«

»

Molar um málfar og miðla 1132

Í fréttum af óveðrinu og fannferginu vestan hafs fyrir helgina var talað um kafaldsbyl. Molaskrifari hefði notað annað orð. Þetta var ekki kafaldsbylur eins Molaskrifari skilur það orð. Svo var sagt (dv.is)að óveðrið hefi verið snjóstormur. Hrá aulaþýðing úr ensku, snowstorm. Sá sem skrifaði hefur sennilega ekki þekkt hið ágæta orð stórhríð. Ríkissjónvarpið talaði um stórhríð, fimbulkulda og fannfergi. Gott mál. Plús fyrir það. Í óveðursfréttunum kom ríkið Connecticut við sögu og fréttamaður Stöðvar tvö flaskaði á framburðinum og talaði um konnektikött. Þetta er ekkert flókið , – það er ekkert k-hljóð inni í orðinu. Í sama fréttatíma var sagt félagsmálstjóri líst ekki á blikuna. Hefði átt að vera – félagsmálastjóra líst ekki á blikuna. Einhverjum líst ekki á eitthvað. Og enn meira úr sama fréttatíma, en þar var sagt að menn hefðu ræðst við undir fjórum augum! Þegar tveir talast við , oft um trúnaðarmál, þá eru þeir að ræða mál undir fjögur augu.

DV á þakkir skildar fyrir að halda Giftarmálinu vakandi (11.02.2013). Þar er í raun á ferð eitt mesta fjármálahneyksli seinni ára. Fámennur hópur ráðstafaði í sjálfboðavinnu 30 milljörðum sem voru eign 40 þúsund viðskiptavina Samvinnutrygginga. Milljarðarnir eru foknir út í veður og vind. DV virðist vera eini fjölmiðillinn sem sinnir þessu máli. Það má ekki gerast ótalið að eign þúsunda sé sólundað með þessum hætti. Menn geta sagt ýmislegt um DV og Molaskrifari er ekki alltaf hrifinn af blaðinu. Þar er hinsvegar stundum tekið á málum sem aðrir fjölmiðlar leggja ekki í að fjalla um. Þora ekki eða vilja ekki.

Frá TH (11.02.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/02/10/bidu_varanlega_averka_vid_gutto/
Fyrirsögn ofangreindrar fréttar hljóðar svo: „Biðu varanlega áverka við Gúttó.“
Málvenja held ég hafi til þessa verið að segja: Hljóta áverka, bíða tjón, bíða bætur. Enda er það gert í greininni sjálfri og engin ástæða er sjáanleg til að fyrirsögn hefði þurft að skrifast í flaustri, þar sem verið er að fjalla um 80 ára gamlan atburð, sem fyrir löngu er kominn yfir „skúbb“-stigið.

Svo kemur hér gömul saga frá velunnara Molanna: ,,Í kringum 1990 var íslenska landsliðið í handbolta á stórmóti erlendis og gekk alveg prýðilega. Raunar náðu Íslendingarnir lengra en vænst var og fyrir vikið rauk kostnaður upp úr öllu valdi, það er vegna gistingar, launa og fleiri þátta. Sjóðir HSÍ voru að tæmast og af þeim sökum var sent út neyðarkall í fjölmiðlum að svo landsliðið gæti lokið sínu með reisn. Og svo var auglýst og orðalagið var eitthvað á þessa leið; styrkið handboltalandsliðið „…. og fylgjum strákunum síðasta spölinn“. – Auglýsingin vakti athygli sakir þessa orðalags, það er sigurgangan breyttist í líkfylgd.” Takk fyrir sendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ég skil það sem mikla snjókomu svona mikið til í logni.Þetta fer sjálfsagt eftir því sem maður venst í æsku. Minn skilingur er sannarlega ekki sá eini rétti. því held ég ekki frram.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Hvernig skilur þú orðið -kafaldsbylur-? Í minni sveit er það hríð með mikilli ofankomu og fannburði samfara verulegri veðurhæð, alvarleg stórhríð. Stórhríð þarf ekki á þeim slóðum að hafa feikilega úrkomu, en að vísu talsverða, þótt illa sjái úr augum vegna kófs og skafrennings en sé kafaldsbylur er úrkoman mikil og ófærð. Þar um slóðir dytti hins vegar aldrei neinum manni í hug, nema þá aðfluttum, að kalla snjókomu byl nema mikill vindur fylgdi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>