjanna og ráðleggur um hvernig auka megi tekjur landstjórnarinnar á Grænlandi og koma í veg fyrir að erlendu stórfyrirtækin hirði allan gróðann og flýji úr landi.“
http://www.ruv.is/frett/5-thusund-kinverjar-til-graenlands – Varla til marks umfagleg og vönduð vinnubrögð.

Í frétt á mbl.is (08..02.2013) segir : Mjög mikið álag hefur verið á Landspítalanum vegna yfirlagna á öllu sjúkrahúsinu. Það er svo sem hægt að sjá við hvað er átt í ljósi frétta undanfarinna daga. Inn á sjúkrahúsið hafa verið lagðir fleiri sjúklingar en rými er fyrir með góðu móti. Þetta hefði mátt orða betur.

Reyndur blaðamaður skrifar: ,,Þú mættir alveg vekja athygli á ofnotkun orðsins aðili. Í fréttaskeytum lögreglu er t.d. talað um að aðili hafi verið handtekinn. Enginn getur verið aðili nema eiga aðild að einhverju. Svo er þetta undarlega orðskrípi, samkeppnisaðili. Keppinautur er rétta hugtakið/orðið.
Já. og svo var annað. Talað var í gær í RÚV um að skipið Árni Friðriksson
hefði verið einhversstaðar við rannsóknir – fyrir norðan land á loðnuslóð
minnir mig. Efa stórlega að svo hafi verið – og fiskifræðingurinn sem það er
eftir nefnt er látinn fyrir áratugum. Hins vegar sennilegt, að skipverjar
hafi verið að kanna ástand sjávar og fiskistofna. Þetta er sama meinlokan í
orðalagi eins og þegar lögreglubílar eru sendir á vettvang. Dauðir hlutir
svo sem bílar og skip hafa ekki sjálfstæðan vilja, heldur fara
lögregluþjónar á bíl á staðinn og skipstjórinn stillir áttavitann og siglir síðan skipi sínu til áfangastaðar eða réttrar hafnar”

Það var frumlegt hjá Fréttastofu Ríkisútvarps í gærkveldi (08.02.2013) þegar tveir þingmenn Framsóknarflokksins voru inntir álits á ofurlangri ræðu formanns síns í dag. Báðum þótti ræðan meira en góð ! Nokkur hissa? Hvernig hefði verið að spyrja fólk úr öðrum flokkum?

Í lviðtali (DV.08.01.2013) við Vigdísi Hauksdóttur alþingismann er talað um spillingarstimpilinnn sem svo lengi hefur loðað við Framsóknarflokkinn. Í upphafi eru nefndir til sögunnar ýmsir helstu forkólfar flokksins sem komið hafa við sögu ýmissa fjármálaævintýra sem tengst hafa Framsókn á liðnum árum. Þingmaðurinn neitaði að svara spurningu blaðamanns hvort Framsóknarflokkurinn þurfi að gera þetta tímabil betur upp í sögu sinni.
Undirfyrirsögn viðtalsins er athyglisverð: Vigdís Hauksdóttir segir að umræðan um spillingu Framsóknarflokksins sé tabú. ,, Þetta er bara tabúumræða” segir Vigdís. Sennilega veit þingmaðurinn ekki hvað orðið tabú þýðir.
Í Íslenskri orðabók, bls. 1035 segir um orðið tabú tabú – s HK , bannhelgi, bannhelgur hlutur, tabúorð bannorð. Þegar maður notar erlend eða alþjóðleg orð er alltaf heldur til bóta að vita hvað þau þýða.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>