«

»

Molar um málfar og miðla 1149

Fengu alls tæp tíu ár fyrir nauðgun, segir í fyrirsögn á mbl.is (01.03.2013). Fréttin er um fangelsisdóma sem tveir menn fengu fyrir að nauðga stúlku. En hvaða tilgangi þjónar að leggja saman lengd fangavistarinnar sem hvor um sig var dæmdur til að afplána? Það liggur ekki í augum uppi.

Þú þarft ekki tilefni fyrir góðri stund, segir í sjónvarpsauglýsingu á Stöð tvö (01.03.2013). Málvenja er að tala um tilefni til, ekki tilefni fyrir. Nú er tilefni til að halda veislu.

Við skulum sjá hverjir sigra kosningarnar! Svo mælti Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins í Vikulokum á Rás eitt (02.03.2013). Þingmaðurinn hefur líkast til aldrei heyrt að menn sigra ekki kosningar. Menn og málefni geta unnið kosningasigra, geta sigrað í kosningum. Það sigrar enginn kosningar.

Í kjallaragrein í Fréttablaðinu skrifar ,,ráðgjafi”: ,, …vegna þess að hún hlýddi ekki vinstrimönnum og andstæðingum Sjálfstæðisflokksins , sem vildu stjórnast með hana… “ orðalagið að stjórnast með , kannast Molaskrifari ekki við að hafa heyrt áður. Hér hefði greinarhöfundur getað sagt: ,, sem vildu stjórna henni …” Þessi ráðgjafi er sennilega ekki málfarsráðgjafi.

Hversvegna tekur auglýsingadeild Ríkisútvarpsins við auglýsingum sem eru augljóslega efnislega rangar? Dæmi: Auglýsing frá Rúmfatalagernum (01.03.2013): Afnemum virðisaukaskatt af öllum vörum, segir í auglýsingunni. Þetta er efnislega rangt. Rúmfatalagerinn hefur ekki heimild til að afnema virðisaukaskatt. Hann getur hinsvegar veitt viðskiptavinum afslátt frá vöruverði sem jafngildir virðisaukaskattsprósentunni. Með svipuðum hætti auglýsir Korputorg Tax free daga um helgina, nema þar bætist við enskusletta. Stundum er eins og talsverður skortur sé á heilbrigðri skynsemi á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins. Þar virðast menn oftar en ekki taka gagnrýnilaust við öllu sem að þeim er rétt.

Trausti benti á eftirfarandi: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2013/03/01/fitan_audlind_en_ekki_vandamal/
Kannski var þá grúturinn í Kolgrafarfirði bara svona illa misskilin auðlind! – Það er engu líkara!

Ég ætla að fara yfir allar spurningar sem voru spurðar, sagði dómari í þætti Ríkissjónvarpsins Gettu betur (01.03.2013). Um hvað voru spurningarnar spurðar? Þessi þáttur er ekki sérstaklega vel heppnaður.

Í grein um nýja gerð Chevrolet bíla í Fréttatímanum (01.-03.03.2013) segir: Sætin eru klædd handgerðu leðri. Handgert leður? Bull. Varla er um að ræða gervileður, pleður, en gífurlegt magn af því er framleitt í Kína. Á ensku heitir það pleather = plastic leather. Framleiðslunni fylgir mikil mengun. Oft er erfitt að sjá mun á pleðri og ekta leðri. Belti úr pleðri endist svona í eitt eða tvö ár, byrjar þá að trosna og molna. Ferðamenn sem versla á mörkuðum í Kína þurfa að gæta sín á sölumönnum pleðurs sem hiklaust ljúga til um ágæti vöru sinnar. Í ár eru annars 95 ár síðan fyrsti Chevroletbíllinn var fluttur hingað til lands. Síðan hafa þeir verið á íslenskum vegum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>