«

»

Molar um málfar og miðla 1131

Lesandi þakkar þessa pistla (09.02.2013) og segir: Þær eru margar fyrirsagnirnar í dagblöðunum sem pirra mig. Ein þeirra birtist á bls. 16 í mbl. sl. föstudag. „Látnir bíða innan um veikt fólk“.
Þó ég viti að sjálfsögðu að það var ekki átt við látið fólk, finnst mér að það hefði mátt orða þetta öðruvísi:
,,Aldraðir bíða innan um veikt fólk“. Molaskrifari þakkar bréfið.

Fyrirsögn af visir.is (08.02.2013) : Endar Messi ferillinn í Argentínu? Hér ætti fremur að standa: Endar Messi ferilinn í Argentínu?

Hinar vinsælu Hraðfréttir eru svo á dagskrá, var sagt í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (08.02.2013). Hvar eru vinsældamælingarnar?

Lesandi benti á eftirfarandi:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/02/09/thusundir_an_rafmagns/
Í greininni að ofan er talað um HÆÐ á snjó.
Nú kann vel að vera að það sé fyllilega rökrétt, enda er það svo að þegar snjóar, hækkar yfirborðið. Engu að síður hefur verið málvenja á Íslandi að tala um snjóDÝPT. Sú venja hefur væntanlega skapast út frá skilgreiningu yfirborðs. Þannig er snjór á jafnsléttu misdjúpur eftir snjóafari, enda er þá yfirborð hans hið eðlilega og augljósa, almenna yfirborð. Skaflar í lautum eru sömuleiðis mældir á dýpt af sömu orsök. Stakir skaflar á sléttlendi geta hins vegar verið háir, enda er þá yfirborðið umhverfis þá hið eðlilega viðmið.

Meira frá sama lesanda (11.02.2013): http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/02/10/hneyksli_vekur_ekki_upp_hrossahlatur/

Í ofangreindri frétt gefur að líta eftrfarandi setningu:
,,Menn ráku slóðina frá Frakklandi til Rúmeníu í gegnum Kýpur og Holland.“
Þetta hefur verið heilmikill og langur rekstur; væntanlega stóðrekstur, eftir öðru efni greinarinnar að dæma!
Þarna er samt trúlegt að verið sé að hræra saman sögnunum „að reka“ og „að rekja“. Sú fyrrnefnda beygist: reka-rak-rákum-rekið. Sú síðarnefnda aftur á móti: rekja-rakti-röktum-rakið.
Skortur á málkunnáttu/-tilfinningu, umhugsun og prófarkalestri.”
Molaskrifar þakkar sendingarnar.

Frábær umfjöllun Í Kastljósi á föstudagskvöld (08.02.2013) um afrek lækna og hjúkrunarfólks. Þarna kom glöggt í ljós hve góðu starfsfólki við höfum á að skipa í heilbrigðisgeiranum. Þetta er nokkuð sem situr í manni, – gleymist ekki. Takk.

Eftir hina umfangsmiklu Wikileaksumfjöllum í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í liðinni viku þar sem Kristinn Hrafnsson núverandi starfsmaður Julians Assange og Wikileaks og fyrrum starfsmaður Ríkisútvarpsins fékk næstum heilan þátt til umráða hefur lítið sem ekkert heyrst af málinu. Verður ekki framhald eða er málinu lokið í Kastljósi? Við hljótum að fá meira að heyra.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>