«

»

Molar um málfar og miðla 1133

Ótrúleg var baráttusaga og þrautseigja fjölskyldunnar á Patreksfirði,sem sagt var frá í Kastljósi (12.03.2013). Þetta var vel gert innslag en dapurlegt var að hlusta á fyrrverandi sveitarstjóra afneita öllum vísindarannsóknum á krapaflóðinu.

 

Á sprengidag var sagt í fréttum Ríkisútvarps eftir heimsókn í eldhús Landspítalans að þar hefðu verið framleiddir 3000 réttir þann dag. Eðlilegra hefði verið að tala um 3000 máltíðir.

 

Undarlegt er hve fyrrverandi starfsmaður Ríkisútvarpsins ,Kristinn Hrafnsson, núverandi starfsmaður Julians Assange (Wikileaks) á greiðan aðgang að fréttatímum þar á bæ. Það er ekki eðlilegt.

 

Það er góð ráðstöfun hjá Ríkissjónvarpinu að texta viðtöl á íslensku. Vonandi var þetta ekki bara gert í tilefni af degi táknmálsins. Fínn kafli í Kastljósi um heyrnarlaus hjón hjúkrunarfræðing og bifvélagavirkja. Vel gert, vel framsett. (11.02.2013) Með táknmálsfréttum ætti líka að lesa texta eins og gert er sumstaðar á Norðurlöndunum. Það var ágætlega sagt í fréttum Ríkissjónvarps (11.02.2013) var sagt að yfirleitt hefðu páfarnir borið beinin í páfagarði, – í stað þess að nota flatara orðalag eins og andast í embætti eða eitthvað í þá áttina.

 

Gott væri að samræma hjá fjölmiðlum hvernig lesið er úr erlendum skammstöfunum eins og til dæmis FBI og BBC. Molaskrifari er þeirrar skoðunar að nota eigi íslensku bókstafina, ekki þá ensku. Við tölum um Nató ekki neitó eða otan upp á frönsku.

 

Nú hefur dómgreindarleysi stjórnenda ,,hinna vinsælu” Hraðfrétta Ríkissjónvarpsins komið við sögu í umræðum á Alþingi (11.02.2013). Engin furða.

 

Af mbl.is (11.02.2013): Eimskip hefur ákveðið að hefja viðkomur með Ameríkuleið félagsins til Portland, Maine í stað Norfolk .. . Klaufalegt orðalag. Betra hefði verið: Eimskip hefur ákveðið að skip félagsins sem sigla til Bandaríkjanna sigli framvegis til Portland í stað Norfolk. Það sem hér er kallað að hefja viðkomur er að sigla til.

 

Molalesandi benti á eftirfarandi (12.03.2013) á visir.is: ,,Lögreglan í Los Angeles varð sök að nokkuð skelfandi mistökum um daginn.“

http://www.visir.is/afsakid-ad-vid-skutum-thig-i-klessu!/article/2013130219862

Orðskrípið skelfandi hefur Molaskrifari aldrei heyrt áður, – sem betur fer.

 

Það þýðir víst lítið að bera fram spurningar til stjórnenda Ríkissjónvarpsins. Þeir virðast yfir það hafnir að svara spurningum eigenda. En nú er spurt: Hvaða tilgangi þjónar það að endursýna Kastljós kvöldsins klukkan hálf tvö að næturlagi.? Undarleg dagskrárgerð. Liggja fyrir áhorfstölur um þessar endursýningar um hánótt? Og enn og aftur: Hversvegna sýnir Ríkissjónvarpið aldrei erlenda fréttaskýringaþætti? Á fyrstu árum sjónvarpsins voru þættir um erlend málefni fastur liður á daskránni. Nóg framboð er af slíku efni. Í framhjáhlaupi nefni ég þátt sem sýndur var á SR2 (11.02.2013) og ég sá meiripartinn af. Þátturinn er framleiddur af nokkrum evrópskum sjónvarpsstöðum. Hann fjallaði um öldungadeildarþingmanninn illræmda frá Wisconsin, Joseph McCarthy. Vel samansett blanda af gömlum fréttamyndum, leiknum atriðum og viðtölum við samtímamenn. Þar sagði einn þessa eftirminnilegu setningu: ,,Þegar stjórnmálamaður deyr mæta 99% kollega hans í jarðarförina. En það grætur enginn.” Í þættinum var líka sýnt frá yfirheyrslum í þingnefnd þegar McCarthy var að rannsaka það sem hann kallaði starfsemi kommúnista í bandaríska hernum. Þá ofbauð lögfræðingi hersins svo að orð hans hafa orðið fleyg, Hann sagði við þingmanninn: ,,Have you no sense of decency, sir? At long last, have you left no sense of decency?” Hefur þú enga sómatilfinningu? Að endingu þetta: Hefur alls enga sómatilfinningu lengur?” En þetta var nú langur útúrdúr. En hversvegna fáum við aldrei að sjá efni á borð við þetta?

Og svo að lokum hvernig er aldursdreifing þeirra sem horfa á Ríkissjónvarpið frá klukkan 1500 á daginn fram að fréttum og milli klukkan 2200 og klukkan eitt eftir miðnætti.?

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér athugasemdina, Kristján. Þetta er asnaleg fyrirsögn nákvæmlega í sama stíl og Helgi Haraldsson prófessor í Osló gerði grín að hér nýlega. Efnisval Ríkissjónvarpsins er ömurlegt, unglinga efni í ruslflokki og mikið af lélegum amerískum afþreyingarþáttum.

  2. Kristján skrifar:

    „Munntóbakið valdi hrinu krabbameina“. Þetta er fyrirsögn í Fréttabl. í gær. Þú hefur fjallað um þessa nýju tegund fyrirsagna að undanförnu.

    Algjörlega sammála með vöntun á vönduðum erlendum fréttaskýringaþáttum. Svoleiðis þættir eru sýndir á besta tíma í Danmörku, Noregi og Svíþjóð (prime time). Kl.20:05 í kvöld
    er hin vandaða bandaríska þáttaröð um ungar fimleikadömur, hér á RÚV.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>